Þorsteinn Eggertsson hefur samið margan þekktan lagatextann. Í viðtali við Mannlífið með Reyni Traustasyni talar hann meðal annars um upphaf ferilsins sem hófst í Héraðsskólanum á Laugavatni, tímann þegar hann var Elvis Preysley Íslands, prakkarastrikin tengd bréfaskriftum, poppmessunni þegar hann hitti fínu frúna og hann segir hvað er á bak við nokkra þekkta lagatexta.
Þorsteinn Eggertsson textahöfundur er Keflvíkingur.
„Ég fór í Héraðsskólann á Laugavatni, heimavistarskóla, og það var æviskeið út af fyrir sig. Þá var ég í bekk með Ingimar Eydal og einhvern tímann datt honum í hug að halda skólaball uppi í stofunni okkar í landsprófinu og við gerðum það. Þar var orgel og hann spilaði á orgelið og ég söng.“
Hafðir þú ekkert sungið áður nema kannski í baði?
„Ég hafði sungið með vinum og kunningjum og svo var þarna í Keflavík þessi útvarpsstöð sem allir hlustuðu á fyrir sunnan, Kanaútvarpið, þannig að maður þekkti öll þessi lög en kunni ekki alveg textann af því að það voru margir sem voru svolítið óskýrmæltir. Little Richard og Elvis Presley voru sérstaklega óskýrmæltir þannig að maður heyrði ekki alveg textana. Þannig að ég þurfti að búa til mína eigin af því að ég kunni ekki við að syngja þetta eins og páfagaukur eins og margir gerðu reyndar á þessum tíma.“
Manstu hvaða lag þú söngst með Ingimar?
„Þetta var lag sem heitir Calypso Rock. Þetta var tegund af músík sem var að koma upp á þessum tíma,“ segir Þorsteinn og minnist þarna á Harry Belafonte. „Þetta var vinsælt tímabil í nokkra mánuði. En rokkið hefur alltaf verið að breytast. Alltaf. Endalaust.“
Mér fannst hann vera dálítið villtur og galinn og hann höfðaði til mín.
Þorsteinn söng í skólastofunni meðal annars líka lag sem Litthe Richard hafði sungið „af því að mér fannst hann vera dálítið villtur og galinn og hann höfðaði til mín. Þetta var náttúrlega algerlega ný músík fyrir okkur Íslendinga á þessum tíma. Þetta var 1957/1958 og haustið 1957 var þetta nýkomið til landsins þannig að þetta var sprenging út af fyrir sig.
Laugavatn var menntastaður þar sem var héraðsskóli, kvennaskóli, íþróttaskóli og menntaskóli og aðra hverja helgi eftir að við byrjuðum að halda böll þarna í héraðsskólanum þá fórum við að halda böll í menntaskólanum. Og það bættust við tveir hljóðfæraleikarar þannig að þá voru alvöru böll enda stærri salur til að syngja og spila í.“
Þá var þetta orðið band.
„Þá var þetta orðið band.“
Elvis Presley Íslands
18 ára gamall sóttist Þorsteinn eftir að gerast söngvari hjá KK sextett. Það var árið 1960.
Ég bara einbeitti mér að því að vera Elvis Presley Íslands.
„KK sextett auglýsti eftir ungum söngvurum og ég tók þátt í þessu. Það voru valdir 10, haldnir nokkrir tónleikar með þessum 10 og það endaði með því að ég vann þetta og gerðist atvinnusöngvari með KK. Haukur Morthens skrifaði um tónleika sem við héldum í Austurbæjarbíói og það var hann sem kallaði mig íslenskan Elvis Presley. Ég var hrifnari af Little Richard en honum fannst ég vera eitthvað líkur Elvis Presley. Ég var með hreyfingar út um allt svið sem var óvenjulegt á þeim tíma vegna þess að þá stóð fólk fyrir aftan míkrófón með aðra hendina í vasanum og hélt á míkrófóninum með hinni. En þetta festist við mig og þegar ég fór að syngja með KK sextett sumarið 1960 þá bað umboðsmaðurinn minn, Pétur Guðjónsson, Pétur rakari, mig um að stúdera Elvis. Það var verið að sýna mynd með honum í Tjarnarbíói, King Creole, sem ég fékk að sjá nokkrum sinnum og ég bara einbeitti mér að því að vera Elvis Presley Íslands.“
Það gekk upp.
„Það gekk upp. Enda tók fólk mark á því sem Haukur Morthens sagði á þessum tíma.
Ég man þegar maður fór niður í bæ með Hauki Morthens. Fólk var rosalega upp með sér af því að fá að tala við hann þótt ekki væri nema tvær þrjár setningar. Hann var bara stjarna.“
Þorsteinn söng með Ellý Vilhjálms.
„Hún var náttúrlega drottningin. Alger.“
Hvernig fór á með ykkur?
„Það var svolítið merkilegt að syngja með Ellý Vilhjálms vegna þess að hún reyndi að vera eins venjuleg og hægt var. Það voru engir stjörnustælar eða neitt. Hún var bara stelpa sem mætti þarna til að syngja. Hún kom með kjólana sína; hún var með tvo þrjá kjóla og skipti um í pásum þannig að hún vildi líta vel út. En að hún væri með einhverja stjörnustæla var af og frá.“
Löngu á undan Bítlunum
Þorsteinn bjó í Reykjavík á því tímabili sem hann söng með KK, sem var um hálft ár, og svo flutti hann aftur í heimabæinn.
„Ég fór reyndar um sumarið norður á Siglufjörð og þar var hljómsveit úr Keflavík sem var búin að vera þar dálítinn tíma og ég fór að syngja með þeirri hljómsveit, hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar. Svo þegar ég fór aftur til Keflavíkur eftir sumarið stofnaði ég hljómsveit sem hét Beatniks. Það var haustið 1961. Það er svolítið gaman að segja frá því að Beatniks er kynslóð amerískra bóhema; þetta eru strákar sem kynntust þessu í Evrópu, þessu hálfgerða listamannalífi, þessu bóhemlífi, þar sem fólk notar sitt eigið tungumál og svo framvegis og svo tveimur árum seinna fréttum við af hljómsveit frá Liverpool sem hét svipuðu nafni. Hún hét The Beatles. En svipuð hugsun.“
Þið voruð á undan Bítlunum.
„Við vorum löngu á undan Bítlunum.“
Meira að segja á laugardögum vorum við með það sem kallast restrasjónir.
Hvernig gekk Beatniks?
„Það gekk bara rosalega vel. Við vorum alltaf allar helgar, föstudaga og laugardaga, á veitingastað í Keflavík sem hét Víkin; við spiluðum á Víkinni og fengum stundum að spila í Hafnarfirði og Reykjavík á skólaböllum. Meira að segja á laugardögum vorum við með það sem kallast restrasjónir; það væri kannski hægt að kalla þetta unglingaböll. Þau voru á milli þrjú og fimm og þá keypti maður sig inn, fékk miða og út á miðann gat maður keypt gosdrykk, te eða kaffi.“
Þorsteinn segist ekkert hafa verið farinn að semja texta á þessum tíma.
„Svo fór ég til Danmerkur og var þar í tvö til þrjú ár að læra það sem er kallað myndskreytingar. Sá sem vinnur við þetta er aðallega að myndskreyta bækur teikna frímerki, peningaseðla og svo framvegis. Þegar ég kom heim fór ég að vinna á auglýsingastofu. Þar var strákur frá Keflavík, gamall leikfélagi minn og kunningi, Þórir Baldursson. Við unnum þarna báðir sem teiknarar. Hann vissi að ég hafði verið að búa til einhverjar bullvísur. Hann var með Savanna-tríóinu og bað mig um að gera texta fyrir sig. Og ég gerði það. Mér fannst þetta dálítið merkilegt. Svo auglýsti hann og kunningi okkar eftir nokkrum strákum í hljómsveit, völdu þá bestu úr og úr varð hljómsveit sem hét Dátar.“
Gvendur á eyrinni
Þórir samdi nokkur lög fyrir Dáta og Þorsteinn samdi texta. „Og það var bara ekkert aftur snúið eftir það.“
Fyrst var það lagið Leyndarmál.
„Og ári seinna kom Gvendur á eyrinni.“
Hann Gvendur á eyrinni var gamall skútukarl
Og gulan þorskinn dró.
Hann kaus heldur svitabað en kvennafar og svall.
Í koti einn hann bjó.
Og aldrei sást Gvendur gamli eyða nokkru fé
Og aldrei fékk hann frí:
Var daufur að skemmta sér og dansspor aldrei sté
En dvaldi koti sínu í.
Hver var Gvendur á eyrinni? Var það bara hugarburður?
Og þarna var rólegur maður að sópa götuna.
„Nei. Gvendur á eyrinni var til. Við í Dátum vorum einhvern tímann í partíi á Akureyri og löbbuðum niður í Hafnarstræti sem er í miðbæ Akureyrar af því að við þurftum að fara niður á hótel að gista. Við vorum búnir að drekka mismikið. Strákarnir sáu kall sem var að sópa götuna. Þetta hefur verið um fimm- sexleytið um morguninn. Og þarna var rólegur maður að sópa götuna. Þeir voru eitthvað að atast í honum og mér fannst það ekki alveg við hæfi þannig að ég fór að tala við manninn. Það kom í ljós að hann var að sópa göturnar áður en hann fór í vinnuna. Þetta var vinnualki.“
Þorsteinn segist hafa fengið að vita að maðurinn hafi verið á skútu þegar hann var strákur og að hann hafi verið að vinna í frystihúsi. „Og hann bara vann og vann og vann. Daginn eftir datt mér í hug að skrifa úttekt um það sem mér fannst um þennan mann. Og það var Gvendur á eyrinni.“
Gamall skútukarl.
„Já.“
Þetta er ein af sígildum perlum dægurlagasögunnar.
„Það kemur stundum fyrir að maður heyrir einhverja vitleysu á pötu þegar hún kemur út og það var ekkert hægt að breyta því. Og sá sem gaf plötuna út með Dátum, þetta var fjögurra laga plata, fannst textinn minn svolítið glannalegur þannig að hann lét breyta fyrstu línunum í textanum. Og hann komst upp með þetta útgefandinn sem við skulum ekkert nefna hver var. En allt í einu heyrði maður „Gvendur á eyrinni var gamall skútukarl og gulan þorskinn dró“. Ég hef aldrei samið texta um gulan þorsk. Það sem ég skrifaði var: „Gvendur á eyrinni var gamall skútukarl og gefinn fyrir puð. Hann kaus heldur svitabað en kvennafar og svall og kæruleysi og stuð.“ Þetta er líkara mér.“
Ég hef ekki gert mikið af því að semja svona sjómannatexta.
Þetta er svolítið skrýtið þegar þú nefnir það, „gulan þorskinn dró“. Þetta er ekki alveg Þorsteinn Eggertsson.
„Nei, ég hef ekki gert mikið af því að semja svona sjómannatexta.“
Þetta virkaði.
„Og þetta lag varð rosalega vinsælt.“
Glugginn
Jú, Þorsteinn Eggertsson samdi fleiri texta fyrir Dáta. „Ólafur Gaukur var beðinn um að semja tvo eða þrjá texta því að útgefandanum fannst margt af því sem ég var að skrifa fullglannalegt.“
Rúnar (Gunnarsson) var stórstjarna á þessum tíma.
„Já, hann byrjaði einmitt að semja lög þarna í fyrsta túrnum okkar. Hann var með gítarinn með sér og var að glamra á hann aftast í rútunni. Og þarna held ég að hann hafi byrjað að semja lög. Hann kannski byrjaði á hljómum í rútunni og fór svo upp á hótelherbergi og kláraði lagið þar. Hann gerði þarna nokkur flott lög. Við fórum að vinna saman.“
Þorsteinn segir að þeir hafi látið Hljóma fá eitt lagið. „Við völdum lélegasta lagið sem við áttum. Það heitir Peningar.“
Var það eftir Rúnar?
„Já, Rúnari fannst það ekki sérstakt. Þeir komu einhvern tímann, Gunnar Þórðarson og Engilbert Jensen, til að fá lag hjá okkur. Þá tók Rúnar mig afsíðis og sagði „látum þá fá Peninga“ af því að honum fannst það ekki vel heppnað lag. Svo um svipað leyti kom Karl Sighvatsson til okkar. Hann var í nýstofnaðri hljómsveit sem hét Flowers en hann hafði spilað smátíma með Dátum þannig að hann þekkti sum af þessum lögum. Og hann náttúrlega valdi besta lagið sem hann gat fengið og það var Glugginn sem við sömdum á Ísafirði. „Ég sit og gægist oft út um gluggann.“
Samdir þú það á Ísafirði?
„Já, við vorum að ferðast um landið þannig að við vorum að semja þessi lög hingað og þangað.“
Mér fannst þetta vera sérkennilegur og dálítið skemmtilega samsettur bær, Ísafjörður.
Hver er kveikjan að Glugganum?
„Við ferðuðumst í kringum landið og fengum svo pláss á herkastalanum á Ísafirði. Við vorum þar uppi á efstu eða næst efstu hæð. Og þegar maður situr þar við gluggann þá sér maður yfir þorpið og gamla fólkið sem situr þar á bekkjum. Mér fannst þetta vera sérkennilegur og dálítið skemmtilega samsettur bær, Ísafjörður, og var að fylgjast með mannlífinu út um gluggann á herkastalanum. Og þetta er það sem maður sér út um gluggann á herkastalanum á Ísafirði.“
Ég sit oft og gægist út um gluggann
að gamni mínu úti við skuggann
Þetta var eins og maður segir á ljótri íslensku „hittarar“. Peningar. Glugginn. Það bara virkaði allt.
Þorsteinn samdi líka Slappað af. Það þótti heldur betur gróft.
„Já, það er svolítið gróft.“
Slappaðu af,
vertu ekki stíf og stirð og þver.
Stundum þú gengur fram af mér.
Stundum ertu ferleg, bæði frek og kröfuhörð,
finnst mér stundum að þú sért illa‘ úr garði gjörð
eins og brjáluð hundstík í stórri kindahjörð,
eins og brjáluð hundstík í stórri kindahjörð.
Þegar textinn var tilbúinn þá var náttúrlega flaskan tóm.
„Ég byrjaði á stuðlum og höfuðstöfum og endarími og allt svoleiðis af því að það var gert ráð fyrir að maður kynni það. En af því að ég hafði stuttan tíma þá lét söngvarinn mig fá viskíflösku. Við vorum á diskóteki inn við Grensásveg. Jónas R. Hann fékk að nota þarna diskótek sem hét Las Vegas. Þetta var á miðvikudegi og allt lokað náttúrlega því það var áfengisbann á miðvikudögum á þeim tíma. Ég byrjaði náttúrlega á stuðlum og höfuðstöfum og endarími og allt svona. Svo var ég alltaf að fá mér smádreitil af viskíinu.“ Þorsteinn segir að þetta hafi tekið um hálfan dag. „Þegar textinn var tilbúinn þá var náttúrlega flaskan tóm.“
Jú, textinn þótti vera grófur. Var þetta ekki bannað einhvers staðar?
„Það átti að banna þetta. Það var haldin messa í Háteigskirkju 1970; bara nokkrum mánuðum eftir að þetta kom út. Svokölluð poppmessa. Hún var að því leyti ólík öðrum messum að þarna var enginn kórsöngur heldur var bara spiluð poppmúsík af hljómplötum og voru einhverjir strákar með gítar upp við altarið. Ég man að Slappaðu af var einmitt síðasta lagið í þessari messu þegar fólk var að labba út úr kirkjunni. Ég hitti þarna gamla konu, fína frú, sem var heldur betur hneyksluð á þessari messu. Hún sagði: „Svo þegar messan var búin þá var spiluð ein platan í viðbót og það sem glumdi í hausnum á mér á leiðinni út var „þú skalt reyna að halda kjafti og slappa svolítið af“. Og ég fer ekki aftur í þessa kirkju.“
Stelpa frá Blönduósi
Þorsteinn segir Dátar hafi farið tvisvar í kringum landið. „Ég hafði það hlutverk á þessum ferðalögum að skrifa bréf í óskalagaþátt unga fólksins, sem hét Lög unga fólksins, og þóttist vera stelpa á Blönduósi eða ástsjúkur strákur á Sauðárkróki eða eitthvað svona. Ég skrifaði fimm til sex bréf á dag og bílstjórinn fór allaf með þetta á pósthúsin þannig að í hverri viku voru send 20-30 bréf í þessa óskalagaþætti. Og þetta gerðum við til þess að verða vinsælli heldur en Hljómar. Það kom í ljós að það voru miklu fleiri bréf sem komu í þessa þætti þar sem var verið að biðja um Leyndarmál með Dátum heldur en nokkurn tímann einhver lög með Hljómum.“
Þú hafðir úr nokkrum að velja. Það voru Lög unga fólksins, Óskalög sjómanna og Óskalög sjúklinga. Og þú nýttir þér þetta.
„Ég nýtti mér aðallega Lög unga fólksins. Það var svo lítið af svona músík í útvarpinu á þessum tíma. Það var bara ein útvarpsstöð fyrir allt landið fyrir utan náttúrlega Keflavíkurútvarpið. Kanann. Ein útvarpsstöð fyrir allt landið og þar var lítið hugsað um þessa rokkmúsík og poppmúsík. Þetta voru aðallega klassísk verk. Þeir litu svolítið stórt á sig þeir sem stjórnuðu ferðinni þarna.“
Þarna var verið að senda ástarkveðjur, skilaboð og allt mögulegt.
Lög unga fólksins var á þriðjudagskvöldum.
Maður beið eftir þessu.
„Já, fólk beið eftir þessu. Það var setið við útvarpið því þarna var verið að senda ástarkveðjur, skilaboð og allt mögulegt. Þannig að fólk var kannski að búast við að fá kveðju í þáttunum. Þetta var það eina sem unglingar fengu að hlusta á. Jú, svo eftir dagskrá á laugardögum frá hálftólf til tólf var verið að spila svokölluð danslög. Þá voru nú flestir farnir að sofa.“
Heim í Búðardal
Þorsteinn segir að Gunnar Þórðarson hafi fengið sig til að semja texta fyrir Hljóma. Hann kenndi á þessum tíma teikningu við barnaskólann í Keflavík.
„Við unnum saman heillengi, við Gunnar. Hann var duglegur að semja og var dálítið kröfuharður. Ef hann var ekki að semja lagið sjálfur þá var valinn einhver amerískur eða enskur slagari.“
Talað er um hljómplötu Hljóma frá 1968.
„Það er mynd framan á af svífandi andlitum í mismunandi litum. Mig minnir að Shady Owens sé rauð og Engilbert blár. Dálítið flott umslag.“
Hvaða lög voru á þessari plötu?
„Þarna voru nokkur þekkt lög. Þarna var til dæmis Ástarsæla sem er svona barnagæla. Og þarna var Ég elska alla, Lífsgleði og Er hann birtist. Þessi lög voru öll á þessari plötu. Allt lög eftir Gunnar.“
Og textar eftir þig.
„Já.“
Svo samdi Gunnar Þórðarson eitt lagið sem hann vildi fá texta við. Þorsteinn sagðist hafa sett það til hliðar og gleymt því.
„Svo hringdi Gunnar eitt kvöldið og spurði hvort ég væri búinn að semja texta við þetta lag.“ Þorsteinn var ekki búinn að því og segir að Gunnar hafi sagt að hann þyrfti að semja textann strax.
Það gleymdist að setja „t“ í orðinu „heitinni“ og það leit út á blaðinu eins og „heillinni“.
„Ég vissi ekkert um hvað ég ætti að semja texta nema að ég hlustaði aftur nokkrum sinnum á þetta lag og tók eftir að það var í þessum ameríska sveitastíl. Ég hugsaði með mér að það væri sveit fyrir vestan og þá kveikti ég á perunni og fór að gera þennan texta um Búðardal sem er nátúrlega í sveit fyrir vestan. Þannig að það var svona fyrsta lending. Ég flýtti mér að gera þetta. Ég fór síðan í bíó og það gleymdist að setja „t“ í orðinu „heitinni“ og það leit út á blaðinu eins og „heillinni“. Og Engilbert Jensen fattaði þetta ekki og söng „langömmu heillinni“. En maður breytir ekkert plötunni eftir á.“
Þorsteinn segist hafa verið heppinn þar sem hann þekkti Pétur Pétursson, útvarpsþul hjá Ríkisútvarpinu. „Honum fannst svo gaman að hlusta á þetta lag að á meðan hann var á vakt þá spilaði hann þetta lag alltaf einu sinni. Þannig að þetta lag var spilað á hverjum einasta degi í eitt og hálft ár í útvarpinu.“
Þannig að það gjörsamlega síðast inn hjá fólki.
„Já, hann meira að segja bjó til danskan texta við þetta sem hann lét mig einhvern tímann fá.“
Svo kom færeyskur texti við lagið.
„Já, þetta hefur farið víða.
Hlustaðu á þetta bull
Þorsteinn er spurður hvort hann hafi grætt á textasmíðinni.
„Það var það. Það var á tímabili stórgróði á þessu. Í gamla daga seldust plötur miklu meira en þær gera í dag. Plata sem var vinsæl var að seljast í 10.000 eintökum sem er rosalega mikið miðað við fólksfjölda.“
Þorsteinn Eggertsson samdi texta fyrir fleiri hljómsveitir og má þar nefna Brimkló, Lónlý Blú Bojs og Lúdó og Stefán.
Síðan eru liðin mörg ár.
Þarna er einhver að reyna að semja texta eins og ég geri það og tekst það ekki nokkurn veginn.
Kemur fyrir að Þorsteinn heyri texta sem hann man ekki eftir að hafa samið?
„Já. Konan mín, Fjóla, hefur verið að gera grín að þessu. Einhvern tímann vorum við að keyra austur í sveitum. Útvarpið var á og það var verið að spila eitthvað lag og mér fannst þetta vera svo lélegur texti. Svo sagði ég við Fjólu: „Hlustaðu á þetta bull. Þarna er einhver að reyna að semja texta eins og ég geri það og tekst það ekki nokkurn veginn.“ Svona hélt ég áfram að þusa þangað til Jóhannes Arason þulur kom og afkynnti lagið og sagði: „Þetta var lagið Á eyðieyju. Erlent lag við texta eftir Þorstein Eggertsson.“
Áttræður og semur enn.
„Ég er kvætur þessari frábæru konu sem semur músík og við erum stundum í stofunni um helgar og þá sest hún við píanóið og við förum að semja. Stundum gerum við eitthvað úr þessu en stundum gleymist þetta. En svo er eitt og eitt lag sem er punktað niður og kemst á hljómplötu. Það er allur gangur á þessu.“
Þorsteinn segist núna vera að semja jólatexta sem hann á helst að skila í kringum næstu mánaðamót.
Podcastviðtal Reynis Traustasonar við hann er að finna hér.