Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Þóra heilari gekk í gegnum ofbeldissambönd: „Ég er eins og millistykki fyrir þá“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þóra Guðrún Grímsdóttir hefur unnið við heilun um árabil.

„Ég man ekki sérstaklega eftir andlegum hæfileikum mínum frá því ég var barn nema að því leyti að þegar ég fór inn á þessa braut og fór að vinna í andlegum málum sem fullorðin manneskja þá áttaði ég mig á því að það er indíáni sem fylgir mér og hefur gert frá því ég var barn og tengdust leikirnir mínir svolítið mikið indíánum. Ég gerði mér samt ekki grein fyrir því þá. Ég var á æskuárunum mikið að reyna að hjálpa ef einhver átti bágt eða vantaði eitthvað. Ég man að ég var ofboðslega myrkfælin sem barn en svo lærði ég að vinna á því og þannig að ég hef einhvern veginn lært að takast á við hræðslu og hindranir sem fylgja kannski því að vera næmur án þess að skilja það sem barn.“

Þóra Guðrún Grímsdóttir

Árin liðu. Þóra Guðrún fór einhverju sinni til miðils á unglingsárunum sem sagði að hún ætti eftir að vinna með höndunum. Hún fór að læra hárgreiðslu 17 ára gömul og vann við það fag í um 20 ár og rak eigin stofur um tíma bæði úti á landi og í Reykjavík.

„Ég var með kæk þegar ég var að klippa og meðhöndla fólk í stólnum. Ég strauk þá oft  höndunum fyrir ofan höfuðin á þeim sem voru í stólnum það kom ekkert hárgreiðslunni við. Ég hélt að þetta væri kækur og vonaði að enginn tæki eftir þessu. Einu sinni var ég og kona, sem var fastakúnni, tvær eftir á stofunni og hún sagði að ég væri að heila fólk á meðan ég gerði þetta. Þá kveiknaði svolítið á perunni hjá mér af því að það komu margir til mín sem áttu erfitt og sem sögðu mér oft margt svo sem í tengslum við erfiða lífsreynslu sem þeir höfðu gengið í gegnum. Þessi kona fór að segja mér hvað fælist í heilun og hún bauð mér að koma í þróunarhring þar sem var miðilsþjálfun. Þar eiginlega byrjaði ferðalagið mitt á þessari braut; að þróa þennan hæfileika og átta mig á því hvaða hæfileika ég hafði. Ég var í svona hringjum í mörg ár.

Ég strauk þá oft  höndunum fyrir ofan höfuðin á þeim sem voru í stólnum það kom ekkert hárgreiðslunni við

Ég hef einnig sótt ýmis námskeið og lærði meðal annars OPJ-orkupunktajöfnun og englareiki auk þess að læra fyrri lífa heilun. Ég hef alltaf verið ofboðslega forvitin um fyrri líf og fundist það liggja beinast við að það hljóti að vera einhver tilgangur – við erum ekki bara í dag á jörðinni. Það hlýtur að vera einhver tilgangur með þessu en annars væri ekki réttlátt af hverju sumir sigla nokkurn veginn lygnan sjó en aðrir lenda aftur og aftur í einhverjum áföllum og erfiðum lífsreynslum.

- Auglýsing -

Þessi fyrri lífa heilun finnst mér vera mjög merkileg af því að þar tengi ég mig við engla og mína leiðbeinendur og þá sem koma til mín. Fólk fer í það líf sem þarf til að tengja við núverandi líf og sér þá kringumstæður í nýju ljósi. Það er kannski erfitt að útskýra þetta en þá nær það að tengja við af hverju það er í þessu í dag og það er kannski búið að strögglast svona í nokkur líf; er alltaf í svipuðum aðstæðum. Og þegar það fær að sjá það þá fær það yfirleitt hjálp við að koma sér úr þessum aðstæðum.“

Þóra Guðrún segist finna fyrir kærleiksorkunni þegar hún heilar en hún segist þá tengja sig við alheimsljósið og leiðbeinendur sína. „Ég er eins og millistykki fyrir þá af því að þeir þurfa að fá jarðtenginguna mína til að geta nálgast manneskjuna sem kemur eða sem er verið að biðja fyrir,“ segir Þóra Guðrún sem hefur verið með fyrirbænabók í mörg ár.

Ég er eins og millistykki fyrir þá af því að þeir þurfa að fá jarðtenginguna mína til að geta nálgast manneskjuna sem kemur eða sem er verið að biðja fyrir

Þóra Guðrún segir að það gerist engin kraftaverk í tímum hjá sér. „Það sem ég hef fengið að heyra og hef upplifað sjálf er að andlega hliðin hjá þeim sem leita til mín verður miklu sterkari til að takast á við það sem þeir eru að ganga í gegnum.“

- Auglýsing -

Þóra Guðrún Grímsdóttir

 

Óútskýrður barnsgrátur

Þóra Guðrún skynjar og hefur verið berdreymin en segist ekki sjá látna mikið en þó stundum og þá til hliðar. Hún talar um hliðarsjón. Hún tekur nokkur dæmi um hæfleika sína.

„Ég bjó á sínum tíma í gömlu, þriggja hæða húsi á Vestfjörðum. Ég var tvítug og var tiltölulega nýbúin að eignast mitt fyrsta barn. Svefnherbergið var í risinu og þar svaf barnið. Ég heyrði oft barnsgrát þegar ég var komin á miðhæðina eftir að barnið var sofnað uppi á kvöldin. Ég hljóp alltaf upp en alltaf var barnið steinsofandi. Þetta gerðist ítrekað. Þáverandi maðurinn minn og mágur fóru einu sinni á skemmtun og ég og systir mínum ákváðum að lyfta okkur aðeins upp heima. Barnið var í pössun heima hjá tengdamóður minni. Við systurnar sátum í stofunni og spjölluðum saman þegar allt í einu heyrðist barnsgrátur. Þá litum við hvor á aðra og ég spurði hvort hún heyrði grátinn og hún sagði svo vera. Það var ekkert barn í húsinu. Þá vissi ég og við að þetta væri náttúrlega eitthvað að handan. Það að systir mín skyldi líka heyra grátinn sannfærði mig um að svo væri.

Þá litum við hvor á aðra og ég spurði hvort hún heyrði grátinn og hún sagði svo vera. Það var ekkert barn í húsinu

Ég var byrjuð í hárgreiðslunni á þessum tíma og var með stofu í húsinu og einn daginn kom kona til mín og þar sem hún sat í stólnum fór hún að tala um húsið og sagði að þar hefði hörmulegur atburður átt sér stað. Hún sagði að barn á fyrsta ári hefði dottið ofan í lútarbala og látist í kjölfarið. Ég var svo mikill krakki í sjálfu sér að ég var ekkert að forvitnst um hvaða ár þetta hafði gerst en húsið var byggt í kringum 1900 þannig að þetta hefur sennilega gerst á fyrri hluta 20. aldar. Þá var þetta litla barn að láta vita af sér öllum þessum áratugum síðar.“

 

Berdreymin

Þóra Guðrún flutti í annað hús nokkrum árum síðar. Hún segir að hún hafi alltaf fundið einhverja fyrirstöðu þegar hún gekk inn í húsið. „Það var eins og þar væri einhver eða eitthvað sem ég þyrfti að troða mér í gegnum. Ég vaknaði stundum við það að mér fannst sonur minn koma gangandi úr herberginu sínu inn í herbergið mitt en hann var alltaf steinsofandi. Þá var einhver annar á ferðinni í húsinu. Síðan vaknaði dóttir mín oft upp og grét mikið, en hún var þá tveggja ára en sonur minn sex ára, og þá sá ég allaf hálfgert „ljósashow“ í loftinu í herberginu hennar.“

Fjölskyldan flutti síðan úr húsinu og eftir það hitti Þóra Guðrún konu sem var þá flutt í húsið. Konan spurði Þóru Guðrúnu hvort hún hafi aldrei orðið vör við neitt í húsinu.

„Ég sagði konunni frá því sem ég hafði upplifað í húsinu og þá sagði hún mér frá því að vinahjón hennar hafi komið í heimsókn og maðurinn, sem var miðill, hafi bara verið að reka út á meðan hann var þar. Ég heimsótti konuna síðar og það var eins og við manninn mælt; það var engin hindrun þegar ég gekk inn í húsið.“

Ég sagði konunni frá því sem ég hafði upplifað í húsinu og þá sagði hún mér frá því að vinahjón hennar hafi komið í heimsókn og maðurinn, sem var miðill, hafi bara verið að reka út á meðan hann var þar

Þóra Guðrún segir að áður en hún flutti í þetta hús hafi sig dreymt ömmu sína sem hafi sagt í draumnum að hún ætlaði að búa í kjallaranum hjá barnabarninu. „Ég hafði þá aldrei séð húsið að innan en amma sýndi mér húsið í draumnum og eftir að ég sá húsið þá gerði ég mér grein fyrir að það var akkúrat spegilmynd af því húsi sem amma sýndi mér í draumnum. Ég var svo að fara til Spánar einhverjum árum áður en þetta var, nánar tiltekið 17 ára, en viku áður dreymdi mig að amma kæmi í heimsókn til mín og sagðist vilja kveðja mig. Amma var þá á Grund og orðin mjög veik. Ég heimsótti hana áður en ég fór til Spánar og skynjaði að hún vissi af mér. Ég var komin til Spánar nóttina áður en Karl Bretaprins og Díana giftu sig en ég man að þann dag var hátíð á Spáni og nóttina áður dreymdi mig að amma kæmi til mín og sagðist vilja fá sófann sinn og lítinn, bleikan kistil sem tengdist mér ekki.

Svo hugsaði ég ekkert út í drauminn. Þegar ég var svo í vélinni á leið til Íslands fletti ég Morgunblaðinu og sá þar tilkynningu um að amma hefði látist nóttina sem mig dreymdi að hún kæmi í heimsókn til mín og bæði um sófann og kistilinn, og að hún yrði jörðuð daginn sem ég flaug heim. Þannig að hún heimsótti mig aftur til að láta mig vita að hún væri farin og vildi fá þessar eigur. Ég var svolítið sár yfir því að hafa ekki verið látin vita að hún væri dáin en mér var sagt þegar heim kom að það hefði engu breytt; ég hefði ekki komið fyrr heim hvort sem væri og þau vildu ekki skemma fríið fyrir mér. Ég sættist alveg á þá skýringu.“

Þóra Guðrún Grímsdóttir

 

Gefur mikið

Sjálf hefur Þóra Guðrún leitað til heilara en hún hefur upplifað ýmis áföll í gegnum tíðina.

„Faðir minn var mikill sjúklingur og hann dó þegar ég var 18 ára en hann og báðar ömmur mínar dóu á nokkurra mánaða tímabili. Ég varð vitni að krapaflóðunum á Patreksfirði í janúar 1983 og það er áfall sem ég er nýbúin að vinna úr, næstum því 40 árum seinna.“ Þóra Guðrún sá þegar annað krapaflóðið hreif með sér hús sem stóð nokkrum metrum frá heimili hennar. „Svo á ég tvö ofbeldissambönd að baki sem var erfitt að losa sig úr og bæði heilun og fyrri lífa heilun hafa hjálpað mér mjög mikið í að vinna í því að sætta mig við og fyrirgefa. Þannig að það er ýmislegt sem ég hef gengið í gegnum. Ég trúi því að við lifum aftur og aftur og að við komum til að öðlast ákveðna reynslu. Við erum búin að ákveða að við ætlum að öðlast ákveðna reynslu á þessari jörð.“

Þóra Guðrún segir að það sem hún hafi lært af því að vera með þessa hæfileika sé að við höfum öll tilgang með því að koma á jörðina. „Ég hef lært að dæma ekki fólk heldur reyni að skilja af hverju fólk er í ákveðnum aðstæðum.“

Og hún segir að það gefi sér mikið að geta aðstoðað fólk sem heilari. „Mér hlýnar um hjartaræturnar þegar ég veit að ég hef hjálpað manneskju og get gefið þennan kærleika frá mér sem mér var falið að nota.“

Ég trúi því að við lifum aftur og aftur og að við komum til að öðlast ákveðna reynslu

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -