„Hann smitast við kynlíf á milli fólks af öllum kynjum. Það vill svo til að þetta hefur aðallega greinst hjá karlmönnum núna og uppsprettan eru ákveðnir staðir í Evrópu þar sem kynlíf er frjálslegt,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, um apabóluna í kvöldfréttum stöðvar tvö í gær.
Tveir menn hafa greinst með apabóluna hér á landi en er annar þeirra nýkominn frá Evrópu. Hvorugur mannana er alvarlega veikur en liggur fyrir að tengsl er á milli mannana sem báðir eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þórólfur segir brýnt að fólk sé vakandi fyrir einkennum og sleppi því að stunda kynlíf með ókunnugum. „Ef fólk fer að fá bólur og blöðrur á húð, sérstaklega á kynfærin eða kynfærasvæðin að leita fljótt til heilbrigðisþjónustunnar, húð og kynsjúkdómadeildar Landspítala eða göngudeildar smitsjúkdóma og fá greiningu eins fljótt og hægt er.“
Apabólan hefur fram til þessa verið að greinast í tví- og samkynhneigðum mönnum. Samtök hinsegin fólks hafa áhyggjur af auknum fordómum í garð samkynhneigðra en Þórólfur segir sjúkdóminn ekki bundinn við kynhneigð. Sjúkdómurinn er ekki talinn bráðsmitandi og smitast hann helst við kynmök. Þá geti hann einnig smitast með dropum frá öndunarvegi, handklæðum og rúmfatnaði. Að lokum segir Þórólfur líklegt að fleiri tilfelli greinist á næstu dögum en hversu mörg sé erfitt að segja til um. „Það fer eftir því hvernig fólk hegðar sér og hvernig okkur tekst að hemja útbreiðsluna.“