Sóttvarnalæknir svarar gagnrýni umsjónalæknis göngudeildar COVID-19 á Landspítalanum og segir rangt að það sé ekki í verkahring spítalans að skima við landamæri.
„Því í leyfisveitingu rannsóknarstofu Landspítalans í sýkla- og veirufræði frá 2010 er kveðið sérstaklega á um að þessar rannsóknarstofur hafi hlutverki að gegna í sóttvörnum fyrir landið allt,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna fyrir skemmstu.
Benti hann ennfremur á að í vinnslusamningi sóttvarnalæknis og spítalans frá árinu 2015 sé sérstaklega kveðið á um að rannsóknarstofum á Landspítala „beri að stunda skimun fyrir smitsjúkdómum sem hafi þýðingu fyrir almannaheill samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis“.
Þá sagði Þórólfur að sagt hafi verið um að milljarða kostnaður falli á spítalann vegna skimana. Sú tala sé fjarri lagi. „Kostnaðurinn sem fellur á Landspítala felst aðallega í því að uppfæra búnað veirufræðideildarinnar sem þörf hefur verið á að gera í nokkurn tíma.“
Vísaði Þórólfur þar með á bug gagnrýni Ragnars Freys Ingvarssonar, umsjónarlæknis á göngudeild COVID-19 á Landspítalanum, sem hefur staðhæft að Landspítalinn verji milljörðum í skimanir á landamærum sem sé sóun á almannafé. Spítalinn eigi ekki að skima fríska ferðamenn við landamærinn heldur sinna veiku fólki.