Þjóðin beið með öndina í hálsinum í gær eftir fréttum af þriggja klukkustunda löngum fundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum.
Eftir fundinn voru niðurstöður kynntar – gilda þær í þrjár vikur og taka gildi á miðnætti. Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sagði eftir fundinn að minnisblað sóttvarnarlæknis hefði verið samþykkt í megin dráttum. Einungis er tæpur mánuður frá því að öllu var aflétt hér á landi.
Niðurstöðurnar voru þessar:
Samkomutakmarkanir verða settar á og mega nú einungis 200 manns koma saman; fjarlægðartakmörk verða einn metri. Opnunartími skemmtistaða verður styttur til 23 og síðasti maður út á miðnætti. Fjöldatakmarkanir í sund og líkamsrækt 75 prósent af leyfilegum fjölda í sundi og líkamsrækt.
Svandís sagði að það þyrfti að leggja meira fjármagn í heilbrigðiskerfið til þess að styrkja það og nefndi einnig að á þessum maraþon-fundi hefði verið skipst á skoðunum innan ríkisstjórnarinnar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir lagði til að fjarlægðartakmörk yrðu tveir metrar í sumum tilfellum en ríkisstjórnin ákvað að einfaldara væri að hafa það bara einn metra. Ekki virðist hafa verið hlustað á Þórólf í þeim efnum að minnsta kosti, en hann segir að „kúrvan“ hvað varðar nýju Covid-bylgjuna sé áfram á uppleið; í veldisvexti og hann telur að núna muni nýja bylgjan stefna mun hærra ef fram heldur sem horfir.
Þórólfur vill minna fólk á að topparnir á fyrstu bylgjunni og þriðju bylgjunni fóru hæst upp í yfir hundrað og segir Þórólfur að því miður gætum við hér á landi toppað það auðveldlega á næstunni.
Í dag er staðan sú að 60 til 70 prósent af þeim sem eru að greinast eru fullbólusettir.
Ljóst er að staðan er mjög alvarleg því í gær greindust 95 kórónuveirusmit innanlands; 75 utan sóttkvíar.
Mikið hefur verið rætt um þau áhrif sem afléttingin fyrr í júlí hafi haft; flestir eru sammála um að afléttingin hafi haft afar slæm áhrif þó tímabundið hafi hún létt lund þjóðarinnar mikið.
Þórólfur nefnir að útbreiðslan á ákveðnum stöðum – til að mynda á skemmtistöðum – þar sem fólk hópast saman í stórum stíl og sé í mikilli nánd og passi sig ekki og sé mismunandi vel áttað – hafi haft þau áhrif að veiruútbreiðslan hafi á skömmum tíma farið inn í fjölskyldur; vinahópa og fyrirtæki.
Undanfarið hafa um eitt prósent þeirra sem sýkst hafa af kórónuveirunni þurft á spítalainnlögn að halda en hlutfallið var um 5 prósent áður. Þórólfur segir að mögulega megi þakka bólusetningunni fyrir að fleiri hafi ekki þurft að leggjast inn sem stendur.
Hann nefnir að hjúkrunarheimilin séu búin að efla varnir og séu búin að auka við varúðarráðstafanir.
Einnig að fólk sé núna úti um allt þannig að þetta sé töluvert erfiðara en áður og
smitrakningarteymið sé töluvert á eftir, þannig að ástandið nú sé orðið mjög snúið fyrir alla viðbragðsaðila.
Þórólfur er alveg klár á því að það væri miklu meiri og hraðari útbreiðsla veirunnar ef bólusetningarhlutfallið hér á landi væri ekki svona hátt miðað við mörg önnur lönd í heiminum. Hann ljáir einnig máls á því að hann hefði viljað fá samþykktar miklu strangari
tillögur heldur en liggja fyrir núna.
Bólusetningin er um 90 prósent virk í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi; en 50 til 60 prósent í að koma alveg í veg fyrir smit og að það séu margir sem eru vel varðir.
Ljóst er að hertar takmarkanir sem taka gildi á miðnætti hefðu orðið mun harðari ef Þórólfur hefði fengið allar sínar tillögur úr minnisblaði sínu til ríkisstjórnarinnar samþykktar.