Íbúar í Norðurbænum í Hafnarfirði eru æfir yfir því sem börnunum þeirra var boðið upp á í hádeginu í dag. Mynd af matnum má sjá hér fyrir ofan og er óhætt að segja að fæstum þyki þetta girnilegt.
Samkvæmt lýsingu átti að bjóða upp á hakkbollur með soðnum kartöflum og brúnni sósu. Það síðast nefnda vantaði alveg. Innan Facebook-hóps íbúa í hverfinu þá er fólki ekki skemmt. „Hvað meinarðu, það var líka splæst í tómatsósu on the side ( sagt með miklum kaldhæðnistón)?,“ segir ein kona. Meðan önnur spyr: „Hvar er grænmetið? Það hlýtur að vera einhvers staðar??“
Sú þriðja segir dóttur sína hafa sagt sér nánar hvernig þetta var. „Það var ekki boðið upp á neitt grænmeti segir dottir mín. Það er alveg eins gott að stoppa bara hádegismat á meðan á þessu stendur ef maturinn verður borinn svona fram,“ segir hún og önnur kona hefur svipaða sögu að segja. „Dóttir mín fékk þetta líka en fékk smá sósu með en það voru 5 börn sem fundu hár í matnum sínum,“ segir sú.
Einn maður segir einfaldlega um málið: „Skítt með börnin og aldraða. Bara að græða sem mest“