Við sögðum frá skoskri eyju til sölu í síðustu viku, en fyrsta boð í eyjuna var uppá 35 milljónir króna. Við ákváðum því að fara á stúfana og skoða okkar nærumhverfi til að sjá hvers konar fasteign við gætum nælt okkur í fyrir sama verð og sett var á eyjuna fögru.
67 fermetrar í Hafnarfirði
Ef við byrjum leitina á höfuðborgarsvæðinu, þá gætum við fjárfest í rétt rúmlega 67 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi við Víðivang í Hafnarfirði. Ásett verð er 34,9 milljónir en fasteignamatið stendur í 24,2 milljónum. Íbúðin er búin einu svefnherbergi, einu baðherbergi, stofu og svölum. Í raun er íbúðin sjálf aðeins rétt rúmlega 61 fermetri þar sem inní fermetratölu er tekin geymsla í kjallara sem er 6,2 fermetrar.
Eldhús fyrir handlagna
Fyrir sama verð, eða 34,9 milljónir króna. er hægt að hreiðra um sig í 52,9 fermetra íbúð við Boðagranda í Reykjavík. Um er að ræða tveggja herbergja íbúð í lyftuhúsi með bílastæði í bílakjallara. Hér gæti handlaginn einstaklingur tekið til hendinni þar sem aðeins er farið að slá í eldhúsinnréttinguna en á baðherberginu er hins vegar nýlegur vaskur og klósett.
Snoturt athvarf í Skógarási
Í Skógarási í Árbæ í Reykjavík er einnig íbúð í fjölbýlishúsi fyrir 34,9 milljónir. Sú er 73,3 fermetrar, þar af 6,2 fermetra geymsla. Íbúðin er búin einu baðherbergi og einu svefnherbergi en mikið er búið að gera fyrir íbúðina eins og sést á myndum. Þó er einhver kostnaður við sameign yfirvofandi þar sem til stendur að skipta um hurðir.
Útsýni ekki metið til fjár
Og enn af fjölbýlishúsum, því í Æsufelli í Breiðholti er 97,6 fermetra íbúð á 34,9 milljónir króna. Íbúðin er búin 1 baðherbergi og tveimur svefnherbergjum og er hún á þriðju hæð. Þá fylgir íbúðinni einnig 7,4 fermetra geymsla í kjallara. Útsýnið er svo ekki hægt að meta til fjár og búið er að endurnýja bæði baðherbergi og eldhús.
54 fermetrar í 101
Þeir sem vilja halda sig í miðbæ Reykjavíkur gætu kíkt á 54 fermetra íbúð við Laugaveg sem er einmitt líka á 34,9 milljónir. Um er að ræða tveggja herbergja íbúð í fjölbýlishúsi við þessa annasömu verslunargötu. Íbúðin er smekklega innréttuð, en tekið er fram í fasteignaauglýsingunni að tilvalið sé að leigja íbúðina út til ferðamanna.
Möguleikar í Reykjanesbæ
Ef fólk vill færa sig aðeins út fyrir höfuðborgarsvæðið, væri hægt að kíkja á fjögurra herbergja íbúð við Hólabraut í Reykjanesbæ á 34,9 milljónir. Um er að ræða 165,1 fermetra íbúð, þar af bílskúr uppá 22,7 fermetra. Eignin býður vægast sagt upp á mikla möguleika og hentar barnafjölskyldum afar vel þar sem hún er búin fjórum svefnherbergjum.
Fimm svefnherbergi og tvö baðherbergi
Þá væri hægt að prútta aðeins og taka til greina tæplega 180 fermetra einbýlishús við Brekastíg í Vestmannaeyjum á 35,5 milljónir króna. Húsið er búið tveimur baðherbergjum, fimm svefnherbergjum og bílskúr sem er 18 fermetrar og þarfnast enduruppbyggingar. Búið er að endurnýja talsvert í húsinu og gæti stór fjölskylda látið fara vel um sig hér.
Bílskúr á tveimur hæðum
Þeir sem myndu vilja færa sig lengra austur gætu nælt sér í tæplega 280 fermetra einbýlishús við Ullartanga á Egilsstöðum á 34,5 milljónir króna. Húsið er einnig búið tveimur baðherbergjum og fimm svefnherbergjum. Bílskúr á tveimur hæðum fylgir húsinu en hann er fremur hrár. Þessi eign er tilvalin fyrir þá sem vilja taka til hendinni og gera hana upp, en hún býður upp á mikla möguleika.
Hlýlegt á Húsavík
Norður á Húsavík er síðan 185,6 fermetra einbýlishús við Laugarbrekku á 33,7 milljónir króna en athygli vekur að brunabótamatið er 40,7 milljónir. Um er að ræða tvö baðherbergi, fjögur svefnherbergi og bílskúr sem er 37,8 fermetrar. Fallegur garður umlykur húsið og er það einstaklega hlýlegt og snoturt.
Ef þessir veggir gætu talað
Fyrir þá sem myndu vilja hreiðra um sig á Vestfjörðum er hér 377 fermetra einbýlishús við Sólgötu á Ísafirði á 35 milljónir króna. Í húsinu eru tvö baðherbergi og fjögur svefnherbergi en einnig er eignin búin kjallara og rislofti. Ljóst er að mikil sál er í þessu húsi þar sem það var einu sinni samkomustaður, ballstaður, prentsmiðja og fleira. Ó, ef þessir veggir gætu talað!
Gult og glæsilegt
Við endum fasteignarúntinn á Akranesi, þar sem 170 fermetra einbýlishús við Heiðargerði fer á 34,5 milljónir króna. Fjögur svefnherbergi og eitt baðherbergi er í húsinu sem er fallega gult að lit að utan og fer því ekki framhjá neinum. Hér er klárlega eign sem væri hægt að gera ansi mikið fyrir, ef áhuginn er fyrir hendi.
Texti / Lilja Katrín
[email protected]