Mögulega gæti það tekið um einn og hálfan til tvo mánuði að ná upp hjarðónæmi hér á Íslandi, miðað við forsendur um að 80% þjóðarinnar þurfi að smitast af Covid-19 til að ná hjarðónæmi.
Svo mælti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna.
Mögulegt hjarðónæmi miðast við að fjöldi daglegra smita verði svipaður og verið hefur; sagði Þórólfur að miðað við þessar forsendur sé líklega ekki langt í land að faraldrinum fari að fatast flugið.
Hann sagðist vongóður um að betri tímar séu fram undan, en mikilvægt að halda vel á spilunum varðandi afléttingar og að ekki skuli farið of hratt í þær; frekar í nokkrum skrefum, annars sé hætta á bakslagi.
Þórólfur hvatti fólk með einkenni að fara í sýnatöku og sagði líka fáa þurfa að leggjast inn á gjörgæslu vegna Covid 19.
Í dag er staðan sú að rúmlega 90% sem eru að greinast eru smituð af Ómíkron.
Þórólfur vakti athygli á að uppgjör Landspítalans hafi sýnt að alvarlegum veikindum hefur fækkað með tilkomu Ómíkon-afbrigðisins og að það hafi komið í ljós að örvunarbólusetning dregur mjög úr alvarleika Covid-19.