Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sigraði í prófkjöri flokksins í Norðvesturkjördæmi. Alþingismaðurinn Haraldur Benediktsson, oddviti flokksins í kjördæminu, varð í öðru sæti.
Áður hafði Haraldur látið hafa eftir sér að hann mundi ekki taka annað sætið, ef hann héldi ekki því fyrsta í prófkjörinu. Sagði hann í samtali við Bæjarins bestu, héraðsmiðil á Vestfjörðum:
„Ég hef setið sem oddviti listans og gegnt stöðu fyrsta þingmanns kjördæmisins. Ég hef náð að stilla saman strengi allra þingmanna kjördæmisins til góðra verka. Ég er reiðubúinn að gera það áfram. Feli flokksmenn öðrum það hlutverk er það skýr niðurstaða. Það getur ekki verið gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu.“
Alls voru greiddu 2.289 atkvæði í prófkjörinu, þar af voru 2.232 gild atkvæði. Þau skiptust þannig:
1. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, 1.347 atkvæði í 1. sæti.
2. Haraldur Benediktsson, 1.061 atkvæði í 1.-2. sæti.
3. Teitur Björn Einarsson, 1.190 atkvæði í 1.-3. sæti.
4. Sigríður Elín Sigurðardóttir, 879 atkvæði í 1.-4. sæti.
Þórdís hlaut 60% atkvæða í 1. sæti en Haraldur 35% en þau sóttust bæði eftir 1. sætinu. Þórdís fékk 85% af heildaratkvæðum, Teitur Björn, sem hafnaði í 3. sæti, fékk 62% og Haraldur fékk 61%.
Á þingi sitja tveir Sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi.