Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Þórunn glímir við krabbamein í annað sinn: „Held að það sé ekkert vont fyrir þann sem deyr“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, greindist nýlega með krabbamein í lifur en hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2019 og gekk þá í gegnum stranga meðferð. Þórunn er bjartsýn og talar hér meðal annars um sjúkdóminn, bjartsýnina, vonina, lífið hinum megin, ástina og stjórnmálin.

Andlit Þórunnar Egilsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, birtist á skjánum. Gluggi fyrir aftan hana. Hún segir að ættingjar á Akureyri hafi gengið úr íbúð sinni til að hún og fjölskylda hennar geti dvalið þar en hún er nú í krabbameinsmeðferð á sjúkrahúsinu í bænum. Þórunn býr ásamt eiginmanni sínum og yngsta barni þeirra á bænum Hauksstöðum í Vopnafirði. „Við höfum náð að vera hérna öll saman, fjölskyldan, og það er algerlega ómetanlegt að geta staðið saman í þessu því að ég á einstaka fjölskyldu. Ég er ótrúlega lánsöm kona.“

„Ég ætla að leyfa mér að segja að ég er sigurviss; ég fer í þetta svoleiðis.“

Þetta er í annað skipti sem Þórunn greinist með krabbamein.

„Ég greindist með brjóstakrabbamein í febrúar árið 2019 sem var á 3. stigi og hraðvaxandi. Ég fór þá í mjög harða lyfjameðferð, sex skipti í æð. Í framhaldinu fór ég í fleigskurð til öryggis og svo í geisla til að klára þetta ferli. Lyfin virtust þá alveg vinna á þessu og meinið hvarf algjörlega. Þetta virtist vera staðbundið. Ég hef tvisvar síðan farið í tékk og þá fannst ekkert þannig að ég var full bjartsýni og trúði því að þetta væri bara farið, enda getur maður ekkert annað í þessari stöðu. Maður getur ekki alltaf lifað í ótta um að eitthvað gæti gerst. Þannig að ég tók þá afstöðu að þetta væri bara búið og mér tókst að gera það og halda lífinu áfram.“

Þórunn byrjaði að vinna aftur í maí í fyrra. „Ég var öll að fyllast af orku í haust og mér fannst eitthvað gott vera að fara að gerast. Ég man að ég var einn daginn að keyra upp úr bílakjallaranum í þinginu og hugsaði með mér að nú langaði mig til að fara að gera eitthvað meira. Ég hefði orku í eitthvað meira.“

Þórunn segist aldrei hafa verið hrædd við að deyja. „Ég held að það sé ekkert vont fyrir þann sem deyr. Það er verra fyrir hina.“

Veikindi taka sig upp að nýju

- Auglýsing -

Þórunn segir að hún hafi farið að fá meltingartruflanir í lok nóvember og verið eitthvað skrýtin í kviðnum. „Ég fór í tékk í lok nóvember og þá virtist allt vera í lagi. Það sást ekki neitt. Það komu þó fram vísbendingar í blóðprufu um að það væri eitthvað óeðlilegt í lifrarstarfseminni. Skömmu síðar hafði ég samband við spítalann og sagði að mér væri ekkert að batna. Þá var farið að skoða mig betur og í ljós kom að ekki var allt í lagi. Lifrin starfaði ekki sem skyldi en það leit ekki endilega út fyrir að vera krabbamein. Ég fór síðan til Vopnafjarðar í jólafrí. Þar fór ég í blóðprufu og þá kom í ljós að eitthvað alvarlegt var að. Elsta dóttir mín keyrði mig til Akureyrar 22. desember og ég fór í nákvæma skoðun á sjúkrahúsinu. Daginn eftir kom í ljós krabbi í lifrinni. Það er í rauninni bara smá hluti af henni sem virkar.“

Þórunn var sett á stera til að ná niður bólgum í lifrinni og lyfjameðferð hófst á annan í jólum. „Öll þjónustan sem ég hef fengið hérna hefur verið framúrskarandi og allt sem hefur verið gert fyrir mig.“

Viðtalið var tekið á miðvikudegi. Á þrettándanum. „Fyrsti dagur í viðsnúiningi var á sunnudaginn,“ segir Þórunn. „Þetta leit ekkert vel út. Það er ekkert öruggt í þessu.“ Þögn. „Það er bara þannig. Það var ekki víst að það tækist að snúa mér til baka.“

- Auglýsing -
„Ég leit upp einn daginn þegar ég var þar í vinnu og sá Hauk. Ég hugsaði með mér að þarna væri maðurinn minn.“

Heimahjúkrun

Þórunn segir að einn dagur sé tekinn í einu. „Það er verið að stilla mig af frá degi til dags. Krabbalyfin ganga nærri mér og það þarf að halda bóðflögunum í lagi vegna þess að ónæmiskerfið má ekki veikjast um of. Þetta er stillingaratriði.“

Hún segir að læknar geti ekkert sagt til um horfurnar. „Það verður bara að koma í ljós. En við erum bjartsýn núna. Það er þannig. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég er sigurviss; ég fer í þetta svoleiðis. Svo kemur bara í ljós hvað gerist.“

Starfsfólk heimahjúkrunar kemur á hverjum degi og einn þeirra hringir í Þórunni á meðan á viðtalinu stendur. „Heimahlynningin. Þær eru svo yndislegar. Þær koma hingað og hringja í mig. Við tökum þetta bara dag frá degi og ég er bara bjartsýn í dag eins og ég er reyndar alltaf.“

Maður verður alltaf að horfa fram og alltaf upp. Og maður má aldrei missa vonina. Aldrei.

„Þetta leit ekkert vel út. Það er ekkert öruggt í þessu.“ Þögn. „Það er bara þannig. Það var ekki víst að það tækist að snúa mér til baka.“

Að glata ekki gleðinni

Brjóstakrabbamein 2019. Krabbamein í lifur núna.

„Ég held að sálin mín sé að verða svolítið sjóuð í að takast á við áföll. Ég hef aldrei brotnað alveg niður. Ég hef mínar leiðir til þess. Það er alltaf þannig að maður getur aldrei sagt neinum hvernig á að takast á við svona. Það verður hver að finna sína leið og ég fer mína leið eins og aðrir fara sína leið. Og það að ég hafi ekki brotnað niður segir ekkert um það að aðrir geri það ekki eða það sé ekki best fyrir þá.

Mér hefur einhvern veginn tekist að skrúfa hausinn rétt á mig; ég tala alltaf um að skrúfa hausinn rétt. Maður verður alltaf að horfa fram og alltaf upp. Og maður má aldrei missa vonina. Aldrei. Maður á alltaf að vera vongóður og bjartsýnn. Svo er mottó sem ég tileinkaði mér fyrir löngu síðan í lífinu og það er að glata ekki gleðinni. Af því að í hverri stöðu eru alltaf tækifæri. Það er eitthvað gott við allt; það er sama í hverju fólk lendir. Það er alltaf einhver lærdómur og alltaf eitthvað gott í öllu. Það er alltaf hægt að vera þakklátur fyrir eitthvað og ef maður nær að vera í þakklætinu og auðmýktinni þá held ég að maður komist svolítið langt.“

Heimurinn að handan

Þórunn segist aldrei hafa verið hrædd við að deyja. „Ég held að það sé ekkert vont fyrir þann sem deyr. Það er verra fyrir hina. Ég hef þá frekar áhyggjur af fólkinu mínu; þeim sem eru í kringum mig. En ekki af sjálfri mér. Við vitum hvað er að lifa en við vitum ekkert hvað hitt er. Það eina sem við vitum er hvernig er að vera á þessari jörð. Hitt vitum við bara ekkert um. Það getur vel verið að einhver viti það en ég veit það ekki.“

Þórunn er spurð hvar hún fái þennan styrk. „Ég get ekkert útskýrt það. Ég hef alltaf haft þá trú að ég er langt frá því að vera það merkilegasta sem er á þessari jörðu. Og það er enginn merkilegri en annar. Við erum öll mikilvæg. Svo veit ég að ég get sett áhyggjur mínar og vandamál mín til einhvers mér æðri. Ég trúi því. Og ég fæ hjálpina. Ég hef alltaf fengið hjálp.“

Hún er trúuð og leitar í trúna. Hún segir að það hljóti eitthvað að taka við eftir þetta líf. „Það væri voða skrýtið ef það væri bara þetta hér, bara þessi heimur. En ég veit ekkert endilega hvað það er sem tekur við. Amma mín sagði mér að það væri svo dásamlegt í himnaríki af því að þar væru allir alltaf í sömu fötunum og það þyrfti aldrei að strauja.“ Hún hlær. „Það getur vel verið að það sé þannig. Allavegana fyrir einhverja. En er það ekki aðallega ljós og kærleikur? Ég held að það taki við. Við þurfum ekkert endilega að fara þangað til að upplifa það. Við getum alveg upplifað það líka hérna af því að það er gott fólk alls staðar í kringum okkur og það er eitthvað gott alls staðar. Við þurfum bara að muna eftir að koma auga á það, veita því athygli og næra það góða sem er í kringum okkur en ekki einblína alltaf á þetta neikvæða eða velta okkur upp úr einhverju sem er neikvætt eða leiðinlegt. Við getum alveg fundið okkar paradís hér. Og hún er hér. Ef við förum alltaf eftir hjartanu þá held ég að við séum bara í góðum málum.“

„Ég held að það sé ekkert vont fyrir þann sem deyr. Það er verra fyrir hina.“

Hún segist vera næm á fólk og umhverfi. „Ég á mjög auðvelt með að tala við ýmsa í kringum mig. Ég er í reglulegu sambandi við ömmur mínar sem eru látnar. Ég tala við þær. Það er mér svo eðlilegt. Ég held að flestir séu að gera þetta en að þeir átti sig ekki á því.“

Hún segir að þessi vitneskja styrki þá trú hennar að eitthvað taki við að þessu lífi loknu.

„Svo er líka afskaplega margt viðræðugott og gefandi fólk sem ég er rík af í lífi mínu á þessari jörð.“

„Það er mjög auðvelt að finna hamingjuna þar sem ég er núna af því að ég lít á mig sem lánsama konu. Mjög lánsama.“

Augun heilluðu

Þórunn fæddist í Reykjavík og er dóttir Sigríðar Lúthersdóttur og Egils Ásgrímssonar bólstrara. „Draumurinn var að verða bólstrari eða bóndi; svo fann ég bara Hauk minn austur á Vopnafirði.“ Og Haukur er bóndi.

Hún útskrifaðist frá Verslunarskóla Íslands árið 1984 og ákvað að eftir útskrift að kenna í einn vetur á Vopnafirði. Þá kom kennaraverkfall og fór hún að vinna í sláturhúsinu í bænum. „Ég leit upp einn daginn þegar ég var þar í vinnu og sá Hauk,“ segir hún og á þá við eiginmann sinn, Friðbjörn Hauk Guðmundsson. „Ég hugsaði með mér að þarna væri maðurinn minn. Svo hristi ég hausinn og hugsaði með mér að þetta væri vitleysa; ég væri rétt tvítug og þetta væri kall uppi í sveit.“ Haukur er 18 árum eldri en hún. „En það varð þannig. Hann varð maðurinn minn. Ég sá það bara strax. Augun í honum heilluðu mig og hann er svo fallegur að innan og utan. Hann er góð manneskja. Ég fór svo um veturinn að spyrja hvar hægt væri að komast að sem kaupakona sumarið eftir og þá var mér bent á hann. Ég fór til hans í Hauksstaði og þá fórum við að vera saman.“ Þetta var sumarið 1985. Þau trúlofuðu sig ári síðar og giftu sig árið 1987.“

Jafnréttismál

Hjónin eru sauðfjár- og skógarbændur í Vopnafirði. „Þetta var sérstakt fyrstu árin af því að foreldrar Hauks, bróðir og föðurbróðir bjuggu líka á bænum sem var mjög afskekktur en bærinn er sá innsti í Vesturárdal.

Ég fékk mér kú og ég bjó allt til heima; ég bjó til skyr, smjör og súrmjólk. Og ég bakaði allt sem þurfti. Ég tók þetta alla leið. Svo vorum við með fullt af krökkum í sveit. Ég tók það alla leið að vera bóndi og húsmóðir.“

Hún hóf síðar fjarnám við Kennaraskóla Íslands og fékk kennararéttindi árið 1999. Hún kenndi í tæpan áratug við grunnskólann á Vopnafirði, eða á árunum 1999-2008, og fór síðan í stjórnunarstöður við skólann. Hún var verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Austurlands, sem í dag er starfrækt innan Austurbrúar, á árunum 2008-2013 og var í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 2010-2014 og oddviti á árunum 2010-2013.

„Ég kynntist skemmtilegum heimi þegar ég fór að vinna í stjórnmálum. Ég kynntist fólki út um allt land sem er tilbúið til að leggja eitthvað gott til samfélagsins og er tilbúið til að vinna mikið. Það eru forréttindi að vinna með svoleiðis fólki.“

Þórunn talar um verkefnin. „Það er ýmislegt sem við erum ekki komin nægilegt langt með eins og til dæmis í jafnréttismálum en ég vil leggja áherslu á þau; jafnrétti til búsetu, kynjajafnrétti og bara jafnrétti í sem víðustum skilningi. Við eigum öll að hafa sama rétt hvar sem við kjósum að búa og við þurfum að finna leiðirnar til þess að allir búi við sem jöfnust kjör. Það er mín sýn. Innviðirnir skipta öllu máli en ef við ætlum að hafa landið allt í byggð þá þarf vegakerfið að vera í lagi sem og fjarskiptamálin. Og umhverfismálin skipta miklu máli. Við höfum náð gríðarlega miklum árangri í þessum málum að undanförnu og ég er mjög ánægð með það,“ segir Þórunn sem er formaður Samgönguráðs. „Nú erum við loksins farin að geta talað um störf án staðsetningar og jafnrétti til búsetu og enn höldum við áfram því nú er hafinn undirbúningur að samgönguáætlun til næstu fimm ára.“

Hún segir að Íslendingar eigi að læra af öllu því sem við erum búin að ganga í gegnum. „Það sem við höfum lært er að samvinnan skilar okkur miklu lengra og það höfum við Framsóknarmenn alltaf talað um. Núna finnst mér það hafa sannað sig. Við þurfum ekki annað en að horfa á lyfjaframleiðendur og hvernig við höfum lagst á eitt núna til að láta hlutina ganga og það gerum við saman með samvinnu og samtali. Það er alltaf samtalið sem kemur okkur áfram.“

„Og við þurfum að verja íslenskan landbúnað. Það er eitt af mikilvægustu málum þjóðarinnar. Það eru ómetanleg forréttindi að hafa aðgang að heilnæmri og hollri fæðu. Það búa ekki allar þjóðir við það.“

Full bjartsýni

Hún er spurð hvaða mál standi upp úr. „Á heildina litið er margt sem við getum verið gríðarlega stolt af. Við höfum til dæmis náð góðum árangri í jafnréttis- og samgöngumálum. Svo höfum við Framsóknarmenn unnið mikið í tengslum við nýtingu lands; hvernig við nýtum landið okkar og göngum um það. Ég hef verið með í málum varðandi til dæmis ríkisjarðir; hvernig við nýtum þær og við þurfum að skilgreina hvernig við ætlum að nota landið, hvað á að fara undir matvælarækt og svo er það matvælaöryggið sem má aldrei gleyma. Við megum heldur aldrei gleyma því hvað það er mikilvægt að framleiða matinn okkar hérna hjá okkur í okkar landi. Og við þurfum að verja íslenskan landbúnað. Það er eitt af mikilvægustu málum þjóðarinnar. Það eru ómetanleg forréttindi að hafa aðgang að heilnæmri og hollri fæðu. Það búa ekki allar þjóðir við það.“

Þórunn stendur upp og opnar gluggann. Snævi þakið fjall og grár himinn blasa við.

„Ég er orðin svolítið þreytt, Svava,“ segir hún.

Þórunn er umfram allt bjartsýn. Vongóð. Spurð um hamingjuna segir hún: „Hamingjuna finnur maður í hjartanu. Ef við gerum allt út frá hjartanu þá erum við á réttri leið. Og þegar hjartað nær sínu fram þá erum við sönn og trú og líður vel með okkur sjálfum og fólkinu okkar. Ef við náum að gera allt úr frá hjartanu og hlustum á það þá held ég að við séum á góðum stað.“

„Ég held að sálin mín sé að verða svolítið sjóuð í að takast á við áföll. Ég hef aldrei brotnað alveg niður.“

Þórunn er spurð hvort hægt sé að upplifa hamingjuna í þeim aðstæðum sem hún er í?

„Já. Það er mjög auðvelt að finna hamingjuna þar sem ég er núna af því að ég lít á mig sem lánsama konu. Mjög lánsama. Ég er full þakklætis fyrir allt sem ég fæ og full gleði.

Svo má maður ekki taka lífið of alvarlega. Það verður bara leiðinlegt. Við vorum ekkert að fæðast á þessa jörð til að hafa leiðinlegt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -