Borce Ilievski hefur óvænt sagt upp störfum sem þjálfari ÍR í úrvalsdeild karla í körfubolta. Hefur Borce þjálfað ÍR frá árinu 2015.
Liðinu hefur ekki gengið vel í upphafi tímabilsins en það hefur tapað öllum þremur leikjunum. Síðasti leikurinn hans var sextán stiga tap á móti deildarmeisturum Keflavíkur í gærkvöld.
Það var greint frá þessu fyrst í þættinum Subway-Körfuboltakvöld á Stöð 2 sport í gærkvöld. Ekki er vitað hver mun taka við liðinu en næsti leikur liðsins verður á Akureyri gegn Þór næsta fimmtudag. Þór og ÍR eru einu liðin án stiga á botni deildarinnar.