Lögreglu barst tilkynning um mann sem hafði farið inn í flutningabifreiðar í Hlíðahverfi í gærkvöldi. Þegar lögregla kom á vettvang reyndi þjófurinn að hlaupa í burtu en sá var í annarlegu ástandi. Maðurinn var handtekinn og látinn laus síðar um nóttina.
Ökumaður bifreiðar ók á umferðarstólpa í Vesturbænum í gærkvöldi. Engin slys urðu á fólki en maðurinn var handtekinn fyrir akstur undir áhrifum áfengis. Gisti hann í fangaklefa lögreglu. Þá barst lögreglu tilkynning um innbrot í bílskúr í Vesturbænum. Þjófurinn hafði á brott hleðslustöð og áfengisflöskur.
Lögregla mætti á vettvang umferðaróhapps í Mosfellsbæ í gærkvöldi þar sem ökumaður hafði ekið út af veginum. Maðurinn var handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Skömmu síðar varð annað umferðaróhapp í Árbænum. Þar missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjólinu og datt af því. Maðurinn var fluttur á bráðadeild með mögulegt beinbrot.