Steinar Þór Sveinsson hefur verið leiðsögumaður í langan tíma; í meira en tvo áratugi.
Hann er á þeirri skoðun að ferðaþjónustan á Íslandi sé eigi á réttri leið; að gestrisni Íslendinga í garð útlendra ferðamanna hafi hrakað með vaxandi gjaldtöku.
Honum hreinlega ofbauð er hann horfði upp á það á þjónustumiðstöðinni við Seljalandsfoss að útlendum ferðamönnum er pöntuðu sér bjór var seldur lítt áfengur pilsner.
Steinar fjallar um málið í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar.
„Ég hef verið viðriðinn ferðaþjónustuna sem leiðsögumaður núna í rúm 20 ár. Mér finnst ákaflega margt vera á mjög svo rangri leið verð ég að segja, með þeim fyrirvara að eflaust á það við að maður sé að verða gamall nöldrari.“
Bætir því við að það sé „ömurlegt að frelsi ferðalagsins sé núna nánast horfið víða. Það er og hefur verið besta markaðssetning Íslands. Það er óþarfi að krefja ríkið um meiri pening í markaðssetningu þegar við fólkinu sem þó kemur taka gjaldhlið út um allt land, jafnvel án allrar þjónustu. Gestrisnin er farin, af hverju þá að bjóða fólk velkomið dýrum dómi?“
Segir einnig:
„Eitt það nýjasta er að ráðherra setti á gjaldtöku á malarstæðum við Jökulsárlón en ekkert hefur breyst, klósettmál eru í lamasessi. Einnig standa nú hliðverðir frá Umhverfisstofnun og stöðva alla bíla rétt utan við Landmannalaugar og heimta bílastæðagjöld fyrir malarplanið. Svo kemur fólk inn á svæðið og þá skal borga Ferðafélaginu það sem því svo sannarlega ber fyrir að halda úti ágætri salernisaðstöðu. Auðvitað ruglar svona margföld gjaldtaka inn á sama svæðið fólk í ríminu og er lítt til þess fallin að gleðja það.“
Hann segist ekki geta ímyndað sér „að það sé góð útgerð hjá Umhverfisstofnun að halda úti allt að þremur starfsmönnum til að rukka smábíla um 450 krónur.
Ég á erfitt með að skilja tekju- og kostnaðarmódelið í því. Ég skil heldur ekki hvernig það gekk í gegn skipulags- eða leyfalega. Og allt var þetta gert nánast án fyrirvara eða kynningar. Dónaskapur stjórnvalda gagnvart ferðaþjónustunni er slíkur. Gjaldskylduskilti eru komin út um allt og ferðamenn klóra sér í hausnum og þora eflaust oft ekki öðru en að borga.
Oft er verið að fiska í gruggugu vatni. Skilti einfaldlega sett upp og treyst á guð og lukkuna, og Parka. Við Gluggafoss er skilti núna innan við girðingu landeigenda. Við malarstæði sem hefur verið þar í áratugi og landeigendur aldrei haft kostnað af en sveitarfélagið þjónustað. Borð og bekkur við fossinn er merkt Katla Geopark og Evrópusambandinu! Þar tókst okkur að sníkja út styrk fyrir ómerkilegu viðarborði en Evrópubúarnir sem heimsækja okkur skulu borga fyrir að nota það. Við Kirkjufell er rukkað á bílastæðinu.
Hvergi innan Grundarfjarðarbæjar sjálfs er rukkað. Útlendingarnir, sem þó borga hæstu fasteignagjöldin í gegnum hótelgistingar sínar, skulu hundeltir og borga alls staðar sem þeir vilja stoppa í nokkrar mínútur. Samt þykjumst við vilja bjóða þá velkomna og að ríkið leggi milljarða í auglýsingaherferðir þess vegna.“
Steinar segir að „steininn tók svo út með ókurteisina og viðhorfið gagnvart ferðamönnum fyrir nokkrum dögum við Seljalandsfoss. Þá keyptu ferðamennirnir mínir sér „bjór“ í veitingaaðstöðunni þar og var þeim seldur pilsner. Ég benti þeim á það, margspurði hvort þau hefðu örugglega beðið um bjór, og fór með bjórana aftur til stúlknana sem seldu þeim meintan „bjór“ og krafðist skýringa.“
Steinar segir að „þetta þótti nú auðvitað talsvert röfl í mér, þótti ekki tiltökumál og lítið til að kvarta yfir, og mér var sagt að pilsner væri nú það eina sem þau höfðu sem líktist bjór. Ég sagði að þau gætu nú ekki samt sem áður selt pilsner sem bjór ef beðið væri um bjór og að það væri ekkert nema svindl. Að lokum var endurgreitt.“
Segir að endingu:
„Svona er þetta allt orðið. Ég held að á meðan svo er og á meðan stjórnvöld og ferðaþjónustuaðilar margir virða gesti okkar lítils sem einskis þá sé óþarfi að setja marga milljarða af skattpeningum í að reyna að lokka fólk hingað til lands þegar þessar móttökur bíða þess.“