„Við erum fjórar systur og mamma og pabbi hafa verið saman í yfir 30 ár. Ég átti góða æsku, engin veikindi eða óregla,“ segir hún en bætir við litla systir hennar hafi átt við erfiðleika að stríða.
Þórey Aðalsteinsdóttir er 27 ára og ólst upp í Reykjavík. Hún hefur lifað lífi sem margir geta eflaust ekki ímyndað sér að sé raunveruleiki íslenskra ungmenna. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.
„Hún tók köst heima sem ég mátti ekki svara, ég átti bara að fara úr aðstæðum og láta fara lítið fyrir mér sem krakki.“
Byrjaði að drekka 12 ára
Þórey var reiður unglingur og leitaði í félagsskap í næstu hverfum í kring því þar voru krakkar sem drukku áfengi.
„Ég byrjaði að drekka hverja helgi tólf ára gömul. Ég varð mjög erfið og var hótað með Stuðlum, fóstri og öðru en var fljót að sjá að það voru innantómar hótanir.“
Aðeins 15 ára gömul keppti Þórey í fitness en á þeim tíma var það leyft. Þjálfarinn hennar setti hana á stera svo hún myndi ná betri árangri en á þeim tíma fór hún að þróa með sér átröskun.
„Ég var orðin rosalega grönn og eina sem mömmu datt í hug að spyrja var hvort ég væri að kasta upp, hún hafði ekki meiri þekkingu á þessu. Ég brást alltaf mjög hneyksluð við bara, ég tók allt út á foreldrum mínum.“
Tíminn leið, Þórey flosnaði upp úr námi og var komin í daglega neyslu þegar foreldrar hennar settu henni úrslitakosti; fara út af heimilinu ef hún færi ekki í meðferð og tæki líf sitt í gegn.
„Ég keypti einn miða til Englands og ætlaði aldeilis að sýna pabba að ég gæti þetta,“ segir Þórey.
Allt sem var bannað var spennandi
Nokkrum árum síðar, rétt um tvítugt, var allt sem var bannað ennþá spennandi.
„Ég set mig í samband við strák sem var að losna úr fangelsi í útlöndum, hann kemur eiginlega bara frá flugvellinum og til mín, þetta fannst mér rosalega spennandi og eitthvað mjög heillandi við hans persónuleika. Hann kom edrú heim úr fangelsinu og ég laug að honum að ég væri edrú, ég var hvort sem er að ljúga að öllum,“ segir hún um byrjun sambandsins sem átti þó fljótt eftir að breytast í hennar verstu martröð.
„Ég sagði honum eftir einhvern tíma að ég væri að nota, hann fékk mig til að hætta og á þessum tímapunkti varð ég edrú með honum en án alls jafningjastuðnings því hann var á móti AA, ég sé það í dag að það gengur ekki fyrir mig, við duttum í það saman eftir stuttan og erfiðan edrútíma.“
Það tekur á Þóreyju að segja frá ofbeldinu sem hún þurfti að þola í sambandinu með þessum manni.
„Ég var ekki bara fangi efnanna heldur líka fangi þessa sambands.“
Missti bestu vinkonu sína
Í dag hefur Þórey verið án allra vímuefna í tæp fjögur ár og aldrei liðið betur. Hún þurfti að læra að lifa án þess að flýja tilfinningar sínar og segir frá því að hafa misst bestu vinkonu sína árið 2019 en aldrei hafi sú hugsun komið upp að deyfa sig með vímuefnum.
Það sem reynst hefur erfiðast í sjálfsvinnu Þóreyjar er kynferðisofbeldið í sambandinu með manninum og hversu brotin hún var eftir það.
„Ég var orðin svo hrædd við hann og endaði í geðrofi, efnin löngu búin að svíkja mig og líkaminn að gefa sig,“ segir hún og bætir því við að hún hafi endað sína neyslusögu á því að hringja á lögregluna sem bjargaði henni í raun úr þessum aðstæðum.
Vaknaði upp á geðdeild
Þórey segir frá erfiðri viku á geðdeild og hvernig tilfinning það var að vakna til lífsins og átta sig á því hvert hún væri komin.
„Það sem bjargaði mér frá því að fara enn einu sinni til baka til ofbeldismanns míns var að labba inn heima til að sækja dót og koma að honum með annarri konu uppi í rúmi. Ég var sem betur fer með frænku mína með mér. Eftir þetta fór ég á Hlaðgerðarkot í meðferð og hef verið edrú síðan.“
Þórey hellti sér í sjálfsvinnu, AA-samfélagið og þá aðallega kvennasamfélagið.
„Þetta er vinna sem heldur áfram og hef ég verið dugleg að sækja mér alla þá aðstoð sem ég þarf og mun sú vinna halda áfram.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni HÉR.