Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Þora þingmenn?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Ólafur Stephensen

Virðing Alþingis hefur sjaldan verið minni en á undanförnum mánuðum. Botninum var náð þegar popúlískur smáflokkur hélt þinginu í gíslingu vikum saman með lengsta málþófi þingsögunnar. Þegar við bættist að drjúgur hluti þeirra sem þannig fóru með tíma þingsins hafði skömmu áður orðið sér og vinnustaðnum ærlega til skammar með fylliríisröfli, rembu og fordómum má segja að höfuðið hafi verið bitið af skömminni.

 

Vit á mínútu: Lítið

Orkupakkaumræðan var 138 klukkustundir. Það eru 18,4 vinnudagar venjulegs launamanns. Tæpar fjórar vinnuvikur. Á sínum tíma ræddu þingmenn EES-samninginn allan í 102 klukkutíma áður en hann var leiddur í lög.

Höfundur þessarar greinar lagði það einu sinnig á sig að lesa alla EES-umræðuna í Alþingistíðindum vegna bókarskrifa. Hefði mátt komast af með minna? Alveg örugglega. Á austurríska þinginu var sami samningur ræddur í átta klukkustundir. Í sænska þinginu var umræðan 14 og hálfur tími. Finnskir þingmenn létu sér duga tvo daga til að ræða samninginn, norskir þrjá. Var meira vit á mínútu í þeim umræðum? Ekki nokkur einasti vafi.

Myndum við hafa þau í vinnu?

- Auglýsing -

Það væri ofmælt að segja að orkupakkaumræðan hafi verið innihaldslaus. En innihaldinu hefði mátt koma til skila á tveimur dögum eða þremur í lengsta lagi. Enda voru Miðflokksmenn ekki í málþófinu til að varpa ljósi á eitt eða neitt, heldur til að hindra að sá meirihluti, sem augljóslega er fyrir málinu á Alþingi, fengi sitt fram.

Alþingi er vinnustaður, þar sem allir fá borgað úr vasa skattgreiðenda. Á öðrum vinnustöðum þarf líka oft að ræða málin áður en ákvarðanir eru teknar. Það er óhætt að fullyrða að starfsmenn venjulegra vinnustaða, sem temdu sér annað eins gauf og málalengingar og þvældust með sama hætti fyrir samstarfsmönnum sínum yrðu reknir hratt og örugglega. Kannski er ástæða fyrir því að þingmönnum gengur oft illa að finna vinnu sem þeir telja við hæfi eftir að þingferli þeirra lýkur.

Af hverju sagði enginn stopp?

- Auglýsing -

Alþingi hefur sérstöðu á meðal þjóðþinga að því leyti hvað litlar takmarkanir eru á því hversu oft menn geta kvatt sér hljóðs og hve lengi hægt er að teygja umræður. Í flestum siðuðum ríkjum er málþóf á borð við það sem Miðflokkurinn stundaði í vor bara ekki í boði. Engu að síður er það nú svo að í þingskaparlögum eru ákvæði um að bæði þingforseti og níu þingmenn saman geti lagt til að umræðu skuli lokið. Atkvæði um slíkar tillögur skulu greidd umræðulaust og ræður einfaldur meirihluti því hvort þær eru samþykktar.

Nú var löngu orðið ljóst að allir voru orðnir hundleiðir á málþófi Miðflokksins um orkupakkann, meira að segja hinir stjórnarandstöðuflokkarnir. Af hverju var engin tillaga borin fram um að ljúka umræðunni? Ef ekki í lengsta málþófi sögunnar, hvenær þá?

Svarið er einfalt. Þingmenn þora ekki að skapa slíkt fordæmi af því að þeir vilja ekki hafa af sjálfum sér möguleikann á að beita orðbeldinu (svo fengið sé að láni ágætt nýyrði frá Guðmundi Andra Thorssyni) til að halda löggjafarsamkundunni í gíslingu einhvern tímann í framtíðinni. Reyndar má líka halda því fram að það hefði þótt til marks um hræsni að Steingrímur J. Sigfússon bæri fram slíka tillögu, miðað við sögulega frammistöðu hans í málþófi á árum áður. Blikna þó málalengingar Steingríms og Hjörleifs fóstra hans Guttormssonar í nýjasta samanburðinum.

Atvinnutvískinnungurinn

Hér erum við komin að ákveðnum kjarna málsins; minnisleysinu eða tvískinnungnum sem virðist atvinnusjúkdómur á Alþingi. Stjórnarþingmenn og ráðherrar láta gjarnan stór orð falla um ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar og stjórnarandstaðan um það hvernig stjórnarmeirihlutinn geti komizt upp með hvað sem er og misnoti vald sitt. Um leið og hlutverkin hafa snúizt við er allt gleymt og hvorir um sig taka upp nákvæmlega sömu hætti og þeir gagnrýndu jafnvel bara nokkrum vikum áður.

Eitt eftirminnilegasta dæmið um þetta er þegar úrskurðarnefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu 2011 að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög með mannaráðningu. Sjö árum fyrr hafði sama kærunefnd komizt að sömu niðurstöðu í sambærilegu máli, þar sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafði stigið í spínatið. Þá taldi Jóhanna sjálfsagt og eðlilegt að ráðherra segði af sér, en henni þóttu slíkar kröfur fráleitar þegar hún sat sjálf í súpunni. Sambærileg dæmi eru því miður fleiri en komið verður tölu á.

Skilvirkari vinnubrögð

Ein leiðin til að endurreisa virðingu Alþingis er að alþingismenn láti af þessum dæmalausa tvískinnungi og fari að taka mark á sjálfum sér, jafnvel þótt þeir skipti um hlutverk á þinginu.

Önnur er að bæta vinnubrögðin á þinginu, meðal annars með því að setja skýrar reglur um takmörkun ræðutíma, hversu oft þingmenn geta kvatt sér hljóðs og fjölda andsvara. Þannig væri hægt að gera umræður í þinginu miklu vandaðri, markvissari og skilvirkari. Málþófið ætti að gera útlægt.

Í þriðja lagi þarf að bæta vinnubrögð stjórnarráðsins þannig að stjórnarfrumvörp skili sér tímanlega til þingsins.

Þetta myndi skila því að þingið gæti fjallað jafnt og þétt og skipulega um mál og rætt þau efnislega, í stað þess að fáein mál séu rædd dögum saman og svo séu jafnvel stór og mikilvæg mál afgreidd í kippu, með hraði og á öllum tímum sólarhrings við þinglok án mikillar umræðu eða nauðsynlegrar vinnu í nefndum. Síðarnefndu vinnubrögðin, sem enn eru ástunduð þrátt fyrir ótal heitstrengingar um annað, auka hættu á alls konar mistökum við lagasmíðina. Með þessum breytingum yrði Alþingi skilvirkari vinnustaður og við bærum öll meiri virðingu fyrir stofnuninni og fólkinu sem við höfum þar í vinnu.

Fá lýðskrumarar frítt spil?

Breytingar af þessu tagi eru þeim mun mikilvægari sem hér eru komnir fram á sjónarsviðið lýðskrumsflokkar að evrópskri fyrirmynd. Sagan sýnir að þeir hika ekki við að misnota leikreglur lýðræðisins og nýta sér veikleika í regluverkinu. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að sjálfsvirðing eða sómakennd sjái til þess að þeir virði óskrifaðar reglur – ramminn verður að vera skriflegur og skýr og úrræði til staðar ef frá honum er vikið. Sá yfirgnæfandi meirihluti Alþingis, sem hafði ímugust á því hvernig málfrelsið var misnotað á þinginu í vor, verður að þora að gera breytingar til að endurreisa virðingu þingsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -