Sunnudagur 27. október, 2024
1.4 C
Reykjavik

Þorsteinn hjá RKÍ: „Að öðlast félagslegt net hefur mikið að segja um líðan fólks í umsóknarferli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Borgarleikhúsið hefur frestað sýningum á leikritinu Snákur vegna þess að leikara úr sýningunni, sem sótt hafði um hæli hér á landi, var vísað úr landi eins og komið hefur fram í fjölmiðlum.

„Leiksýningin Snákur var frábært dæmi um það grasrótarstarf sem getur sprottið upp í því félagsstarfi sem Rauði krossinn skipuleggur með umsækjendum um vernd. Í þessu tilfelli fengum við síðastliðið vor drífandi og skapandi sjálfboðaliða, Elisabeth Nienhuis, til okkar sem langaði til þess að vera með vikulega leiklistarsmiðju fyrir flóttafólk. Eftir að hafa gengið úr skugga um að hún ylli því hlutverki sem fylgir sjálfboðastarfi gáfum við henni dagskrárvalds hópsins, hjálpuðum henni að auglýsa viðburðina og útveguðum húsnæði. Þarna fékk hluti skjólstæðinga okkar, þeir sem hafa áhuga á þessari tilteknu smiðju, tækifæri til að iðka áhugamál sitt, þroska hæfileika sína, mynda félagsauð og hafa eitthvað fyrir stafni meðan á umsóknarferli þeirra um vernd stendur,“ segir Þorsteinn Valdimarsson, verkefnastjóri málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum.

„Við vorum mjög ánægð með þetta verkefni bara sem vikulega smiðju en þegar á leið kom í ljós að hópurinn sem myndaðist var tilbúinn í stærri áskorun. Lisa, umsjónarmaður hópsins, hafði samband við Borgarleikhúsið, þau tóku vel í hugmyndina og áður en við vissum af var sýning sett á dagskrá sem sýnd var við góðan orðstýr í júní síðastliðnum. Verkefnið fékk einnig styrk úr Hverfissjóði Reykjavíkurborgar til að standa styr af kostnaði við hana. Við í Rauða krossinum vinnum með umsækjendum um vernd á meðan umsóknarferli þeirra stendur og reynum að gera okkar hlut til að gera þann erfiða tíma í lífi fólks bærilegri. Umsóknarferlinu getur lokið á tvenna vegu og við vitum að einhverjum þeirra sem tóku þátt í leikhúsverkefninu hefur verið vísað af landi brott.“

Venesúala, Sýrland og Úkraína

Þorsteinn segir að í hinu fjölbreytta félagsstarfi sem RK býður umsækjendum um vernd og flóttafólki taka mánuð hvern hundruðir þátt:

„Í leikhúsverkefninu er fasti kjarninn sem hefði stigið á svið í sýningunni um 15 manns en stærri hópur hefur tekið þátt viku fyrir viku í viðburðunum. Það er fjölbreyttur hópur sem tekur þátt í félagslegum verkefnum okkar og endurspeglar hverju sinni þau lönd sem umsækjendur um vernd og flóttafólk koma frá. Undanfarið eru þátttakendur til dæmis frá Venesúela, Sýrlandi og Úkraínu.

Að öðlast félagslegt net getur haft mikið að segja um líðan fólks í umsóknarferli.

- Auglýsing -

Í þeirri óvissu sem fylgir umsóknarferli um alþjóðlega vernd er mikilvægt fyrir einstaklinga að hafa nóg fyrir stafni og vera virkir. Að öðlast félagslegt net getur haft mikið að segja um líðan fólks í umsóknarferli og hvernig þau upplifa dvöl sína á landinu meðan þau bíða eftir úrlausn sinna mála. Öflugt félagsstarf getur skapað þetta net með vettvangi þar sem umsækjendur geta styrkt bönd við hvern annan í öruggu umhverfi ásamt því að kynnast sjálfboðaliðum verkefnisins sem ásamt því að vera þjálfaðir í sálfélagslegum stuðningi veita mikilvæga tengingu inn í íslenskt samfélag. Við teljum starfið því einnig stuðla að því að einstaklingar verði betur í stakk búnir að umsóknarferlinu loknu.“

Þorsteinn Valdimarsson

Áhugi á mannúðarmálum

- Auglýsing -

Þorsteinn segir að hlutverk sitt hjá Rauða krossinum felist fyrst og fremst í að eiga samskipti við þá sjálfboðaliða sem sinna félagsstarfinu:

„Við erum samtals rúmlega þrjú stöðugildi sem sinnum þeim verkefnum bæði í Reykjavík og Reykjanesbæ en á áttunda tug sjálfboðaliða sjá um að reka verkefnin dags daglega. Við erum með fasta vikulega hópa allan ársins hring, Opið hús, Kvennahóp, Ungmennahóp, Fótboltahóp og fleira. Sjálfboðaliðar okkar sinna einnig stóran hluta ársins tungumálakennslu á íslensku og ensku og svo erum við alltaf opin fyrir því sem einstaklingar hafa fram að færa. Þar geta fallegir hlutir átt sér stað; við höfum rekið tónlistarsmiðjur með atvinnutónlistarmönnum sem sjálfboðaliðum, boðið upp á innanhússklifur og blaktíma svo ekki sé minnst á leikhúsverkefnið okkar.“

Lærði Þróunarfræði við Háskóla Íslands.

Þorsteinn segist vera búinn að hafa áhuga á mannúðarmálum frá unglingsaldri:

„Ég var 18 ára þegar ég fór í áhrifaríka heimsókn til Suður-Indlands að sjá skólastarf sem Hjálparstarf kirkjunnar styrkti á þeim tíma. Ég tók lengi þátt í ungmennastarfi hjá þeim samtökum, lærði Þróunarfræði við Háskóla Íslands í kjölfarið og fékk tækifæri til að starfa með Rauða krossinum nokkrum árum seinna.“

Hvað gefur það Þorsteini að vera í svona starfi og hvað tekur það frá honum?

„Það getur verið álag og stress í öllum störfum og það sem ég fæ út úr þessu eru góð samskipti við mikið af frábæru fólki. Sjálfboðaliðar okkar eru til þess komnir að skapa eins gott og vinalegt umhverfi og þeir geta og þátttakendur í verkefninu eru langoftast komin til okkar til þess að eiga góða stund saman og við finnum það. Það gefur mér mikið að vita að verkefnin sem við setjum á dagskrá geta skipt máli og lífgað upp á daga fólks í erfiðri stöðu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -