„Ég hef nú gefið það út að ég sjái enga ástæðu til þess að vera að fara til útlanda. Ég held að það að fara til útlanda, sérstaklega ef fólk er óbólusett, sé ekki sniðugt. Með börn til dæmis, óbólusettir geta smitast og við höfum séð það að fólk er að koma jafnvel bólusett með veiruna og veikjast, enn þá. Mér finnst ég ekki eiga neitt erindi til útlanda. Ísland hefur svo margt upp á að bjóða þannig að það er engum vorkunn að vera hér. Það er lúxus hér miðað við á mörgum öðrum stöðum. Ég veit ekki hvað maður hefur að sækja á mörgum stöðum þar sem er meira og minna lokað – ekki nema kannski til að rétt komast í sól en það er nú sól fyrir austan,“ segir Þórólfur í viðtali við Fréttablaðið í dag.
„Ég hef nú fram að þessu verið í líkamsrækt og öðru slíku þó að það sjáist kannski ekki á mér.“
Hann segist hafa sett allt á hakann síðan kórónuveiran fór að gera vart við sig, allur hans tími síðan hafi farið í baráttuna við hana.
„Ég hef nú fram að þessu verið í líkamsrækt og öðru slíku þó að það sjáist kannski ekki á mér. Einnig hef ég verið að gutla í músík en þetta hefur þó rækilega dottið niður í Covid. Ég hef sáralítið getað sinnt þessu, sem er ekki gott. Það hefur nánast allur tími farið í Covid, allir dagar. Það er kannski fyrst núna sem maður er aðeins farinn að líta upp úr þessu. Fram að þessu hafa allir dagar farið í þetta, virkir og helgir dagar. Það er bara þannig. Ég hef lítið getað hugsað um annað,“ segir Þórólfur.
Segir hann fjölskyldu sína hafa staðið þétt við bakið á sér, en Þórólfur er giftur Söru Hafsteinsdóttur fyrrverandi yfirsjúkraþjálfara á Landspítalanum og saman eiga þau tvo syni. Segir hann baráttuna við veiruna hafa verið í algjörum forgangi.
„Þetta kemur niður á fjölskyldulífi. Það er bara það sama og almenningur hefur þurft að gera líka, það hafa verið takmarkanir, fólk hefur ekki náð að hittast og þvíumlíkt. Þetta á við fleiri en það er auðvitað hárrétt að það er frumskilyrði til að maður haldi þetta út að maður hafi góðan bakhjarl heima fyrir,“ segir Þórólfur.
Erfitt að segja til um framhaldið
Nú gengur vel að bólusetja þjóðina og fá smit verið að greinast í samfélaginu og hefur álagið minnkað samhliða því á Þórólfi og starfsfólki embættisins. Erfitt er þó að segja til um hvert framhaldið verður.
„Ég hef á tilfinningunni að við séum í smá biðstöðu, smá logni – hvort það er svikalogn veit ég ekki. Ég vona bara að lognið muni endast okkur, það er að segja að þetta ónæmi sem við höfum náð upp með bólusetningunum verði viðvarandi,“ segir Þórólfur.
Þrátt fyrir að engar samkomutakmarkanir séu lengur í gildi segir Þórólfur mikilvægt að fylgjast með landamærunum. Til að ná algjörum tökum á faraldrinum innanlands sé nauðsynlegt að ná tökum á landamærunum því þaðan komi smitin.
„Við vitum að það er fólk sem er að koma frá útlöndum, er fullbólusett en er að bera með sér smit. Þetta eru fáir einstaklingar en þeir geta smitað sitt nærumhverfi. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi útbreidda bólusetning núna muni koma í veg fyrir að við fáum stórar hópsýkingar,“ segir hann.
Aldrei séð eftir námsvalinu
Þórólfur sem byrjaði í barnalækningum, segir að fljótlega hafi smitsjúkdómar farið að vekja áhuga hans. Hann segir enga aðgerð í læknisfræði hafa bjargað jafn mörgum og bólusetningar hafa gert. „Það er kannski hreint vatn sem jafnast á við árangur bólusetninga. Mér fannst þetta gríðarlega áhugavert og hélt áfram þeirri vinnu þegar ég kom heim, að vinna með bólusetningar hér og ný bóluefni. Mér fannst það mjög áhugavert og hef aldrei séð eftir því,“ segir hann.
Þórólfur segist hafa beðið eftir faraldri sem þessum sem nú hefur geisað lengi. „Maður vissi að það kæmi upp stór faraldur, annaðhvort myndi hann koma þegar maður var sjálfur að vinna eða þá einhvern tíma seinna. Þetta á eftir að koma aftur. Það er bara tímaspursmál.“
Hógvær
Samstarf sóttvarnayfirvalda og stjórnvalda segir Þórólfur hafa gengið mjög vel og þykir honum mikið lán fyrir fólk á Íslandi að hafa þessa stjórnmálamenn að stýra þessum málum. „Þau gerðu sér fljótt grein fyrir því út á hvað þetta gekk og hvaða aðgerðum best væri að beita. Það var þeirra meðvitaða ákvörðun að hafa þetta svona og ég held að það hafi gengið ágætlega.“
Sjálfur er hann hógvær og segir sig vera samnefnara fjölda fólks sem starfi hjá Embætti landlæknis, almannavörnum og víðar. Hann segir samstarfsfólk sitt hafi unnið mikið þrekvirki sem ekki hafi farið hátt. „Ég, Alma og Víðir höfum verið samnefnari fyrir þá vinnu. Auðvitað er það mikilvægt að fólk treysti þeim sem eru að segja þeim fréttirnar og koma með skilaboðin. Við höfum notið góðs af því að fólk virðist upp til hópa treysta okkur. Það hefur verið jákvætt.“