Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir var í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag þar sem hann er spurður út í gagnrýni Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar Erfðagreiningar á þríeykinu og takmörkunum sem nú eru í gildi vegna Covid-19 faraldursins.
„Kári er í jötunmóð og hefur sveiflað sverðinu til hægri og vinstri og meðal annars beint því að fóstbróður sínum í covid að þessu sinni. Hann er með hugmyndir um miklu meiri tilslakanir, eða töluvert meiri, en við erum með og hann hefur yfirleitt verið á hinni línunni. Þetta er bara ágætis innlegg í umræðuna en hins vegar er margt sem þarna kemur fram. Eins og til dæmis að við séum óskýr og höfum ekki trú á því sem við erum að gera núna. Ég skil ekki alveg hvað er meint með því,“ segir Þórólfur og virðist nokkuð sár, um ummæli Kára sem vill nú afnema allar takmarkanir. Ennfremur segir Þórólfur „ég fellst ekki á það og við reyndum það um mánaðarmótin júní/júlí með afleiðingum sem mér finnst margir vera búnir að gleyma. Faraldurinn fór á flug og um 2,5 prósent af þeim sem hafa smitast hafa þurft að leggjast inn á spítala. Hundrað manns hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús og ef við fáum meiri útbreiðslu í faraldrinum heldur en þetta fáum við bara enn þá fleiri inn á spítala.“
Þá þvertekur Þórólfur fyrir það að þríeykið sé að eyðileggja listalífið á Íslandi og segir þau ummæli Kára koma sér mjög á óvart, „ég skil ekki þá ásökun og við höfum verið í samráði við forsvarsmenn sviðslista um þessar tilslakanir sem eru í gangi núna. Ég vísa því nú til föðurhúsanna að við séum að eyðileggja listalíf í landinu.“