Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

„Þingið þorði ekki í þetta sinn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frum­varp Pírata um af­nám refs­inga fyr­ir vörslu neyslu­skammta fíkni­efna var fellt á Alþingi aðfaranótt þriðjudags þegar 18 þingmenn greiddu málinu atkvæði en 28 greiddu atkvæði gegn því. Níu þingmenn greiddu ekki atkvæði og átta þingmenn voru fjarverandi. Málið hefur vakið athygli og skapað mikla umræðu.

„Þau viðbrögð sem ég hef fengið eru jákvæð, þ.e.a.s. ég hef fengið mikið af þökkum og hvatningu,“ segir Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í samtali við Mannlíf þegar hún er spurð út í þau viðbrögð fólks við niðurstöðunni sem hún hefur orðið vör við. „Ég finn fyrir stuðningi og kærleika. Það er yndislegt og hvetur mann áfram að sjá að þetta skiptir fólk miklu máli.“

Hjakkað í sama farinu í áratugi

Halldóra segist telja að margt fólk vanmeti hversu stórt og mikilvægt skref það yrði að afglæpavæða neysluskammta. „Umræðan er oft byggð á misskilningi á því hvað fíkn er. Þetta er ekki þannig að þegar fólk prófar vímuefni þá breytist það sjálfkrafa í fíkla. Fíkn snýst um tilfinningalegt ástand þar sem fólk er á flótta, oft vegna áfalla. Og þegar verið er að refsa fólki með fíknisjúkdóma fyrir að nota vímuefni, þá hefur það ekki þau áhrif að fólk hætti að nota. Það er verið að jaðarsetja einstaklingana meira í stað þess að aðstoða þá við að ná bata. Þegar maður áttar sig á þessari grundvallarhugmynd um hvað fíkn er þá sér maður að refsistefnan er galin,“ útskýrir Halldóra.

Halldóra telur að nú sé búið að hjakka í sama farinu of lengi og nú sé kominn tími á breytingar. Hún segir refsistefnuna einungis hafa dýpkað vanda fólks með fíknisjúkdóma.

„Fíkniefnastríðið er ekkert annað en stríð gegn fólki.“

„Fíkniefnastríðið er ekkert annað en stríð gegn fólki. Árangurinn er nákvæmlega enginn. Þegar við erum búin að reyna eitthvað í 40 plús ár án þess að ná árangri þá hlýtur að vera kominn tími til að prófa eitthvað nýtt.“

- Auglýsing -

Hún segir að málið snúast að miklu leyti um að byggja upp traust á milli fólks með fíknisjúkdóma og lögreglu. „Við viljum t.d. geta treyst því að fólk geti haft samband við lögreglu ef það þarf aðstoð. Fíklar geta ekki gert það eins og staðan er núna.“

Ekkert heyrt um vinnu heilbrigðisráðherra fyrr er núna

Margir þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði gegn málinu sögðu að þeir væri efnislega sammála innihaldi frumvarpsins en að móta þyrfti umgjörðina betur.

- Auglýsing -

„Við vorum alveg til í að fara vægari leið,“ segir Halldóra og vísar til þess að Píratar lögðu til að breyta frumvarpinu í þingsályktun og fela heilbrigðisráðherra að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu á vörslu neysluskammta vímuefna næsta haust. Hún segir Pírata hafa viljað fá tryggingu fyrir að eitthvað yrði gert í málinu. „Það var ekki áhugi fyrir því. Þetta var eina leiðin,“ segir hún.

„Annars er núna að koma fram söguþráður frá meirihlutanum þar sem Píratar eru málaðir upp líkt og okkar fókus hafi verið að neyða þau til að taka afstöðu til málsins einungis til að láta þau líta illa út þegar raunin er sú að við fórum einfaldlega fram á að frumvarpinu yrði ekki vísað til ráðherra án fullvissu um að sú leið myndi skila frumvarpi um afglæpavæðingu til þingsins,“ segir Halldóra og vísar meðal annars í pistil Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns Vinstri grænna. Í pistil sinn skrifar hann m.a.: „Það sérkennilega hér var þó aðPíratar heimtuðu að þingmenn annarra flokka afsöluðu sér rétti sínum til að greiða atkvæði í þingsal eftir samvisku sinni. Þannig vorum við ansi mörg sem töldum frumvarpið ekki tækt til afgreiðslu en studdum hugmyndina að baki því.“

Hann skrifar einnig um vinnu heilbrigðisráðherra að afglæpavæðingu neysluskammta, hann segir ráðherra ætla að leggja málið fram á næsta þingi.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri af þessari vinnu.“

„Allt í einu er ég farin að heyra og sjá í pistlum frá meirihlutaþingmönnum að það sé eitthvað frumvarp í vinnslu hjá heilbrigðisráðherra. Að það sé einhver vinna í gangi. Ég vona innilega að það sé rétt og við Píratar myndum styðja það heilshugar ef svo væri. En þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri af þessari vinnu.“

Jákvætt að sjá umræðu eiga sér stað

Halldóra segir kostina vera þá að málið hefur vakið margt fólk til umhugsunar. „Það er fallegt að sjá hvað almenningur er orðinn meðvitaður um þennan málaflokk og hvað það er skýrt að íslenskt samfélag er tilbúið til að velja mannúðlega stefnu sem virkar. Þingið þorði ekki í þetta sinn en ég finn að almenningur er búinn að hafna refsistefnunni og það er mikilvægasta skrefið í átt að endalokum hennar,“ segir Halldóra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -