Goslokahátíðin í Eyjum stendur nú yfir og segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sem er staddur á hátíðinni, að hann fái ekki betur séð en viðstaddir reyni eftir bestu getu að framfylgja sóttvarnareglum.
Goslokahátíðin, bæjarhátíð í Vestmannaeyjum, þar sem endalokum eldgossins á Heimaey 1973 er fagnað, stendur nú yfir. Hátíðin er alltaf haldin fyrstu helgina í júlí og þótt hún sé með breyttu sniði í ár sökum COVID-19 hefur venju samkvæmt verið líf og fjör í Vestmannaeyjum, eins og meðal annars má sjá af ljósmyndum sem hafa verið að birtast á samfélagsmyndum um helgina. Einn þeirra sem hefur verið viðstaddur hátíðarhöldin er Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, sem kveðst ekki sjá betur en að hátíðin hafi farið vel fram.
Nú gáfu skipuleggjendur hátíðarinnar út þá yfilýsingu, að allir þeir viðburðir sem fara fram uppfylla öll skilyrði tengd sóttvörnum og fjöldatakmörkunum. Hvernig hefur tekist til að þínu mati? „Mér sýnist fólk almennt vera að passa sig í náinni umgengni og handspritt er á flestum stöðum,“ segir Þórólfur. „Maður sér reyndar að það sjatnar aðeins því hér, eins og annars staðar, þegar fólk fær í glas. Annars er ég ekki hér til að taka hlutina sérstaklega út en ég fæ ekki betur séð en að almennt sé reynt að fylgja reglum þar sem ég hef verið. Annars hef ég ekki verið lengi þar sem margir koma saman, hef þá verið fljótur að láta mig hverfa. Ég hef einnig forðast að heilsa með handabandi eða faðma fólk, jafnvel þá sem standa mér nærri og eru mér kærir.“
Þórólfur segist reyndar hafa samþykkt að vera með á mynd sem var tekin í gærkvöldi, meðal annars með tónlistarmanninum Eyjólfi Kristjánssyni, sem vakti athygli á samfélagsmiðlum en þá farið varlega. „Ég var beðinn um að vera með á mynd og ég samþykkti það, enda var fólk þarna að spritta sig og svo tók nú bara einhverjar fimmtán sekúndur. Þetta tók þar af leiðandi mjög fljótt af, þannig að ég tel nú ekki mikla smithættu í þessu,“ segir Þórólfur góðlátlega.
Hann segir tveggja metra regluna vera valkvæða en brýnir hins vegar fyrir fólki að forðast snertinu. „Það sem við höfum bent á er að fólk sé ekki að heilsast og faðmast og að það sé ekki þétt innan um fólk sem það þekkir ekki eða þekki lítið og hugi vel að sóttvörnum,“ minnir hann á.
En hvað er Þórólfur að gera í Eyjum? Er það Gosalokahátíðin sem dregur hann til Eyja eða á hann kannski ættir að rekja þangað? „Ég tengist Eyjum. Flutti ásamt foreldrum mínum þegar ég var níu ára og svo á konan ættingja hér, við erum bara að heimsækja þá,“ segir hann glaðlega.