Mánudagur 13. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Þórdís Sif Sigurðardóttir: Viljum göng á milli Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er ótrúlega spennandi að fá tækifæri til að vinna með Vesurbyggð að áframhaldandi uppbyggingu sveitarfélagsins. Það eru spennandi tækifæri fyrir Vesturbyggð, fjölgun íbúa og atvinnutækifæra. Ég hlakka til að vinna með bæjarfulltrúum, íbúum og fyrirtækjum á svæðinu. Það er algjör draumur að fara aftur að vinna með Vestfirðingum á Vestfjörðum, enda einstaklega gott fólk og fallegt umhverfi,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, nýráðinn bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Á hvað vill hún leggja áherslu í starfinu?

„Samstarf er eitthvað sem ég legg alltaf mikla áherslu á sem og vandaða stjórnsýslu og góðar ákvarðanir. Það liggur fyrir að það þarf að ráðast í alls kyns uppbyggingarverkefni, fjölgun íbúðarhúsnæðis og leikskólaplássa. Ég vil enn fremur halda áfram að vinna með íbúum að eflingu tómstunda og menningar á svæðinu.“

Ég er að taka við mjög góðu búi.

Hvað með nýjungar?

„Ég er að taka við mjög góðu búi þar sem búið er að vinna mjög gott starf í skipulagi stjórnsýslunnar. Það er ekkert sem ég get bent á núna sem ég mun breyta áður en ég tek til starfa en með nýju fólki koma alltaf einhverjar nýjungar.“

 

- Auglýsing -

Þurfum að hugsa stórt

Hvers vegna sótti Þórdís eftir að vera í starfi bæjarstjóra?

„Starf bæjarstjóra er mjög fjölbreytt og skapandi. Þú þarft að hafa þekkingu á mörgum ólíkum málefnum og vera góður í mannlegum samskiptum. Það er gefandi að taka þátt í uppbyggingu samfélags og þeim verkefnum sem verða á leið manns hverju sinni. Þetta er framkvæmdastjórastarf en miklu umfangsmeira og fjölbreyttara en hefðbundin framkvæmdastjórastörf. Það sem er mest gefandi er samfélagslegi vinkillinn; að kynnast nýju samfélagi og taka þátt í því. Það að geta með störfum sínum haft jákvæð áhrif á þróun samfélags hvort sem er að auka fjölbreytileika starfa, taka þátt í gerð hjólabrautar eða vinna í ímyndarmálum samfélagsins.

- Auglýsing -

Í Vesturbyggð er mikil uppbygging í tengslum við fiskeldið og kalkþörungana sem og þjónustu við ferðamenn og því fylgir aukin eftirspurn eftir vinnuafli, húsnæði og bættri aðstöðu við hafnarsvæði. Það er nánast ekkert atvinnuleysi í Vesturbyggð og skortur á húsnæði. Fjölgun íbúðarhúsnæðis er hafin en bæði á Bíldudal og Patreksfirði eru íbúðarhús í byggingu í sumar. Það þarf svo að skoða leikskólamálin og aðra almenna þjónustu í þessu samhengi og passa upp á að allir innviðir séu til staðar. Það er mikilvægt að uppbygging innviða og fjölgun starfa haldist eins vel í hendur og hægt er og er það eitt af þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir.

Það er mikilvægt að greina möguleikana og tækifærin sem sameiningu myndu fylgja.

Við þurfum að hugsa stórt og vera óhrædd við að skipuleggja framtíðina. Eitt af því sem við viljum sjá eru göng á milli Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals en Hálfdán-heiðin við Bíldudal á það til að vera ófær og því ekki hægt að líta á svæðið sem eitt atvinnusvæði. Annað spennandi verkefni er að hefja óformlegar sameiningarviðræður milli Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Það er mikilvægt að greina möguleikana og tækifærin sem sameiningu myndu fylgja til að varpa ljósi á kostina og gallana við sameiningu sveitarfélaganna. Góð samvinna hefur verið í gangi milli sveitarfélaganna og er hægt að bæta það enn betur.“

Þórdís Sif Sigurðardóttir

Launin í samræmi við ábyrgð

Á árunum 2020-2022 var Þórdís sveitarstjóri Borgarbyggðar undir meirihluta Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Framsókn fékk fimm meðlimi kjörna í sveitarstórn Borgarbyggðar í síðustu sveitarstjórnarkosningum og felldi meirihlutann og ákvað nýr meirihluti að endurráða ekki Þórdísi.

„Ég hóf störf í Borgarbyggð um leið og fyrsta Covid-bylgjan reið yfir og fór að hafa áhrif á starf stofnana sveitarfélagsins. Þetta voru því frekar sérstakir tímar. Helstu verkefnin voru að gera stjórnsýsluna skilvirkari, við gerðum breytingar á skipuriti sveitarfélagsins, fjölguðum stöðugildum í skipulags- og byggingarmálum og jukum áherslu á þjónustu við íbúa og aðra viðskiptavini. Við gerðum tugi verkferla yfir helstu verkefni stjórnsýslunnar og útbjuggum gæðahandbók. Enn fremur undirbjuggum við skipulagningu nýrra íbúðahverfa, þjöppun byggðar og breytingar á skipulagi atvinnusvæða. Það fór því mjög mikil vinna í breytingar og lagfæringar innan stjórnsýslunnar. Ég starfaði aðeins fyrir Borgarbyggð í tvö ár og hefði verið frábært að fylgja eftir öllum þeim breytingum sem við vorum að vinna að á nýju kjörtímabili. En ég treysti því að gott starfsfólk Borgarbyggðar og sveitarstjórnarfulltrúar haldi áfram með þau verkefni sem hafin eru.“

Vinnuframlag sveitarstjóra er gríðarlegt og ekki skráð inn í stimpilklukku.

Hver er skoðun Þórdísar varðandi há laun sveitarstjóra?

„Ég tel launin vera í samræmi við ábyrgð. Það er mikilvægt að horfa á það umhverfi sem sveitarstjórar starfa í. Við erum nokkurn veginn í vinnunni allan sólarhringinn, alltaf vakandi yfir hagsmunum sveitarfélagsins í heild. Vinnuframlag sveitarstjóra er gríðarlegt og ekki skráð inn í stimpilklukku. Sveitarstjóri hefur jafnframt marga undirmenn sem eru starfsmenn ýmissa stofnana sveitarfélagsins. Það er auðvitað alltaf mikilvægt að taka þessa umræðu og velta upp öllum steinum en í flestum tilvikum held ég að sveitarstjórar séu ekki að fá ofgreiðslur fyrir sitt vinnuframlag og sína ábyrgð. Einnig er sveitarstjórastarfið mjög ótryggt og kjörin eftir því.“

Fjölbreytt verkefni

Þórdís er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og B.sc.-gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst.

„Áður en ég fór inn í sveitarstjórnarmálin var ég í fjármálaheiminum; vann hjá fjárfestingarfyrirtæki og í banka. Ég hafði átt þann draum að flytja vestur á firði og kláraði lögfræðina samhliða vinnu minni í bankanum til að eiga fjölbreyttari tækifæri til starfs. Þá áttaði ég mig á að ég myndi vilja vinna við þau verkefni sem eru hjá sveitarfélögum. Ég hafði þó engan grun um hversu fjölbreytt verkefni væru hjá sveitarfélögum sem kom mér skemmtilega á óvart. Hjá Ísafjarðarbæ sinnti ég mjög ólíkum verkefnum í nánu samstarfi við þá bæjarstjóra sem ég vann með sem og annað starfsfólk,“ segir Þórdís sem var á árunum 2013-2020 bæjarritari og staðgengill bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. „Ég naut þess að starfa að verkefnunum hjá Ísafjarðarbæ og með því frábæra fólki sem þar er. Ég vann að íbúalýðræði og nýsköpun, atvinnumálum og fjölgun íbúðarhúsnæðis í gegnum starfið og stjórnarsetu. Þetta eru allt ólík verkefni sem gáfu mér mikla innsýn inn í verkefni sveitarfélaga. Þessi tími gaf mér mjög mikið; bæði lærði ég mikið og eignaðist góða vini.“

Þórdís Sif Sigurðardóttir

Fjallahjól og ískaldur sjór

Þórdís segir að fjölskyldan hafi byrjað í skíðamennskunni á Ísafirði og að það sé eitt það skemmtilegasta sem þau gerðu saman.

Þessa dagana er ég mest á fjallahjólinu.

„Á Ísafirði varð til frábær hópur kvenna sem ákvað að taka þátt í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði; sumar okkar höfðu aldrei stigið á gönguskíði áður og þar á meðal ég. Þegar nálgast fór gönguna ákváðum við að taka þetta aðeins lengra og klára Landvættina líka. Það var frábær upplifun þar sem ég steig mörg fyrstu skref í því sem mér finnst skemmtilegast að gera núna. Gullrillurnar mínar eiga stórt pláss í hjarta mínu og því hvernig ég hef kosið að lifa lífi mínu undanfarin ár. Ég nýt þess að vera í góðum félagsskap vina og/eða fjölskyldu og stunda útivist með ýmsum hætti. Þessa dagana er ég mest á fjallahjólinu og er ég viss um að ég get fundið einhverjar skemmtilegar leiðir fyrir vestan til að hjóla. Annars geng ég líka nokkuð á fjöll, stunda líkamsrækt af og til og elska að fara í ískaldan sjó. Þrátt fyrir að útivist og hreyfing séu mín helstu áhugamál þá er líka mikilvægt að slaka vel á heima eftir langa daga á skrifstofunni og njóta þess að vera með krökkunum.“

Þórdís Sif Sigurðardóttir

Nýjar áskoranir

Hvaða atburður í lífinu hefur haft mest áhrif á Þórdísi?

„Ég ólst upp í Borgarnesi en fór svo til Reykjavíkur í framhaldsskóla þegar ég var 16 ára. Ég hef alltaf litið á mig sem landsbyggðartúttu og flestir góðir vinir mínir eru utan af landi. Þegar ég var búin að búa í Reykjavík meirihluta ævi minnar og flutti aftur út á land þá fann ég hvað ég var komin lagt frá þeim uppruna sem ég tengdi mig alltaf við. Það að flytja á Ísafjörð breytti lífssýn minni og afstöðu til smærri byggðarlaga og samgangna líkt og gangnagerð. Við viljum öll geta ferðast um landið okkar, að út um land allt sé þjónusta í boði fyrir okkur og verðum við því að passa upp á að halda íbúabyggð á landsbyggðinni lífvænlegri með góðum samgöngum allt árið um kring og fjölbreyttu atvinnulífi. Ég fór að hafa mikinn áhuga á byggðaþróun og hvað það væri sem skapaði gott samfélag.“

Hvað með drauma varðandi framtíðina?

„Ég hlakka mjög mikið til að kynnast samfélaginu og fólkinu í Vesturbyggð betur. Það að setjast að á nýjum stað með ný tækifæri og nýjar áskoranir er eitthvað sem er spennandi.

Vera lausnamiðuð.

Ég ætla að halda áfram að horfa jákvæðum augum á hlutina og vera lausnamiðuð, vera til staðar fyrir börnin mín eins og ég get og aðra sem mér þykir vænt um. Hlúa að sjálfri mér og mínum áhugamálum. Vera heilbrigð á líkama og sál eins lengi og lífið leyfir mér og njóta alls þess óvænta sem lífið mun bjóða upp á.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -