Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Thorberg Einarsson stýrimaður var frægt barn: Platínuplötur en rokklingurinn fékk ekki krónu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Já. það var bátur á Vopnafirði. Hann var einn að róa honum, maðurinn. Það er talið að hann hafi farið út með færinu. Svo varð held ég enginn var við það fyrr en um kvöldið. Þá fórum við að leita að honum. Ég fór með björgunarskipinu með björgunarsveitinni að leita að honum. Hann fannst svo í sjónum daginn eftir. Björgunarskip frá Neskaupstað fann hann og við fórum svo með hann í land. Þetta sýnir manni að þetta er ekkert grín,“ segir Thorberg Einarsson, stýrimaður á Vésteini GK, í viðtali við Frosta Logason í Sjóaranum um það þegar maður fórst.

Thorberg var á sínum tíma barnastjarna þegar hann söng með Rokklingunum. Seinna lá leiðin á sjóinn.

Rokklingarnir voru landsfrægir,

Ég var fáránlega sjóhræddur.

Thorberg er spurður hvort hann sjálfur hafi lent í hættu. „Ég var fáránlega sjóhræddur,“ svarar hann. „Og þótt ég væri ekki í hættu þá hefur mér oft fundist það. Það var bara bilun hvað ég var alveg hroðalega sjóhræddur.“

Löngu eftir að þú byrjaðir á sjó?

„Já, ég veit ekki hvað þetta var.“

 

- Auglýsing -

Kók og Snickers

Thorberg segist fyrst hafa farið á sjó með pabba sínum þegar hann var um sex ára gamall. „Hann átti trillu í Grindavík. Þetta var ekkert fyrir mig. Ekki neitt. Mín sjómennska þegar ég var að prófa þetta snerist um að vera á hnjánum ælandi. Ég man að það var maður á öðrum bát sem kom siglandi til okkar og hann henti SodaStream-flösku yfir svo ég myndi ekki drepast.“

Hvað var verið að rífa svona lítinn krakka út?

- Auglýsing -

„Spenna í mér.“

Þig langaði til að fara með.

„Já.“

Hann hélt lífinu í mér þessa túra.

Síðan liðu þó nokkuð mörg ár og 16 ára gamall fór Thorberg á Skarfinn. „Ég fór nokkra túra eitt sumarið og það held ég ég að hafi verið fyrsta launaða sjómennskan. Skarfinn var beitningavélabátur sem Fiskanet í Grindavík átti,“ segir hann en mágur pabba hans var skipstjóri. „Hann hélt lífinu í mér þessa túra því þar breyttist þetta ekkert; ég man að einu sinni ældi ég í innsiglingunni í Grindavík á leiðinni út. Ég held þeir hafi verið að taka beitu og setja í rekkana og þetta var bara ógeðslegt. Í þeim túrum sem ég fór á Skarfinum þá held ég að ég hafi bara drukkið kók og borðað Snickers allan tímann. Svo í restina var ég farinn að geta borðað.“

 

Á grásleppuvertíð

Planið var ekki að verða sjómaður.

„Þetta heillaði mig eiginlega ekki neitt. Vinir mínir voru allir farnir á sjó og ég öfundaði þá alltaf,“ segir Thorberg. „Mér fannst þetta vera spennandi,“ segir hann en vinirnir voru komnir á uppsjávarskip, „en ég var brenndur á þessu; ég yrði bara ælandi. Mér fannst þetta erfitt.“

En svo fór hann á 200 tonna netabát þegar hann var tvítugur. „Þá gjörbreyttist það. Þá varð ég ekkert sjóveikur og upp úr því var þetta planið.“

Hann var á Sólfara. „Við vorum mikið í Ólafsvík. Við vorum ungir og ógeðslega gaman og fullt af gaurum sem ég þekkti. Það var djammað á kvöldin og svo var farið á sjóinn um nóttina. Mér fannst það alveg geggjað.“

Það var annað slagið djammað.

Fylgdu þessu alltaf mikil fyllirí þegar komið var í land?

„Já, það var annað slagið djammað,“ segir Thorberg og bætir við að hann hafi aldrei átt neinn pening á þesum tíma. Það var eytt.

Hann fór seinna á dragnót.

Hvað gerðir þú um borð?

„Aðallega slæging og að ganga frá afla. Og láta nótina fara og taka hana svo aftur um borð.“

Svo reri hann á tímabili með manni frá Vopnafirði. Heiðari. „Ég var með honum á línu í 10 ár. Á beitningavél. Ég tók mér alltaf pásur; ég fór á grásleppu á hverju ári – fór á grásleppuvertíð með Hreini Björgvinssyni á Vopafirði. Ég held ég hafi farið 12 gráslepuvertíðir með honum.“

 

Vinirnir

Thorberg er núna stýrimaður á Vésteini GK.

„Ég er með 15 metra réttindi; mig minnir að þetta hafi verið þrjár helgar á Neskaupstað á þeim tíma,“ segir hann um námið. „Þetta er held ég einn vetur í dag. Við bókuðum herbergi, drukkum nokkra bjóra yfir helgarnar og mættum í tíma.“

Thorberg Einarsson ásamt skipsfélögum sínum á Vésteini.

Þú ert einn af þeim sem hafa þurft að gyrða sig í brók og hætta að drekka.

„Já, ég partíaði yfir mig. Ég eyddi miklu í vitleysu. Það situr meira eftir að maður hætti að drekka,“ segir Thorberg sem hefur verið edrú í sjö ár.

Thorberg segir að undirstaðan í veiðunum á Vésteini GK sé þorskur. „Svo kemur ýsa og karfi; þegar maður er í dýpinu þá kemur svolítið af karfa. Og svo kemur svolítið af löngu í Grindavík á veturna. Og keila.“

Fjölskyldumaðurinn Thorberg.

Lítill svefn fylgir því að vera á línubát. „Fyrir mína parta á þetta vel við mig. Skorpuvinna. Taka á því í einhvern ákveðinn tíma. Það er best og svo kem ég heim og þá er ég eins og auðnuleysingi. Það er skilningur á mínu heimili þegar ég kem heim eftir törn og er hugsað um mig eins og smábarn.“

Enda reynum við að vera með fíflalæti eins og við getum.

Það er oft fjör um borð í Vésteini og Thorberg talar um stemmninguna.

„Það að vera með vinum sínum er held ég lykillinn að þessu. Þetta getur verið jafnleiðinlegt og þetta er skemmtilegt. Að fara á sjóinn með gaurum sem þú þekkir ekki neitt og það er einn í fílu; það gengur ekki. Þetta er svo þröngt og það rúmar ekki neitt svoleiðis, enda reynum við að vera með fíflalæti eins og við getum.

Þetta er bara hlátur út í eitt.“

Mikið grín og mikið gaman.

„Stemmarinn hjá okkur er alveg geggjaður. Það skiptir ekki máli hvort þú sért búinn að sofa í einn klukkutíma eða 12 tíma. Það eru alltaf fíflalæti. Þótt við séum að leggja af stað í fimmtugsaldurinn flestir þá erum við bara 18 ára í hausnum. Ég ætla allavega að halda því áfram.“

Thorberg var barnastjarna.

Þú ert rokklingur; Þessi landsþekkta hljómsveit sem var samsett barnasveit í gamla daga þegar við vorum litlir drengir. Þú varst þarna í stóru lykilhlutverki. Þess vegna ertu Tobbi rokklingur.

„Þetta verður líklega sett á legsteininn hjá mér þegar þar að kemur.“

Þú nærð ekkert að má þetta af þér?

„Nei.“

Hvernig kom það til að þú varðst barnastjarna og fórst að syngja inn á plötur?

„Sigurrós systir var að keppa í söngvakeppnum og vann einhverja keppni. Mamma og pabbi fóru með hana í einhverja prufu. Mig minnir að það hafi verið farið í kjallarann í Djassballettskóla Báru og ég var við kubbaborð að leika við einhverja krakka. Í minningunni þá vissi ég ekkert hvað við vorum að gera þarna. En svo skrifaði pabbi nafnið mitt á eitthvað blað og það var síðan kallað í mig inn. Mig minnir að ég hafi ekki einu sinni sungið heldur hafi ég sagt þeim brandara.“

Svo fór boltinn að rúlla og Thorberg varð meðlimur í barnahljómsveitinni Rokklingunum.

„Plöturnar voru teknar upp í Hljóðrita í Hafnarfirði. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að gera þarna. Ég vissi ábyggilega ekki hvað plata var. Ég mætti bara þarna og gerði það sem mér var sagt að gera. “

Þetta sprakk út. Ég var níu ára. Þetta var alveg fáránlegt.

Plöturnar urðu þrjár.

„Þetta sprakk út. Ég var níu ára. Þetta var alveg fáránlegt.“

Fannstu fyrir því að þú værir frægur á Íslandi?

„Já. Ég hef oft hugsað út í þetta. Mér leið eins og í Truman-show. Mér fannst allt snúast í kringum mig. Mér fannst þetta alveg geggjað.“

Hann segist að plöturnar hafi rokselst.

„Ég er með eina platínulötu úti í bíl sem ég er að fara að hengja upp á vegg í vinnunni.“

Hann minnir að þær hafi allar farið í platínu.

Fékkstu þá fullt af peningum fyrir þetta?

„Nei, ég man ekki eftir að hafa fengið eina krónu. Ég held að það sé alveg staðreynd.“

Fékk ekkert ykkar pening?

„Ég veit ekki til þess.

Hver fékk þá peninginn af sölunni?

„Þeir sem stóðu að þessu ábyggilega.“

Viðtal Frosta Logasonar við Thorberg er að finna hér.

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -