Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

„Þetta virðist vera tækni og þessi tækni heitir þöggun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ár er liðið síðan leikarinn Bergur Þór Ingólfsson og fjölskylda hans höfðu hátt vegna uppreistar æru tveggja dæmdra barnaníðinga. Bergur Þór segir margt svipað í sínu máli og máli stúlknanna sem hafa sakað lögreglumann um kynferðisbrot. Hann segir ljóst að rannsaka þurfi rannsókn mála stúlknanna en spyr sig hvort einhver sé hæfur til þess á landinu.

„Þetta ætti að vera risastórt mál, bæði fyrir stjórnvöld og lögregluna. Hvar sem er í heiminum lægi heiður yfirvalda undir.

Ég hef enga ástæðu til að vefengja frásögn Helgu og Kiönu. Ég trúi líka á réttarkerfið en ekki gagnrýnislaust. Ef rannsókn málsins var jafnábótavant og komið hefur fram í fjölmiðlum grefur það undan öllu trausti. Var 11 ára barn ekki sent í læknisskoðun eftir að það segir frá kynferðislegri misnotkun af hendi stjúpforeldris? Var meintur gerandi sem starfar í lögreglunni hugsanlega ráðgefandi á vettvangi við rannsókn málsins? Hvers vegna var honum ekki vikið frá á meðan á rannsókn stóð? Hvers vegna er frásögn barns í Barnahúsi ekki tekin gild? Hvaða ástæður liggja að baki því að þrjár ásakanir um kynferðislega misnotkun lögreglumanns á börnum eru ekki rannsakaðar sem eitt mál? Var heimatilbúið Excel-skjal tekið gilt sem fjarvistarsönnun? Ég held að Halldóra Baldursdóttir, móðir meints brotaþola, sé ekki eina foreldrið sem vilji fá svör við þessum spurningum. Ég held að allir foreldrar landsins vilji fá að vita hvernig tekið verður á móti þeim komi þau til með að standa í hennar sporum,“ segir leikarinn Bergur Þór Ingólfsson um mál kvennanna tveggja, Helgu Elínar og Kiönu Sifjar, sem hafa stigið fram í Mannlífi og sakað lögreglumann um kynferðisbrot þegar þær voru á barnsaldri. Alls voru þrjár stúlkur sem sökuðu manninn um kynferðisbrot en málin voru látin niður falla vegna ónægra sannanna.

„Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið“

Eiga skilið að þetta sé hreinsað

Bergur Þór og fjölskylda hans hafði svo sannarlega hátt á síðasta ári í kjölfarið á þeim fréttum að Robert Downey, dæmdur barnaníðingur sem hafði meðal annars brotið gróflega á dóttur Bergs, hefði fengið uppreist æru og lögmannsréttindi sín aftur. Á sama tíma fékk annar dæmdur barnaníðingur, Hjalti Sigurjón Hauksson, uppreist æru. Bergur Þór, fjölskylda hans og nokkrir brotaþolar Roberts, linntu ekki látunum og skók málið samfélagið, ekki síst þegar upp komst að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, hafði veitt fyrrnefndum Hjalta góða umsögn þegar hann sótti um uppreist æru. Afleiðingar þessarar miklu baráttu var að ákvæði um uppreist æru var fellt úr almennum hegningarlögum og Björt framtíð ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn og þar með féll ríkisstjórnin.

Á laugardaginn verður eitt ár síðan að Bergur Þór, hans nánustu og brotaþolar Roberts Downey byrjuðu að hafa hátt. Hann segir mál Helgu Elínar og Kiönu Sifjar minna um margt á sína eigin baráttu.

„Þeim virðist vera gert jafn erfitt fyrir og okkur að láta rödd sína berast. Ég veit ekki hvað skal kalla þetta, hvort þetta er afskiptaleysi, áhugaleysi eða samtrygging. Það er eins og sumt fólk tengi hreinlega ekki við þetta eða óttist að tala um þetta. Í okkar máli byrjuðum við á að spyrja forsetann, sem benti á stjórnarskrána, sem benti á ríkisráð, sem benti á forsætisráðherra, sem benti á dómsmálaráðherra, sem benti á persónuverndarlög og svo framvegis. Endalaust. Þetta virðist vera aðferðin sem notuð er til að þagga mál niður. Að lokum reis forsetinn upp úr þessu rugli og gaf út yfirlýsingu vegna málsins með afgerandi hætti en ég veit ekki af hverju aðra æðstu ráðamenn skorti hugrekki til að taka af skarið. Þegar við erum að fjalla um börn ættum við að rísa upp á afturlappirnar og veita þeim vernd. Kiana og Helga hafa gengið í gegnum það sama og við en á miklu lengri tíma. Þær eru ótrúlega hugrakkar og búa yfir þvílíkum styrk að hafa haldið þetta út. Þær eiga það skilið, sem og börn framtíðarinnar, að þetta sé gert upp og að þetta sé hreinsað. Ef þeim hefur dottið í hug að skálda þetta upp ellefu ára gömlum, þyrfti einmitt líka að rannsaka hvaðan hugmyndir um kynlíf fullorðinna með börnum eru fengnar,“ segir Bergur.

„Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

- Auglýsing -

Best væri ef málið væri tekið upp aftur

Í viðtali við Mannlíf benti Halldóra Baldursdóttir, móðir Helgu Elínar, á ýmsa vankanta á rannsókn máls dóttur sinnar. Til dæmis að sakborningur hafi farið með rannsakendum á vettvang þegar sumarbústaður þar sem brotin áttu að hafa átt sér stað var rannsakaður. Einnig sagði hún að málið hefði verið látið niður falla meðal annars vegna vitnisburða vinahjóna sakbornings sem voru með í för í bústaðnum. Báru þau við minnisleysi vegna drykkju. Sakborningi var ekki vísað úr starfi á meðan málin voru rannsökuð og starfar hann enn innan lögreglunnar. Þá hefur Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, ekki viljað tjá sig um málið. Embætti ríkislögreglustjóra hefur bent á að ekki hafi verið unnt að vísa sakborningi úr starfi á meðan á rannsókn stóð vegna þess að ríkissaksóknari hafi neitað embættinu um nauðsynleg gögn. Það er hins vegar mat innanríkisráðuneytis að ríkislögreglustjóri hafi ekki þurft þessi gögn til að leggja mat á hvort rétt væri að vísa manninum úr starfi um stundarsakir.

Bergur Þór segir ljóst að það þurfi að rannsaka hvernig staðið var að rannsókninni á sínum tíma.

- Auglýsing -

„Réttvísin á að vera blind en ekki á þann hátt að hún loki augunum fyrir öllu óþægilegu. Réttlætisgyðjan er með bundið fyrir augun svo hún fari ekki í manngreinarálit. Það á ekki að skipta máli í hvaða stjórnmálaflokki þú ert eða í hvaða íþróttaklúbbi, hver hörundslitur þinn er eða trú. Fólk sem hefur menntað sig í lögum og reglum á ekki að njóta neinna sérkjara liggi það undir grun. Hvernig þetta mál virðist hafa verið unnið er ekki til að auka traust almennings á lögregluna. Rannsóknina þarf að rannsaka. Best væri ef málið yrði tekið upp aftur,“ segir Bergur Þór og bætir við að hann kannist vel við það sem stúlkurnar séu að lenda í – að hvert embætti bendi á annað.

„Það er nákvæmlega það sama og við stóðum frammi fyrir. Þetta virðist vera tækni og þessi tækni heitir þöggun. Að þegja. Að svara ekki. Að takast ekki á við þetta. Að benda hver á annan. Að reiðast pínulítið. Að vitna í gömul lög og hefðir, helst þannig að almenningur skilji alls ekki neitt. Þetta virðist vera skilyrt og lærð leið til að takast á við svona leiðindi. Það getur verið að þetta sé ómeðvitað en þetta heitir ekkert annað en þöggun.“

Viðbrögð stjórnvalda viðhéldu ofbeldinu

Að mati Bergs Þórs, hvað geta þær Kiana og Helga, og ef til vill þriðja stúlkan, gert í málinu eins og sakir standa?
„Það sem þær eru að gera núna er í raun eina leiðin. Þær hafa í rauninni engu að tapa og hafa gert þetta algjörlega frábærlega. Þær hafa bent á vankantana og hafa staðið í þessari baráttu mjög skynsamlega finnst mér. Mér finnst þær vera hetjur,“ segir Bergur Þór.

„Réttarkerfið á Íslandi er til háborinnar skammar“

Er hann lítur yfir síðasta árið segist hann enn vera að vinna úr þessari háværu baráttu sem tók sinn toll af fjölskyldunni. Hann gleðst samt yfir því að aðrir sem hafi svipaða sögu að segja treysti sér til að opna sig.

„Við sögðum um áramótin: Gleðilegt nýtt ár og fari 2017 fjandans til,“ segir Bergur Þór, staldrar við eitt augnablik og heldur svo áfram. „Við erum öll að vinna úr þessu enn þá. Þessi viðbrögð sem við fengum frá stjórnvöldum endurvörpuðu ofbeldinu og viðhéldu því. Í kjölfarið blossaði #metoo-byltingin upp þannig að þetta er ekki búið. Bara að þessar konur séu að stíga fram núna, eftir að móðir annarrar þeirra hafi hrópað út í tómið í átta ár, sýnir okkur það. Auðvitað erum við ánægð með að það sé komin leið til að ræða þetta. En þetta situr náttúrlega í okkur. Það tekur tíma að vinda ofan af þessu öllu saman, ekki síst þöggunartilburðum stjórnvalda. Það virðist eins og allt kerfið vinni á móti fólki í svona málum. Í okkar máli var eins og hefðir og úrelt lög væru ofar skynsemi og manngildum. Við erum heldur alls ekki ánægð með hvernig lögunum um uppreist æru var bara kippt úr sambandi án alls samhengis eða annarra úrræða. Enn mega margdæmdir barnaníðingar aka skólabílum og mæta sem lögmenn í Barnahús lögum samkvæmt,“ segir Bergur Þór.

Var baráttan þess virði?
„Að sjálfsögðu var þetta allt þess virði. Ég vil til dæmis benda á það að Anna Katrín Snorradóttir fékk viðurkenningu frá lögreglunni um að frásögn hennar væri tekin trúanleg þótt málið teldist fyrnt. Það er allavega hálfur sigur. Fjölmiðlar stóðu sig mjög vel og við vorum heppin að við höfðum hátt að sumri til því þá var ekkert Alþingi eða veiðigjaldafrumvarp til að aftengja umræðuna. Ef þetta verður ekki lagað verða einungis fréttir af svona málum þegar þingið fer í sumarfrí sem er sorglegt.“

Mynd / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -