Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála skipaði starfshóp um uppbyggingu þjóðarleikvanga síðastliðin vetur. Í kjölfar undirritunar viljayfirlýsingar stjórnvalda og Reykjavíkurborgar 6. maí um nýja þjóðarhöll var skipuð framkvæmdanefnd um uppbygginguna.
Helgi Geirharðsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri hjá framkvæmdanefnd um uppbyggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal. Ráðgert er að byggingaframkvæmdum verði lokið á árinu 2025.
Hlutverk framkvæmdanefndar er að leiða faglega vinnu vegna allra þátta uppbyggingar mannvirkisins og skipulags því tengdu s.s. vegna hönnunar, útboða, tæknilegrar útfærslu, rekstrarforms og hvernig staðið verður að fjármögnun.
Einnig að fylgja eftir að nauðsynlegir verkþættir vegna uppbyggingar mannvirkis fyrir innanhússíþróttir í Laugardal séu framkvæmdir samkvæmt þeim reglum sem gilda um opinberar framkvæmdir. Er þá átt við frumathugun, áætlunargerð, verklega framkvæmd og skilamat. Hópnum er falið að útbúa tímasetta framkvæmdaáætlun vegna uppbyggingar mannvirkisins.
Framkvæmdanefndin vinnur sín verkefni í samráði við starfshóp um uppbyggingu þjóðarleikvanga og kallar til ráðgjafa eftir því sem við á. Hún gefur starfshópnum reglulegar upplýsingar um framgang verkefnisins auk þess að tryggja nauðsynlegt samráð við ráðgjafaráð skipað hagsmunaaðilum og öðrum notendum mannvirkisins.