Framkvæmdastjóri ÍBV segir ákvörðun um að aflýsa Þjóðhátíð vera fjárhagslegan skell fyrir félagið.
„Við erum með alla anga úti núna til að auka tekjurnar og draga úr kostnaði á móti, sú vinna er í fullum gangi,“ segir Hörður Orri Grettisson framkvæmdastjóri íþróttafélagsins ÍBV, í samtali við Fréttablaðið, í ljósi frétta þess efnis að ákveðið hafi verið að aflýsa Þjóðhátíð í Eyjum.
Þar bendir Hörður á Þjóðhátíðin sé ein ástæða þess að félagið getur haldið úti jafn öflugu starfi í litlu samfélagi og raun ber vitni. Hátíðin sé mikilvægur liður í fjáröflun fyrir barna- og unglingastarf ÍBV. Félagið leiti nú leiða til að auka tekjur, eins og fyrr segir, og draga úr kostnaði.
Í tilkynningu sem hefur verið send út vegna málsins segir að á fólk sem hafi keypt miða á Þjóðhátíð geti fengið miðann endurgreiddan, en ef fólk kjósi að fá miðann sinn ekki endurgreiddan þá sé slíkur stuðningur vel þeginn.
Þá er bent á að þeir sem hafi keypt miða á Þjóðhátíð 2020 gefist einnig kostur á að flytja miðann á næsta ár, en fyrir liggi að miðaverð á Þjóðhátíð 2021 muni verða hærra en í ár.