Mánudagur 25. nóvember, 2024
-7.2 C
Reykjavik

Þingmaðurinn Anna Kolbrún glímir við krabbamein: „Þetta var dauðadómur þegar ég greindist“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta var dauðadómur í mínum huga þegar ég greindist,“ segir Anna Kolbrún Árnadóttir, alþingismaður Miðflokksins, sem hefur glímt við brjóstakrabbamein í áratug sem hefur dreift sér víða um líkamann. Hún segir að um sjaldgæfa tegund brjóstakrabbameins sé að ræða sem greinist sjaldan í ungum konum en hún var 41 árs þegar hún greindist. „Ég fékk þær upplýsingar strax að það yrði ekki hægt að skera meinið í burtu eða fara í geisla og hef ég verið síðan í lyfjameðferð og fer núna á þriggja vikna fresti.“

Anna Kolbrún hefur meðal annars fengið æxli í eitla, háls og kviðarhol og svo myndaðist á sínum tíma vökvasöfnun eða bólgur við hjartað. „Það var í eina skiptið sem ég fór í skurðaðgerð en það var til að bregðast við vökvasöfnuninni við hjartað.“ Æxli greindist síðast í leghálsinum. „Ég var dálítið fegin að það var sömu tegundar og hin af því að það hefði verið verra ef það hefði verið önnur tegund; þá hefði þurft að fara að hræra í lyfjunum og gera einhverjar erfiðari ráðstafanir.“

Anna Kolbrún segist vita þegar nýtt æxli sé að stækka. „Ég finn þegar eitthvað er að gerast. Ég veit að það er þá eitthvað vesen inni í mér.“

Hún segist vera löngu hætt að telja þegar nýtt æxli, sem hún kallar bólgu, finnst.

Ég finn þegar eitthvað er að gerast. Ég veit að það er þá eitthvað vesen inni í mér.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir

- Auglýsing -

 

Ekkert „ef“ heldur „þegar“

Álagið er búið að vera mikið í áratug. Álag, áhyggjur og ótti en Anna Kolbrún ber sig vel.

- Auglýsing -

„Þetta er einhvern veginn alltaf yfir og allt í kring. Svo er spurning hvort maður hleypi því að eða hvort maður reyni að komast fram hjá hugsununum. Auðvitað hugsa ég oft um fjölskylduna og þegar eitthvað gerist því það er ekkert „ef“ heldur „þegar“. Ég veit það ekki; ég er kannski bara svona praktískt þenkjandi. Ég virka kannski voðalega hörð í þessu en það er kannski bara mín leið. Fólk hefur spurt hvernig ég hafi það og ég hef reynt að segja það en þá er fólk ekki að hlusta. Og þá fer maður að velja dálítið úr við hvern maður talar og segir frá af því að stundum hef ég sagt of mikið og fólk getur kannski ekki meðtekið það af því að því finnst það vera svo svakalegt sem maður er að segja. Maður þarf þess vegna að finna þennan meðalveg og fara rólega í gegnum lífið.“

Hún sagðist kannski virka voðalega hörð.

„Ég græt með sjálfri mér og mínum nánustu en ég lít stundum betur út heldur en mér líður. Ég þakka það að ég er mjög skipulögð þannig að ég geti hagað lífi mínu svona; ég næ að ná þessu einhvern veginn mjög vel saman í einhverju samspili. Sálarlífð er upp og niður. Ég er að eðlisfari jákvæð og ég sé yfirleitt tækifæri í flestum aðstæðum.“

Hún segist halda bara áfram. Að lifa lífinu lifandi. „Maður þarf að halda áfram þannig að það hentar mér að hafa nóg fyrir stafni. Ég man að þegar læknirinn spurði á sínum tíma hvort ég gleymdi því stundum að ég væri veik að þá gat ég svarað því játandi. Og það er ákveðinn sigur í sjálfu sér þegar manni líður þannig. En svo inn á milli ligg ég alveg flöt í rúminu og get mig ekki hreyft; það eru yfirleitt lyfin sem hafa þessi áhrif. Þessar aukaverkanir eru þekktar. Fólk heldur að maður missi hárið í lyfjameðferð og þá sé maður veikastur en hitt er ekki sýnilegt. Ég hef aldrei misst hárið af því að ég er ekki á þannig lyfjum.“

Anna Kolbrún segir að nú sé staðan þannig að allt er „til friðs“. „Við tökum stöðuna þriðju hverja viku ef við getum sagt sem svo. Ég fór í tölvusneiðmyndatöku um daginn og það var engin versnun þannig að núna finnst mér ég vera örugg í einhvern tíma. Og vonandi sem lengst. En ef ég á að segja eins og er þá átti ég ekki von á því að ég yrði svona lengi lifandi þegar ég greindist fyrst. Stundum gerist þetta svo hratt að fólk fær ekki tíma til þess að undirbúa sig. Þó að höggið verði alltaf þá skiptir tíminn svo miklu máli í þessu. Það er kannski kosturinn, hin hliðin á þessu, að hafa verið að kljást við þetta svona lengi; að maður fékk þó þennan tíma til að takast á við það sem kemur upp á hverju sinni. Ég þekkti nokkuð marga sem fóru á örfáum mánuðum eftir að þeir greindust og þá hugsa ég um þennan tíma. Það er ýmislegt þarna sem skiptir máli.“

Ég græt með sjálfri mér og mínum nánustu en ég lít stundum betur út heldur en mér líður.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir

 

Að vera í núinu og meta sína nánustu

Anna Kolbrún hefur nóg fyrir stafni og það dreifir huganum. Hún viðurkennir að það hjálpi. „Það er bara mjög mikilvægt. Og ég held að það sé mikilvægt fyrir allar manneskjur að hafa hlutverk í lífinu.“

Hún býr fyrir norðan og fer þangað þegar hún er ekki í þinginu fyrir sunnan. „Mér finnst ég þurfa að komast heim til þess að fá jarðtengingu; það er þegar maður staldrar við og nær að draga andann. Ég held að það sé kannski það sem skiptir máli; að missa sig ekki. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu öðruvísi.“

Anna Kolbrún, er hvergi bangin þrátt fyrir baráttu við hinn illvíga sjúkdóm. Hún tekur þátt í ksningabaráttunni, skipar 2. sætið á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.  Hún er spurð hvað hún hafi lært af þessari reynslu. „Ég hef lært að meta að vera í núinu og meta mína nánustu. Þetta er ekki klisja; þetta er það sem lífið er. Þetta má ekki hljóma eins og hræsni en ég hef lært að sleppa tökum á því sem hefur ekki góð áhrif á mig.“

Hún segir að einhvern tímann komi skellurinn þegar það verður komin það mikil versnun að lyf ráða ekki lengur við þetta. „Þangað til finnst mér ég bara vilja halda áfram. En ég veit líka að þetta getur tekið mánuð og þá er það búið.“

Hún er spurð hvort hún óttist dauðann. „Nei, í sjálfu sér ekki. Ég held að ég óttist ekki að deyja en það er vont að vita af þeim sem verða eftir einhvern veginn; sínum nánustu. Ég er ekki búin að skipuleggja neitt; ég nenni ekki að standa í þessu.“ Hún kímir. „Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Það er ákveðin kaldhæðni að segja þetta en það er bara þannig.“

Hún er spurð hvort hún haldi að það taki eitthvað annað við hinum megin. „Já, ég ímynda mér það en ekki endilega að það sé eitthvað líf eftir þetta líf. En ég held að maður geti fylgst með þeim sem mann langar til að fylgjast með.“

Ég held að ég óttist ekki að deyja en það er vont að vita af þeim sem verða eftir einhvern veginn; sínum nánustu.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -