Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Þórdís Sigurðardóttir vill 1. sæti hjá Viðreisn í Reykjavík: „Það er í mér einhver brimbrjótur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég brenn fyrir sýn Viðreisnar um réttlátt samfélag þar sem almannahagsmunir ganga alltaf framar sérhagsmunum og allar manneskjur, heimili og fyrirtæki njóti jafnræðis. Það er framtíðarsýnin sem ég vil vinna að sem leiðtogi og er sannfærð um að eigi að vera leiðarljós farsæls samfélags,“ segir Þórdís Sigurðardóttir sem sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík sem fer fram 4. og 5. mars.

Þórdís er eigandi Manifesto ráðgjafafyrirtækis og hefur víða komið við í störfum sínum og öðlast mikla reynslu af rekstri og stjórnun fyrirtækja, bæði sem stjórnarmaður, ráðgjafi og framkvæmdastjóri. Hún var lektor í stefnumótun og stjórnun í Háskólanum í Reykjavík og jafnframt gegndi hún forstöðu yfir MBA-náminu og sat í háskólaráði skólans. Þórdís var einnig framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar sem á og rekur 18 skóla á landinu. Í störfum sínum hefur Þórdís þótt einkar farsæll leiðtogi þegar kemur að breytingastjórnun og umbreytingarverkefnum, en nefna má sem dæmi að árið 2019 hlaut Hjallastefnan verðlaun fyrir „Byltingu í stjórnun“ frá Viðskiptaráði Íslands. Þórdís leiddi verkefnið og miðaði það að valdeflingu starfsfólks sem leiddi til aukinna gæða í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Þórdís segir að sú stjórnun sem hún aðhyllist miði að því að auka völd og áhrif starfsfólks sem raunverulega vinnur verkefnin sem ætlast sé til að unnin séu og fækka milliliðum – allt með mikilli aðkomu starfsfólksins sjálfs. „Þetta kallar á virðingu gagnvart öllum störfum í kerfinu og fyrir þeim sem þiggur þjónustuna og er því ekki síst mikilvægt þegar um er að ræða þjónustu sem snýr að velferðarþjónustu, svo sem við börn, aldraða og fatlað fólk,“ segir Þórdís. Þannig fáist bestu hugmyndirnar og séu þær virkjaðar fáist bestu lausnirnar. Slíkar áherslur þurfi að auka í stjórnun og rekstri borgarinnar.

„Það þarf að draga úr sóun og þar felast tækifæri til að endurhugsa fjármálin og tíma auk þess sem þjónusta batnar, starfsánægja eykst og kerfið verður skilvirkara. Þetta kallar á virðingu gagnvart öllum störfum í kerfinu og fyrir þeim sem þiggur þjónustuna.“

Innviðir verða að styðja við þá uppbyggingu því þetta er hluti af grænum lausnum og vellíðan borgarbúa

Þórdís segir að sér þyki einnig brýnt að bregðast við ákalli atvinnulífsins um að stytta boðleiðir og styðja við starfsemi í borginni með markvissum hætti. „Blómlegt atvinnulíf er lykilþáttur í að mynda sjálfbær og lífleg hverfi þar sem fólk þarf ekki notast við einkabíl til að sinna öllum verkefnum daglegs lífs. Innviðir verða að styðja við þá uppbyggingu því þetta er hluti af grænum lausnum og vellíðan borgarbúa. Hið opinbera getur gert margt til að örva sköpunarkraft fólks og efla heilbrigða samkeppni sem svo leiðir af sér nýjar lausnir fyrir daglegt líf fólks,“ segir Þórdís sem segir að ekki eigi að horfa á atvinnulíf og opinbera þjónustu sem andstæða póla því hvort tveggja sé mikilvægur þáttur góðs samfélags.

 

Allt hið smáa

- Auglýsing -

Þórdís segist hafa aðhyllst Viðreisn frá því að flokkurinn var stofnaður. „Ég á samleið með frjálslyndri stefnu og sterkum gildum auk þess sem mér finnst markmið flokksins um jafnrétti, réttlátara samfélag, krafa hans um kröftugt efnahagslíf og ábyrga fjármálastjórnun í takt við það sem ég hef talað fyrir. Í mínum störfum hef ég ítrekað séð hve mikil verðmæti eru í hverju einu og einasta starfi sem unnið er. Sé virðing borin fyrir hverju starfi og sá sem það vinnur fái að hafa eitthvað um það að segja, þá fæst besta útkoman,“ segir Þórdís og tekur þáttinn Verbúðina sem nýlegt dæmi sem mörgum sé hugleikið um þessar mundir. Hver einasti rammi og hljóðmynd beri vott um aðkomu fjölda fólks en ekki eins snillings. Fókusinn sé ekki aðeins á að það sem sé mest áberandi eða á frægasta leikarann heldur sýni heildarmyndin mikla vinnu fjölda ólíkra einstaklinga sem vinna að sama markmiði – það er að búa til innihaldsríkt og áhrifamikið verk. Þessum augum megi einnig líta öfluga leikskóla sem skila hamingjusömum og forvitnum börnum út í grunnskólana, tómstundastarf sem byggir upp sjálfstraust og lífsgleði þeirra sem það stunda eða vel rekna hverfisverslun eða fyrirtæki sem skipti nágrenni sitt og samfélag miklu máli, skapi góðan brag og umtal. „Hver einstaklingur og verk hans skiptir máli en samvinna og gagnkvæm virðing getur skilað samfélaginu einhverju stórkostlegu þótt ávinningurinn sjáist ef til vill ekki strax og stundum skortir næmni í samfélaginu til að bera skynbragð á raunverulegt mikilvægi þess.“

 

Nunnurnar í Hólminum

- Auglýsing -

Þórdís ólst upp í Stykkishólmi – bænum við fjörðinn stóra þar sem eyjarnar eru sagðar óteljandi.

Það voru ólýsanleg forréttindi að fá að kynnast nunnunum

„Það er ekki hægt að segja annað en að ég hafi fengið trúarlegt uppeldi,“ segir Þórdís og hlær. „Á þeim tíma þegar ég var að vaxa úr grasi fóru börn í leikskóla hjá nunnunum og svo fórum við alla sunnudaga niður í Hvítasunnusöfnuðinn; það var öflugur Hvítasunnusöfnuður í bænum og manni fannst alltaf svo gaman að fara þangað. Það var verið að syngja svo skemmtileg lög. Ég fór þó alltaf á sunnudagsmorgnum fyrst í barnamessu klukkan 11 – mér þykir vænt um þennan hluta af barnæskunni og dýrmætt að kynnast fjölda tegunda trúariðkunar,“ segir Þórdís sem minnist einkum nunnanna með miklum kærleika.

„Það voru ólýsanleg forréttindi að fá að kynnast nunnunum; þær ráku þarna spítala, prentsmiðju og leikskóla. Þetta var ótrúlegt. Þær gerðu svo stórkostlega hluti fyrir samfélagið.“

Þórdís er spurð hvað hana hafi dreymt um að verða á þessum tíma. „Ég held að mig hafi alltaf langað til að láta eitthvað gott af mér leiða. Kannski var þetta einhver „inspírasjón“ frá nunnunum. Ég held að það hafi haft mikil áhrif.“

Þórdís hefur gengið Jakobsveginn fram og til baka síðustu sjö ár bæði ein og líka með allri fjölskyldunni. „Það hefur breytt lífi mínu mikið og veitt mér ró, innri frið og líka stórkostlegar uppgötvanir sem ég tengi svo vel við æskuna og lífið með nunnunum.“

 

 

Mikilvægur lærdómur

Sextán ára gömul flutti Þórdís til Reykjavíkur til að hefja nám við Menntaskólann í Reykjavík. Hún lauk síðan prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og lauk eftir það meistaranámi í félagsfræði frá sama háskóla.

„Ég fór í stjórnmálafræði vegna þess að ég hafði einlægan áhuga á stjórnmálum og byrjaði í stúdentapólitíkinni sem varð til þess að ég missti áhugann á að fara sjálf í pólitík um langt skeið. En sá áhugi hefur heldur betur vaknað á ný eftir langan dvala.

Ég var í start-up verkefnum erlendis, sat í stjórnum fyrirtækja hér á landi sem erlendis og var stjórnarformaður í skráðu fyrirtæki í kauphöll

Árið 2005 fékk ég svo tilboð frá Baugi um að fara að vinna hjá fyrirtækinu. Ég fór í mörg mjög áhugaverð verkefni og fannst spennandi að vinna hjá fyrirtæki sem þá var svolítill suðupottur samfélagsumræðunnar. Ég var í start-up verkefnum erlendis, sat í stjórnum fyrirtækja hér á landi sem erlendis og var stjórnarformaður í skráðu fyrirtæki í kauphöll. Þetta er gríðarleg reynsla sem hefur gert mér kleift að ná þeim árangri sem ég hef séð í mínum störfum eins og hvað varðar Hjallastefnuna. Þannig að tengslin við atvinnulífið finnst mér líka vera svo mikilvæg fyrir borgina; að skilja hvað þarf til þess að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu og hvað ber að varast.“

 

Allt breyttist á einni nóttu

Hrunið og það sem á eftir fylgdi var mörgum erfitt sem höfðu tengsl við atvinnulífið, svo sem Baug, fyrir utan almenning í landinu sem sat eftir með sárt ennið. Umræðan snerti ekki aðeins vinnustað Þórdísar heldur líka nánustu fjölskyldu, því Þórdís er systir Hreiðars Más Sigurðssonar sem var forstjóri Kaupþings.

„Jú, það má eiginlega segja að allt hafi breyst á einni nóttu. Nýr veruleiki blasti við og margt sem fór á allt annan hátt en maður hefði nokkurn tímann geta trúað eða séð fyrir á þeim tíma. Þetta var að sjálfsögðu mikil lífsreynsla sem gerir mann auðmjúkari og sterkari ef maður nær að vinna úr vel henni.“

Þetta var mikið áfall

Hvað var erfiðast? „Það var skiljanlega svo mikill sársauki í samfélaginu og þegar það beinist gegn ákveðnum aðilum þá er bara ofsalega sárt að vera hluti af því. Þetta var mikið áfall. Ég held það hafi verið erfitt fyrir alla að horfa upp á þetta. Og þegar hlutirnir hafa svona miklar afleiðingar þá verða viðbrögðin erfið. Staðan var svo flókin og þörfin fyrir að fá útrás fyrir reiðina var skiljanleg. Það var erfitt að takast á við þetta allt saman.“

Þórdís Sigurðardóttir

 

Brimbrjótur hið innra

Þessi reynsla gerði það að verkum að Þórdís breytti um starfsvettvang. „Þetta varð til þess að ég fór að gera allt aðra hluti. Hluti af þessu var að mig langaði til að reyna að vinna úr þessari reynslu á uppbyggilegan hátt. Ég fór í heilsumarkþjálfun í skóla í New York með það að markmiði að ég gæti hugsað sem best um mig sjálfa og fjölskylduna mína. Ég fór líka í jógakennaranám sem hefur gefið mér mikinn andlegan og líkamlegan styrk. Við hjónin elskum að vera úti í náttúrunni og þar fæ ég mína tengingu til að mæta lífinu.

Það er í mér einhver brimbrjótur

Ég ætlaði mér ekkert endilega að fara út í atvinnulífið af fullum krafti á ný, en það er alltaf eitthvað þar sem heillar mig og líklega þörf fyrir að koma að breytingum og hafa áhrif til góðs. Það er í mér einhver brimbrjótur. Ég brenn fyrir umbreytingaverkefnum og því að fá nýtt sjónarhorn á það sem við tökum sem gefnu alla jafna. Það eru þeir kraftar sem drífa mig áfram í dag.

Í dag höfum við hjónin unnið með fyrirtækjum í innleiðingu stefnumótunar sem er helsta áskorun fyrirtækja og stofnana. Það eru til stefnur um allt, en minna um að þær raungerist. Þarna er ég á heimavelli.“

 

Gæfan birtist í ólíklegustu myndum

Þórdís segir að gæfan birtist fólki í ýmsum og jafnvel ólíklegustu myndum og oft sé erfitt að átta sig á því að mikill sársauki geti orðið til góðs síðar. „Þetta minnir mig á hvað það er mikilvægt að nálgast það sem fyrir augu ber í lífinu af auðmýkt, forvitni og gagnrýni og þannig vil ég mæta lífinu. Við þurfum að vera opin fyrir því að skilja atburði og fólk á fleiri vegu en aðeins út frá sjálfum okkur.“

Hún líti á stærstu áskoranirnar í lífinu sem gjöf þar sem einmitt þær hafi gert hana að því sem hún er í dag.

Þú getur bara ímyndað þér hvað ég er miklu betur undirbúin að fara í þetta verkefni að bjóða mig fram núna með alla þessa reynslu í farteskinu

„Það eru aðrir hlutir í lífinu sem eru svo miklu erfiðari, en ég hef sem betur fer ekki þurft að takast á við slíkt þannig að það ber að líta á svona verkefni sem gjöf og tækifæri. Þá er ég samt ekki að segja að maður biðji um það, en svona verkefni koma til manns og þá er það tækifæri til að vaxa og læra af. Þú getur bara ímyndað þér hvað ég er miklu betur undirbúin að fara í þetta verkefni að bjóða mig fram núna með alla þessa reynslu í farteskinu. Eins og ég sagði þá þekki ég sjálfa mig betur, ég er búin að vinna úr verkefninu sem ég fékk í hendurnar og þá leysir maður það sem bíður manns á miklu farsælli hátt en ella.“

 

Með flugvöllinn við stofugluggann

Þótt Þórdís segi æskustöðvar sínar í Stykkishólmi skipa stóran sess í hjarta hennar hafi hún fyrir löngu áttað sig á því að hún sé Reykvíkingur. Hún hafi notið þess að fylgjast með breytingum borgarinnar frá því að hún kynntist henni fyrst almennilega, þótt ekki hafi hún verið sammála öllum ákvörðunum. Margar mikilvægar áskoranir séu fram undan, þær birtist henni meðal annars vel þegar hún horfi út um stofuglugga heimilisins en þar blasir við Öskjuhlíðin, Háskólinn í Reykjavík og svo flugvöllurinn með öllum þeim áskorunum sem uppbyggingu á svæðinu fylgir. Eins sé mikilvægt að huga að því að færa aftur líf og þjónustu inn í fjölda nýrri og eldri hverfa. Góð heild sé mynduð úr fjölda atriða, ólík en lífleg hverfi myndi svo góða og heilsteypta borg.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -