Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Þórarinn Þórarinsson minnist ömmu sinnar: Má ekki fella eitt einasta tár að henni látinni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Amma Ragnheiður, eða bara amma Ragg, var tæpum mánuði frá því að verða 101 árs þegar hún fékk loksins að „himmla“, eins og hún kallaði það, fullsödd lífdaga og löngu tilbúin til þess að bætast í þann gleðskap og fornvinafögnuð sem hún hafði sterkan grun um að afi og annað samferðarfólk hefði þjófstartað án hennar,” segir Þórarinn Þórarinsson blaðamaður í fallegri en jafnframt hnyttnum minningarorðum um ömmu sína, Ragnheiði Vigfúsdóttur Þormar. Ragnheiður var mánuði frá sínum 101 afmælisdegi þegar hún lést.

Þórarinn minnist ömmu sinna á ljúfan og hnyttin hátt.

Þórarinn taldi rétt að standa við löngu gefið loforð við ömmu sína um að halda því til haga að hún hefði ekki verið væmna ömmutýpan.

Gefum Þórarni orðið.

„Amma var samkvæmisljón og eins og fiskur í vatni þegar hún sveif um veislugólf með gullið vín í glasi og fór hvergi leynt með að heldur þótti henni æðri máttarvöld leika hana grátt með því að láta hana tóra löngu eftir að veislunni lauk og allir hinir farnir í eftirpartí handan móðunnar miklu. Verst af öllu þótti henni síðan að þurfa að þola skrokkinn gefa eftir og gigtina eflast á meðan hugurinn væri enn kvikur og hausinn í lagi.

Þetta ósætti bar hún síður en svo í hljóði og þannig byrjaði Doddi, sonur minn, barnungur að kalla hana „amman sem getur ekki dáið“ og byggði nafnbótina á traustri frumheimild þar sem hann hafði ítrekað heyrt langömmu sína lýsa því yfir að þetta væri löngu orðið gott hérna megin grafar.

Tæpum tuttugu árum síðar kom svo loksins að því að „amman sem getur ekki dáið“ fékk að kveðja og samkvæmt ströngum fyrirmælum hennar ber mér að samgleðjast henni frekar en syrgja. Hún lagði þunga áherslu á þetta og ef til vill er það til marks um austfirska hörku ömmu minnar að hún átti til að hóta mér því að hún myndi ganga aftur og ofsækja mig ef ég dirfist að fella eitt einasta tár að henni látinni.

- Auglýsing -

Amma var vinur minn, ráðgjafi og traustur bandamaður í lífsbaráttunni en vinátta okkar hófst strax á fyrstu árum mínum þar sem hún féllst blessunarlega á að dagvista mig á Hofsvallagötunni svo mamma, tengdadóttirin unga, gæti klárað hjúkrunarfræðinámið. Þeir sem þekktu ömmu vita að þetta var meira en að segja það þar sem henni þótti börn yfirleitt hafa afskaplega þægilega fjarveru og barnapössun var aldrei hátt skrifuð hjá henni.

Ég lærði býsna margt á þessari undanþágu á Hofsvallagötunni og þar var amma mér ekki síður mikilvæg fyrirmynd en afi, enda ljóngrimm, flugmælsk og stílfær límheili. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég áttaði mig á hversu dýrmæt það var fyrir smápolla sem langaði að verða blaðamaður að hlusta á ömmu skamma afa fyrir val á fréttum og myndum á forsíður Tímans og rekja upp pólitísk plott af innsæi sem kannski byggði fyrst og fremst á þeirri gullnu reglu sem hún innrætti mér, til góðs eða ills, að treysta fólki varlega og gruna það frekar um græsku en hitt.

Í seinni tíð varð okkur vitaskuld tíðrætt um himnaförina, sem stöðugt var slegið á frest, og þá lét amma mig lofa því að skrifa um hana skemmtilega minningargrein þar sem ég átti að koma því vandlega til skila að hún var heimsborgari en ekki svona amma sem tók á móti manni í eldhúsinu með svuntu og glóðvolgar pönnukökur.

- Auglýsing -

Þannig að svo því sé haldið til haga þá fílósóferuðum við amma miklu oftar og lengur yfir Elephant og staupi af Aalborg Jubilaeums Akvavit heldur en pönnukökum þótt þær hafi vissulega verið ofboðslega góðar hjá henni þegar sá gállinn var á henni,“ skrifar Þórarinn Þórarinsson í minningu ömmu Ragg.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -