„Það gefur á bátinn en maður er vanur því úti á sjó,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, þegar Mannlíf ræddi við hann um neikvæða umræðu samfélagsins gagnvart fyrirtækinu.
Þorsteinn og aðrir forsvarsmenn Samherja eru sakaðir eru um mútur og fleiri alvarlega spillingarglæpi, í Namibíu og víðar. Sjávarútvegsfyrirtækið vann sigur gegn fréttamanninum Helga Seljan í gegnum umdeildan úrskurð siðanefndar RÚV og fór í kjölfarið fram á að Helgi yrði rekinn. Sjálfur er fréttamaðurinn slakur yfir úrskurðinum.
Síðustu daga hefur Samherji fengið yfir sig öldu hrakyrða víða í samfélaginu sem hófst á gagnrýni Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á hendur fyrirtækinu. Bubbi Morthens tónlistamaður steig svo fram í harðorðri samfélagsmiðlafærslu og fetaði í fótspor þess fjölda sem sýnt hefur Helga Seljan stuðning í Samherjamálinu.
Bubbi segir árásir Samherja fordæmalausar og bendir einnig á að sjónvarpsþáttagerð Samherja, sem fréttamaðurinn fyrrverandi, Þorbjörn Þórðarsson, hefur haldið utan um, sem séu til þess eins gerðir að taka Helga niður Efnið sé ískaldur áróður þar sem hamast sé á Helga hvergi til sparað.
Samherji á því undir högg að sækja þessa dagana og hefur verið sótt að því úr mörgum ólíkum áttum. Aðspurður hvort það sé ekki sárt að upplifa hina neikvæðu umræðu um Samherja í ljósi þeirrar sögu að fyrirtækið var byggt upp af dugnaði á sínum tíma segir Þorsteinn Már:
„Við erum öll mannleg og mér líkar ekkert vel við það. Það er ekkert þannig. En núna gefur á og við vinnum okkur út úr því.“