Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Þingmaðurinn og hrekkjalómurinn Ásmundur í hörðum slag: „Það komu menn og óhelguðu heimili mitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

„Ég hef ekki gert nein mistök í þessum akstri mínum. Ég hef verið sakaður um ýmislegt varðandi það og auðvitað hefur maður á köflum tekið það mjög nærri sér. Þetta tók náttúrlega langt út yfir allan þjófabálk og gerir reyndar enn,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, í viðtali við Mannlífið með Reyni Traustasyni, en Ásmundur hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir háan aksturskostnað.

Hann segir að enginn annar þingmaður fái svona meðferð í fjölmiðlum varðandi þetta. „Þeir sem fljúga mest, eru á dýrustu hótelunum, eru með mestu dagpeningana eða búa í Reykjavík og hafa bíl og kostnað; það er aldrei tekið. En þegar horft er á heildarmyndina á kostnaði vegna starfa þingmanna þá hef ég yfirleitt verið í kringum 20. sæti en það þykir þessum fjölmiðlum ekki merkilegt.“

Ásmundur segist hafa verið duglegur að heimsækja kjördæmi sitt og vera til staðar þegar eitthvað bjátar á og mæta þegar á þarf að halda. „Þess á milli hef ég bara verið mjög duglegur að tengjast fólkinu og það er auðvitað hluti af því að líta á starf þingmannsins sem þjónustustarf; að maður sé að þjónusta þetta fólk. Og það er nú þannig á landsbyggðinni að það er mikið betur þokkað heldur en í þéttari byggðum.“

það komu menn og óhelguðu heimili mitt

Ásmundur er spurður hvort hann hafi einhvern tímann verið kominn á fremsta hlunn með að hætta.

„Það gekk oft mjög mikið á og það var mikið álag á fjölskylduna. Ég hafði gagnrýnt á svipuðum tíma ýmislegt varðandi hælisleitendur og þar fékk ég yfir mig mikla gagnrýni og ekki síst frá mínum flokkssystkinum; mjög harkalega gagnrýni. Nú hef ég tekið eftir því að eiginlega allt sem ég sagði þá, hafa þeir sem gagnrýndu mig mest tekið upp og skrifað um það, að það sé nú nauðsynlegt að fara yfir þessa hluti. Þannig að með tíð og tíma, þótt ég hafi komið dálítið bratt inn í þá umræðu, þá virðist margt af því sem ég hef sagt komið á daginn og að við þurfum að fara að skoða.

- Auglýsing -

Ég varð fyrir því að það var verið að hringja í mig á nóttunni og það komu menn og óhelguðu heimili mitt. Þetta var náttúrlega ferlega erfiður tími og við áttum bara mjög erfiða daga og fengum hringingar á nóttunni bæði frá útlendingum og auðvitað bara fólki hér úr samfélaginu svo ég tali nú ekki um alla tölvupóstana sem komu. Í tölvupósti var mér og börnunum mínum hótað og ég fór auðvitað með það til lögreglunnar.“

Kom eitthvað út úr því?

„Nei, það gerist ekkert í svoleiðis málum held ég.“

Ég auðvitað geng stundum hart fram

- Auglýsing -

Ásmundur er spurður hvort það sé framsetningin varðandi hælisleitendur sem stuði einhverja og hleypi af stað þessari óánægju.

„Jú, það má vel vera að það sé eitthvað í fari mínu sem gerir það að verkum að ég tali svona venjulegt mál og það sé bara óheppilegt. Ég er bara sprottinn úr þessum jarðvegi, þar sem maður hefur verið sjómaður og fiskverkandi, unnið á gröfum og netagerð og kom bara úr þessu umhverfi þar sem er auðvitað oft harka og kannski öðruvísi munnsöfnuður en í háskólanum. Mér hefur fundist gott að tala svona hreint út og ég held að það mundi ekki breytast þótt ég færi að stæla framkomu einhverra annarra; ég held að það væri aldrei heppilegt. Ég kem bara til dyranna eins og ég er klæddur. Það getur stuðað fólk. Ég auðvitað geng stundum hart fram.“

Ásmundur Friðriksson

 

Hrekkjalómafélagið

Ásmundur Friðriksson er skipstjórasonur og vann um árabil meðal annars við netagerð og sjómennsku, hann var verkstjóri, blaðamaður og hann rak fiskvinnslufyrirtæki.

Ásmundur stofnaði á sínum tíma Hrekkjalómafélagið ásamt nokkrum félögum sínum. Hann segir félagið hafa orðið til upp úr einhverju bulli. „Menn voru að gera einhverja vitleysu á viktinni og segja ýmislegt og við vorum ansi líflegir margir strákar þarna. Gegndum ábyrgðarstörfum. Ég var til dæmis yfirverkstjóri Vinnslustöðvarinnar þar sem unnu um 400 manns og það var mikið að gera á þessum árum og maður var að eignast fullt af börnum en við erum ansi léttlyndir og ég verð bara að segja eins og er: Við vorum bara mjög skemmtilegir.“

Það gekk alltaf best upp þegar við vorum bara að stríða hver öðrum

Hverjir voru skemmtilegustu hrekkirnir? Hvað gekk best upp?

„Það gekk alltaf best upp þegar við vorum bara að stríða hver öðrum. Það voru afmælishrekkir; þegar menn áttu afmæli. Eins og þegar Magnús Kristjánsson útgerðarmaður varð fertugur á sínum tíma þá tókum við gamla trillu; þetta var margra vikna starf – við skröpuðum hana alla upp og máluðum hana í útgerðarlitunum hjá Magga; rauðum og gulum. Af því að allir voru með 44 á heilanum þá var báturinn VE444; það tók allan hringinn. Svo voru tugir ef ekki hundrað manns í afmæli heima hjá honum og við mættum á allar slíkar samkomur í kjólfötum, hrekkjalómarnir, og svo kom okkar besti maður, Már vörubílstjóri, með bátinn á kranabíl og við að taka á móti í þessum galla og fjöldi fólks frá Reykjavík. Það bara skildi þetta ekki. En alltaf í enda dagsins, þá vorum það við sjálfir sem höfðum mest út úr þessu. Við gerðum ótrúlegustu hluti og ég lét mig hafa það að skrifa bók um þetta.

Hrekkjalómafélagið er félagsskapur sem sprettur úr einhverri gleði, en á sinn tíma; af því að eftir ákveðinn tíma fer svona að kvarnast úr. Við vorum búnir að missa þrjá félaga sem dóu á þessu tímabili. Það hafði áhrif á okkur. Maður sá það svona eftir á. Djöflagangurinn átti ekki alltaf eins við. Þetta lónaði út. Við hittumst tveimur árum eftir að þetta var búið og það var ægilega gaman. Við rifjuðum upp myndasýningarnar og áttum góða stund, en þá fundum við að tíminn var bara búinn.“

 

Flaskan

Ásmundur drakk um tíma meira en góðu hófi gegndi.

„Ég hafði reyndar mjög gaman af því lengst af. Við töluðum um Hrekkjalómafélagið áðan og það kom fyrir að við skvettum í okkur og það var bara mjög skemmtilegt. En svo fór skiptunum að fjölga, lengjast og of oft og of lengi og svo tók tíma fyrir mig að átta mig á því að það þurfti að gera eitthvað í því. Svo eins og í mörgu öðru þá keyrir maður á vegg og nú eru að verða 16 ár frá því ég fór í meðferð.“

Ásmundur segist muna að þegar hann tók þá ákvörðun að hætta að drekka þá hafi eitthvað breyst innra með honum. „Það hafði ég aldrei fundið áður. Það er sú hjálp sem ég fékk. Ég hef aldrei smakkað það síðan og aldrei langað í.“

Ég held að maður eigi ekki betri leiðsögn í lífinu en kristna trú og ég veit ekki um nokkurn mann sem hún hefur skemmt

Alþingismaðurinn er trúaður. „Ég ólst upp á trúuðu heimili og sótti Betel í Eyjum í gamla daga hjá Einari, frænda mínum, og mamma mín var alin þar upp líka, þannig að fjölskylda mín hefur tengst Fíladelfíusöfnuðinum órjúfanlegum böndum frá upphafi. Frá því að langamma mín stofnaði söfnuðinn ásamt fleiri konum í Vestmannaeyjum með sænskum trúboðum, þá hefur Fíladelfía leikið stórt hlutverk í fjölskyldu okkar, þótt við höfum ekki öll verið í söfnuðinum.

Við höfum sótt samkomur og ég hef verið afsakaplega hrifinn af mínu fólki sem er þarna innan dyra og er að gera þessa frábæru hluti. Ég hef verið í Þjóðkirkjunni og fermdist og hef unnið mikið með kirkjunni suður frá og þar eigum við frábæra presta og það stóð ekki á þeim þegar umræðan um þessa bílapeninga stóð sem hæst sem og var algerlega að drepa mig. Þá var það það fólk sem hjálpaði mér að komast yfir þann hjalla. Ég held að maður eigi ekki betri leiðsögn í lífinu en kristna trú og ég veit ekki um nokkurn mann sem hún hefur skemmt.“

Ásmundur Friðriksson

Fyrirtækið varð gjaldþrota og í kjölfarið varð ég svolítið gjaldþrota sjálfur.

Gjaldþrota

Ásmundur segir að það nýja líf sem hann eignaðist hafi orðið ótrúlega innihaldsríkt og gott. „Ég var búinn að vera heppinn í lífinu og búinn að fá mikið út úr mínu lífi og ég og eiginkona mín eigum fimm börn og nú eigum við orðið sex barnabörn þannig að við getum bara verið mjög ánægð með okkur þó að ekki hafi allt gengið upp í okkar lífi. Við höfum þurft að taka út að hafa átt fyrirtæki sem gekk ekki og við tókum þær skuldbindingar á okkur og vorum í mörg ár að vinna út úr því. Það reyndist mér mjög erfitt.

Fyrirtækið varð gjaldþrota og í kjölfarið varð ég svolítið gjaldþrota sjálfur. Ég féll á milli deilda og missti mig í víninu en náði mér svo á strik og þau tækifæri sem ég hef fengið í lífinu síðan eru svo ótrúleg. Ég er búinn að vera framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Keflavíkur og þar fékk ég nú góða hjálp og síðan tók ég við Ljósanótt í Reykjanesbæ og við lyftum því svolítið rækilega upp.

Síðan var ég ráðinn í Garðinn og síðan er ég búinn að vera þingmaður síðan þá og ég segi nú bara hvaða gamall sjómaður og fiskverkandi úr Vestmannaeyjum fær svona tækifæri þegar hann hættir að drekka? Og ég hef bara einhvern veginn frá því ég náði mér út úr þessu sem ég gerði klárlega með hjálp Guðs, af því að ég fann það alveg að mér var hjálpað og það var tekin frá mér þessi löngun að drekka vín, að ég hef eiginlega vaknað á hverjum einasta degi með þá hugsun hvernig ég geti þakkað þetta í dag. Og ég hef bara gert ansi margt í því að sýna þakklæti fyrir það líf sem ég á og fyrir lán mitt og mér finnst í rauninni að maður geti bara aldrei nógsamlega þakkað það að hafa fengið þetta tækifæri í lífinu sem ég hef fengið.

Það mótar þessar skoðanir sem ég hef í þessum málum og hef oft verið harkalega gagnrýndur í þinginu þegar verið er að tala um neysluskammta og gefa þetta allt saman frjálst og allt opið endalaust. Og ég veit að unga fólkið horfir stundum á mig og jafnvel börnin mín og segja „pabbi, hvaða rugl er í þér, þú ert bara fastur í einhverjum kassa“. Ég er sjálfstæðismaður sem virði mikið persónufrelsi okkar allra sem er mjög mikilvægt. Að ég sem þingmaður sé ekki að setja aðilum í þessum rekstri sérstakar skorður þá er samfélagið bara þannig að við sem sitjum á þingi þurfum líka að velta því fyrir okkur að úti í samfélaginu er fullt af fólki sem þolir ekki allt frjálsræðið sem margir þingmenn kalla eftir.

Við sjáum alveg hvernig heilbrigðiskerfið og lögreglan og aðilar í heilbrigðismálum og félagsmálum eru að drukkna í þessum vandamálum. Við sáum til dæmis með takmarkanir á opnun veitingastaða í þessari árans veiru hvað álagið á spítalanum minnkaði og núna vitum við alveg hvaða áhrif það hefur að takmarka opnunartíma veitingastaða. Ég veit að núna góla margir að ég segi það. Ef við getum ekki lagt nógu mikinn pening, fengið nóg af hjúkrunarfræðingum og nógu mikið af læknum til að taka við öllu þessu veika fólki um helgarnar þá verðum við að bregðast við því á annan hátt.

Það þýðir ekki að opna þetta allt saman og það sé ekkert gert hinum megin. Það er nákvæmlega sama með þetta neysluskammtafrumvarp; ef við ætlum ekki að bæta í meðferðarúrræðin, bæta peningum í meðferðarúrræðin, og leggja miklu meira í það heldur en við erum að gera í dag þá þýðir ekki að opna kranann bara öðrum megin. Um leið og við ætlum að opna á óhefta neyslu á eiturlyfjum þá verðum við að leggja meiri pening í meðferð því að það munu mjög margir bætast í þann hóp sem þarf á aðstoð að halda.“

Ég hef fengið svoleiðis hótanir bréflega.

Hótunarbréf

Talið berst að MeToo-umræðunni.

„Ég held að það sé sprottið af mörgu mjög góðu. Og klárlega þurfti auðvitað að bæta samskipti kynjanna og þessa virðingu sem við þurfum að bera fyrir hvert öðru. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við berum virðingu fyrir öllum og maður hefur svo sem ekki kynnst öðru í sjálfu sér í gegnum lífið en að gera það.“ Ásmundur segir að auðvitað hafi hann séð að þessi framkoma sem margar konur verða fyrir nái ekki nokkurri átt. „Mér finnst svo aftur á móti umræðan vera komin langt frá þessu af því að nú er orðið nóg einhvern veginn að ásaka einstaklinga um eitthvað og stoppa þá á einhverri leið og ég segi fyrir mig eins og í pólitíkinni að ef ég færi nú í prófkjör eftir þrjú ár þá væri nóg að það kæmi einhver fram og segði að ég hefði gert eitthvað misjafnt. Það þarf enginn að bera vitni að því. Það getur bara stoppað menn. Ég hef fengið svoleiðis hótanir bréflega. Ég þekki þetta.“

„Ég held að það sé rétt sem sagt er að réttarkerfið bregðist seint og illa við og þetta taki langan tíma og svo segja lögfræðingar líka að þetta séu erfið mál að eiga við; maður getur farið í gegnum þessa umræðu og skilið allt sem allir segja. Maður getur í sjálfu sér verið sammála öllum af því að rökin eiga alveg rétt á sér. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að taka einhvern veginn utan um þetta og finna einhverja bærilega lausn svo að þeir sem verða fyrir einhverju ofbeldi fái klárlega lausn sinna mála. Það er bara mjög mikilvægt. Ég hef heyrt konur tala um að mikilvægt sé að hitta gerandann; að geta sagt sína skoðun. Það er eins og í samfélaginu stundum. Til dæmis bara í þinginu. Við þurfum að vera lið; maður þarf að samþykkja eitthvað. En maður verður kannski ekki alveg með það í hjartanu að vilja samþykkja það en bara að fá að segja sína skoðun skiptir líka miklu máli.“

Þetta er viðkvæmt mál.

„Maður má ekki mismæla sig mikið þegar maður talar um þetta.“

Ásmundur Friðriksson

Það er með meiri áföllum sem ég hef orðið fyrir í lífinu.

 

Rangárþing ytra

Ásmundur varð bæjarstjóri í Garði árið 2009 en árið 2012 sagði bæjarstjórnin honum upp.

„Ég hafði hugsað það oft að ég yrði góður bæjarstjóri. Og ég held að það hafi komið í ljós þegar ég kom í Garðinn, þó að það hafi auðvitað ekki allir orðið ánægðir með mig, að ég var á réttri hillu, var framtakssamur, hugði vel að samfélaginu og það lá mikið eftir mig þó að endirinn hafi ekki verið eins og ég hefði kosið; einn félagi okkar fór af bátnum og myndaði meirihluta með minnihlutanun og mér var sagt upp störfum. Það er með meiri áföllum sem ég hef orðið fyrir í lífinu.“

Ásmundur hefur fengið margar áskoranir um að gefa kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra í sveitarstjórnarkosningum í vor. „Ég verð að segja eins og er kominn á þennan aldur sem ég er á, reyndar hef ég aldrei verið sprækari, að þá fannst mér ótrúlega áhugavert og spennandi og í rauninni þakkarvert að það skyldi vera spurt eftir mér í þetta starf. Ég gegndi bæjarstjórastarfinu í Garðinum á sínum tíma í fjögur ár og það hefur alltaf blundað í mér síðan að ef tækifæri kæmi þá myndi ég skoða það rækilega og ég er að því núna.“

Hann er spurður hvort þessi darraðardans sem hann hefur stigið undanfarin misseri sé hluti af því að hann vill takast á við önnur verkefni.

„Ég get alveg sagt þér að síðustu árin hafa verið þannig betri að mér hefur liðið betur í þinginu en ég viðurkenni það alveg að það var oft erfitt að fara að heiman og skilja konuna eftir heima og fara inn í þing og líða ekki vel; fara kannski beint upp á skrifstofu og berja aðeins í brjóstið á sér til að fá sig af stað.“

Ásmundur segist hafa litið á starf þingmannsins sem þjónustustarf við samfélagið. „Og þannig hef ég upplifað mig í því starfi að reyna að þjónusta fólk og vera þjónn þess og með því að vera sveitarstjóri þá þekki ég það. Þá kemur skörunin nær; maður er svolítið með samfélagið í höndunum vegna þess að það er verið að koma til manns á hverjum degi og það er verið að biðja mann um að græja og gera einhverja hluti og ég hef alltaf þrifist mjög mikið í því að afkasta; bæði þegar ég var á sjó og þegar ég var fiskverkandi en þá var maður alltaf að telja körin og klára þetta mörg kör. Maður er svolítill trukkur í vinnunni og ég man þegar ég var bæjarstjóri í Garðinum hvað mér leið oft vel þegar ég fór heim á kvöldin að geta sagt við sjálfan mig að ég kláraði svona mörg mál í dag.

En á þinginu er það ekki þannig starf; þetta tekur allt langan tíma. Maður flytur frumvarp og það tekur þrjá mánuði lágmark að velkjast um; svo vill kannski enginn hlusta á það sem maður er að leggja fram og maður er búinn að leggja mikla vinnu, kostnað og fá lögfræðinga þingsins til að vinna fyrir mann og allt kostar þetta í rauninni.

Þannig að þó ég hafi sérstaklega í seinni tíð notið mín miklu betur í þinginu þá finnst mér þetta tækifæri í sveitarfélagi sem er jafnvel rekið og Rangárþing ytra og stendur jafnvel þá horfi ég til þess að þar eru ótalmörg tækifæri sem ég myndi taka við sem núverandi sveitarstjóri og sveitarstjórn er að vinna að og svo sé ég einhver önnur tækifæri sem þeir sjá ekki og ég mun verða ófeiminn auðvitað í að ýta því úr vör og kynna það fyrir fólki þannig að ég lít á þetta sem spennandi tækifæri en það er ekki í hendi.“

Ég er þannig gerður að ég vil auðvitað allt eða ekki neitt.

Ásmundur segir að hann væri ekki að fara í þessa kosningabaráttu, eða prófkjör, nema að ætla að sigra.

„Ég er þannig gerður að ég vil auðvitað allt eða ekki neitt. Maður er svolítið svoleiðis. En ég vil líka segja það að Ingvar Pétur Guðbjartsson, sem býður sig líka fram í þetta starf, er afskaplega hæfur og góður maður. Það er heimamaður sem er afskaplega vinsæll og ég hef sagt honum og öðrum að ef ég hefði vitað að hann ætlaði fram þegar ég tók ákvörðunina þá hefði ég trúlega aldrei farið fram af því að það var ekki eftirspurn eftir því að fara í sveitastjórnina og þess vegna var kannski leitað til mín.

En svona eru bara örlögin og ég er á þessari vegferð og þegar það verður ákveðið væntanlega næsta laugardag hvaða reglur munu gilda um val á listann og ef það verður prófkjör þá fer ég í það og þá mun ég fara í það í takt við þetta samfélag sem er þar. Ég kem úr Reykjanesbæ og þekki kosningabaráttu í Vestmannaeyjum en þarna er öðruvísi aðferðum beitt. Þetta er rólegt samfélag og maður þarf að koma þannig fram að maður sé í takt við það þegar maður fer að berjast um hylli fólks.“

Hvað ef hann kemst ekki áfram? Mun hann halda áfram í þingmennsku?

„Já, þá verður engin fýla. Maður blæs kannski aðeins í gaupnir sér í tvo daga til þess að slá úr sér þyngslin en keppnisskapið er auðvitað til staðar en ég bara veit að þegar prófkjörið verður búið þá munum við bera virðingu fyrir því sem fólkið í sveitinni óskar eftir. Og það er auðvitað það sem skiptir mestu máli.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -