Hluta þjónustuaðila í Hörpu hefur verið tilkynnt að þjónustusamingar þeirra fáist ekki endurnýjaðir. Stjórnendur tónlistarhússins hafa ekki tekið ákvörðun um hvort einhverjir þjónustuaðilanna fái framlengingu en lokadrög stefnumótunar Hörpu liggur nú fyrir.
Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, staðfestir að nú verði skoðaðar mögulegar breytingar á þjónustu jarðhæðarinnar. Hún segir þá vinnu hafa staðið til um nokkurt skeið en aðstæður sem skapast hafi vegna COVID-19 hafi hrundið vinnunni af stað. „Við erum að taka snúning á því að endurskoða og mögulega breyta fyrirkomulagi þjónustu á jarðhæð Hörpu og í öðrum þjónusturýmum. Það er ein af lykilaðgerðunum sem við viljum fara í sem spratt upp úr stefnumótun Hörpu og hefur staðið til að hefja þá vinnu um nokkurt skeið. Aðstæður sem skapast hafa vegna COVID – 19, áhrifin á rekstur Hörpu og gjörbreyttar forsendur í ferðaþjónustu um fyrirsjáanleg misseri, hrundu þeirri vinnu af stað nú. Svo á eftir að sjá hvað út úr þessari vinnu kemur og hvort sú niðurstaða kalli á frekari breytingar í framhaldinu,“ segir Svanhildur.
Við erum að hefja skoðun á tækifærum og mögulegum breytingum á fyrirkomulagi þjónustu á jarðhæð Hörpu.
Árni Einarsson, eigandi blómabúðarinnar Upplifun, staðfestir að honum hafi verið tilkynnt að samningur hans við Hörpu fáist ekki endurnýjaður er honum líkur. Aðspurður segist honum ekki brugðið og bendir á að hússtjórnin hafi lengi verið óánægð með skipulag jarðhæðarinnar. „Það er búið að tilkynna okkur að samningur okkar verður ekki framlengdur og fyrirvarinn á því er feykinógur. Þeir ætla ekki að endurnýja við okkur og ég hef heyrt að öðrum hafi brugðið því í sumum tilvikum er fyrirvarinn styttri og viðkomandi var að vonast til einhvers annars,“ segir Árni.
Aðspurð segir Svanhildur það ótímabært að gefa nokkuð upp um hverjar breytingarnar á jarðhæðinni verða. „Það er ekki tímabært að gefa sér neitt í því efni. Harpa verður hér eftir sem hingað til í góðu samstarfi við rekstraraðilana í húsinu,“ segir Svanhildur.