Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.9 C
Reykjavik

Þjóðsagnaverur kvikna til lífsins í nýrri íslenskri teiknimynd

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kvikmyndagerðarkonan Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir vinnur að nýrri teiknimynd og teiknimyndaseríu sem sækja í íslenskan þjóðsagnaarf.

„Ég er mjög spennt. Mér líður eins og spretthlaupara í startholunum. Farin að búa til gátlista í huganum yfir allt sem þarf að gera, enda í mörg horn að líta. Já, bara rosalega spennt og tilbúin í slaginn,“ segir kvikmyndagerðarkonan Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir sem er leiðinni til höfuðborgar Póllands, Gdansk, að funda með framleiðslufyrirtæki sem mun koma að gerð nýrrar teiknimyndar og seríu sem Þórey er með í vinnslu.
„Í stuttu máli erum við að hefja framleiðslu á stuttri teiknimynd sem ég mun leikstýra og kallast Allar verur jarðar,“ útskýrir hún. „Pólskir teiknarar og hönnuðir munu koma að henni en persónuhönnun og fleira, hljóðvinnsla, klipping og talsetning verður í höndum Íslendinga auk þess sem ég og Heather Millard, sem er búsett á Íslandi, framleiðum undir merkjum Compass Film. Sem sagt íslensk framleiðsla í samstarfi við pólska meðframleiðendur og gefnar út tvær útgáfur, önnur alþjóðleg og hin með íslensku tali.“

„Þetta verður íslensk framleiðsla í samstarfi við pólska meðframleiðendur.“

Hugmyndin kviknaði í kjölfar barnsburðar
Að sögn Þóreyjar hefur undirbúningsvinna að myndinni staðið yfir í nokkur ár, eða frá árinu 2015, en hugmyndin byggir á barnabókinni Ormhildarsögu sem hún skrifaði sjálf og myndskreytti og var gefin út af bókaforlaginu Sölku árið 2016. „Sú saga gerist í framtíðinni og segir frá því hvernig jöklar heimsins hafa bráðnað með þeim afleiðingum að undan þeim skríða nykrar, skoffín, lyngormar og alls kyns óvættir sem við þekkjum úr þjóðsögunum, á meðan flest fólk hefur drukknað í flóðum. Eftirlifendurnir kúldrast á Breiðholtseyju og mynda þar samfélag sem lifir í stöðugum ótta við þessar skepnur, en aðalsöguhetjan Ormhildur vinnur á Kukl- og galdrarannsóknarsetri ríkisins sem hefur það markmið að kljást við þær og snúa við galdrinum sem hélt þeim föngnum í ísnum. Þegar sú leið uppgötvast hefst æsispennandi ævintýri.“
Þórey segir bókina hafa orðið til út frá smásögu sem hún skrifaði þegar hún var við nám í Háskóla Íslands og fjallar um bókmenntafræðinördinn Ormhildi sem lendir í ævintýrum í þessum svakalega heimi. Dag einn hafi hún bara allt í einu séð persónuna ljóslifandi fyrir sér. „Á þessum tíma var ég líka nýbúin að eignast barn og spáði mikið í framtíðina, hvernig hún liti út meðal annars í ljósi þess skaða sem maðurinn hefur valdið í náttúrunni. Aðalpersónan varð því svolítið eins og þetta nýfædda barn, hálfgerður sakleysingi sem ferðast í gegnum þennan óhuganlega söguheim og er að reyna að finna einhverja fótfestu í tilverunni um leið og hún þarf að kljást við alls kyns hættulegar skepnur. Þetta er sem sagt pólitísk ádeila en sett fram á ævintýralegan og spaugilegan hátt svo lesendur drepist ekki úr leiðindum,“ segir hún og hlær.

Kynningarplakat væntanlegrar teiknimyndar.

Stærsta verkefni sem hún hefur komið nálægt
Spurð hversu vel væntanleg mynd og sería komi til með að fylgja söguþræði bókarinnar, segir Þórey að hvorttveggja muni gerast í sama söguheimi auk þess sem karakterarnir byggi á persónum bókarinnar. Þar sem myndin sé stuttmynd komi hún til með að verða fjórar til fimm mínútur að lengd en þættirnir verði 26 talsins og 22 mínútna langir. Myndin sé raunverulega liður í því að gera þætti upp úr bókinni. „Þannig að núna er ég að fara út til að kynnast betur „crewinu“ þar og skerpa á verkaskiptingunni sem er algjört lykilatriði þegar maður er að vinna svona stórt og dýrt verkefni á milli landa. Það þarf að velja rétta mannskapinn með sér í þetta svo að útkoman verði góð. Allt þarf að vera alveg á kristaltæru, því þótt ég hafi gert stuttmyndir áður er þetta miklu stærri framleiðsla og meiri peningar sem eru í húfi.“

Erlendar aðilar áhugasamir
Þótt framleiðslan sé enn á ákveðnu byrjunarstigi segist Þórey skynja mikinn áhuga á verkefninu, bæði hér heima og erlendis frá. „Við höfum til dæmis þegar farið á nokkra fundi með stórum alþjóðlegum dreifingaraðilum, en því miður get ég ekki sagt hvar þau mál standa, alla vega ekki í bili,“ segir hún leyndardómsfull. „Nú er ég bara með hugann við ferðina til Póllands og hlakka rosalega mikið til enda er mér sagt að Gdansk sé afskaplega falleg borg. Svo er víst maturinn í Póllandi algjört æði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -