Nokkur af þeim áhugaverðu ummælum sem voru látin falla í vikunni.
„Ef við göngum að kröfum Eflingar eins og þær eru settar fram núna erum við ekki bara að hækka laun í samræmi við lífskjarasamningana heldur til viðbótar þannig að þeir sem áttu að bíða eða fá í raun minni kjarabætur, þeir sem eru með heldur hærri laun, háskólamenntað fólk og svo framvegis, væru orðin ansi nálægt ófaglærðum í kjörum og við vitum það sem tengjast þessum samningum að það yrði aldrei samþykkt af öðrum viðsemjendum.“ -Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
„Á Íslandi má refsa þér alla ævi fyrir að hafa ekki sest á skólabekk.“ -Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
„Tilvist manna í skóla er sjaldan merkilegri en tilvist manna utan skóla og reynsla sem menn öðlast í skóla er sjaldan mikilvægari en sú sem fæst utan skóla.“ -Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
„Þegar það að finna sig best í klæðnaði, sem telst ekki hefðbundinn hjá vestrænum, karlkyns, íhaldssömum stjórnmálamönnum, er sagt stuðningur við óhæfuverk, jafnvel gyðingahatur, er mér eiginlega nóg boðið.“ -Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Tilefnið ummælanna eru pistlaskrif Einars S. Hálfdánarsonar í Morgunblaðinu, þar sem hann segir rauðan hálsklút sem Logi klæðist stundum talinn stuðningsyfirlýsingu við „gyðingahaturs- og hryðjuverkasamtökin Hamas“.
„Umbótaöflin á Íslandi eru í sókn. Þau myndu styrkjast enn frekar með endurnýjun VG og málefnalegri og virkri fjarlægð flokksins frá núverandi varðstöðu um óbreytt valdakerfi í landinu. Ella á VG að mínu mati ekkert betra skilið en að bíða afhroð í næstu þingkosningum.“ -Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði.
„Varðhundar kerfisins, aðallega þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar detta hins vegar í gamalkunnugt gelt. Stóru orðin voru ekki spöruð. Þingmenn minnihlutans voru kallaðir loddarar og lýðskrumarar fyrir það eitt að kalla eftir auknu gegnsæi og upplýsingum um grundvallarmál sem tengjast auðlindanýtingu.“ -Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er undrandi á viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins við beiðni stjórnarandstöðunnar á Alþingi um Namibíuskýrslu.
„Eru mannaráðningar í skjóli leyndar eðlilegar á fjölmiðli sem á allt sitt undir gagnsæi?“ -Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, um leynimakkið í kringum ráðningu nýs útvarpsstjóra.
„Þetta var frekar brjálað augnablik.“ -Hildur Guðnadóttir tónskáld um augablikið þegar hún veitti viðtöku Óskarsverðlaununum viðtöku og sá heimsþekkt tónskáld á borð við John Williams úti í sal.