Alma D. Möller landlæknir er ein þeirra sem staðið hafa í framlínunni nú þegar Ísland, ásamt öðrum þjóðum heims, berst við COVID-19 kórónuveirufaraldurinn.
Daglegir upplýsingafundir hafa verið haldnir, og hefur Alma mætt á þá flesta og veitt upplýsingar og svarað spurningum blaðamanna á fumlausan og yfirvegaðan hátt.
Í dag deildi Alma mynd á Facebook-síðu sinni með örfáum orðum sem minna okkur á mikilvægi heilbrigðisstarfsfólks fyrir hverja þjóð, sérstaklega þegar faraldrar geisa eins og núna.
„Það sem vonandi á eftir að koma gott út úr þessum heimsfaraldri er að hann sýnir þjóðum heims fram á óendanlegt mikilvægi heilbrigðisstarfsmanna. Þjóðir þurfa að eiga heri heilbrigðisstarfsmanna en ekki heri sem skjóta hver á annan.“