Samtökin Líf án ofbeldis birti í dag frásögn af þjóðþekktum einstaklingi sem sagður er eiga fimm börn með fimm konum. Segja samtökin að hann hafi verið að fá fullt forræði yfir einu barna sinna en hefur maðurinn verið sakaður um ofbeldi gegn flestum barnsmæðra sinna.
Samkvæmt Facebook eru samtökin Líf án ofbeldis baráttusamtök mæðra og uppkominna barna sem krefjast þess að börn séu vernduð gegn ofbeldi feðra í umgengnis- og forsjármálum. Á Twitter reikningi þeirra birtu samtökin í dag frásögn af þjóðþekktum manni sem á fimm börn með fimm konum sem flestar „hafa sagt hann beita ofbeldi og harðræði, sem og aðrar fyrrverandi kærustur hans,“ líkt og stendur í frásögninni. Hann hafi nýverið fengið fullt forræði yfir einu barna sinna.
Í frásögninni segir að upphaf málsins megi rekja til þess að ein barnsmóðir hans hafi kært hann fyrir margskonar brot, meðal annars ítrekaðar nauðganir, hálstak og frelsisviptingu. Segir ennfremur að eitt af vitnum í málinu hafi verið vinur mannsins sem hafi orðið vitni af ofbeldinu. Samtökin segja að sönnunargögn í málinu hafi sýnt fram á ofbeldi en að lögreglan hafi hætt rannsókn á málinu þar sem „ekki var talið að frekari rannsókn myndi upplýsa frekar um málsatvik og hluti kærðra brota töldust fyrnd.“ Maðurinn hafi svo höfðað forsjármál eftir að rannsókn lögreglu var hætt.
Baráttuhópurinn Öfgar endurpóstaði frásögninni sem eru nokkrar blaðsíður að lengd á Twitter reikningi sínum og segist styðja Líf án ofbeldis. Öfgar gáfu það sterklega í skyn í nýlegu myndbandi að fleiri meintir ofbeldismenn en fimmenningarnir í máli Vítalíu verði nafngreindir á næstunni. Mannlíf reyndi að ná sambandi við manninn en hann lét ekki ná í sig.