Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Þrautaganga kvenna sem vilja enda þungun „Útlimir barnsins þíns verða rifnir af, höfuð þess verður kramið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Andstæðingar þungunarrofs í Bandaríkunum beita harkalegum aðferðum til að þrýsta á konur að leita ekki réttar síns og rjúfa þungun. „Ekki drepa barnið þitt,“ og „Við getum hjálpað þér“ er meðal þess sem mótmælendur gegn þungunarrofi kalla á konur sem leita sér aðstoðar. Konur sem vilja fóstureyðingu njóta fylgdar sjálfboðaliða í gegnum hóp mótmælenda.

Þungunarrof er mikið hitamál í bandarískum stjórnmálum. Fréttaveitan NowThis hefur birt myndband sem sýnir hvað konur sem leita réttar síns þurfa að ganga í gegnum. Myndbandið er sláandi en þar má sjá hóp mótmælenda þrengja að konunni. Predikari leiðir mótmælin með gjallarhorni og hvetur hana til að drepa ekki barnið sitt. Konan hylur sig undir úlpu meðan merktir starfsmenn heilsugæslunarinnar veita henni stuðning og leiða hana áfram í gegnum þvöguna. Starfsmennirnir eru í vestum sem stendur á „Sjálfboðaliði og fylgdarmaður heilsugæslu.“ Myndbandið sýnir ótrúlega þrautagöngu kvenna sem leita sér læknisaðstoðar.

Mótmælendur sjást með skilti sem fyrirsögnum á borð við „Þungunarrof er morð.“ Kvenkyns mótmælandi gengur alveg upp að konunni og segir við hana „Við getum hjálpað þér. Ekki drepa barnið þitt.“ Þá heyrist hrópað að konunni; „Ekki drepa barnið þitt! Ekki gera þetta!” Karlkyns predikari sem leiðir mótmælin reynir að ávarpa konuna með kalltæki. „Unga dama, þú þarft ekki að vera morðingi í dag. Ekki hlusta á spilltar ráðleggingar fólksins í appelsínugulu vestunum.” Predikarinn á við sjálfboðaliða heilsugæslunnar. „Þetta fólk sem er að strjúka þér um bakið og segja við þig að þetta verði allt í lagi. Þetta verður ekki allt í lagi fyrir barnið þitt. Útlimir barnsins þíns verða rifnir af, höfuð þess verður kramið. Barninu þínu verður tortímt með eiturefnum. Þetta er ekki í lagi nema þú iðrist.” 

Læknasetrið EMW Womens er eina stöðin í fylkinu sem hefur leyfi til að framkalla þungunarrofsaðgerðir. Á setrinu, sem er einkarekið, starfa þrír fæðinga- og kvensjúkdómalæknar. Um 4,5 milljónir manna eru búsettir í Kentucky. Fylkið er 104,659 km² stærð og liggur við landamæri Illinois, Ohio og Indiana. Til samanburðar er flatarmál Íslands 103.000 km².

Matt Bevin, Ríkisstjóri Kentucky. Mynd: Gage Skidmore

Þungunarrof óheimil þegar hjartsláttur greinist í fóstri

Matt Bevin, Ríkisstjóri Kentucky, samþykkti síðast liðinn mars nýtt frumvarp um þungunarrof. Löggjöfin átti að taka strax gildi. Þá yrði konum ekki heimilt að enda meðgöngu eftir að hjartsláttur greinist í fóstri. Hjartsláttur er greinanlegur á sjöttu viku meðgöngu. Joseph H. McKinley alríkisdómari kom í veg fyrir innleiðingu löggjafarinnar. Brian Kemp, Ríkisstjóri Georgíu, hefur samþykkt sömu löggjöf um þungunarrof í sínu fylki.

Kim Reynolds, ríkisstjóri Iowa, skrifaði undir sama frumvarp repúblikana í maí 2018. Löggjöfin var stöðvuð í janúar síðast liðinn. Umdæmisdómari Michael Huppert sagði hana ekki í samræmi við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

- Auglýsing -

Ríkisstjóri Mississippi, Phil Bryant, samþykkti sex vikna löggjöfina í mars síðast liðinn. Alríkisdómari gaf út bráðabirgðadóm sem frestar innleiðingu frumvarpsins fram í júlí. Þá hefur löggjöfin einnig verið samþykkt í Ohio af Mike DeWine. Þau Bevin, Kemp, Reynolds, Bryant og DeWine eru Repúblikanar.

Örfá miðríki veita meiri sveigjanleika

Þegar talað er um miðríki er átt við þau ríki sem liggja á milli vestur og austurströnd Bandaríkjanna. Miðríkin eru almennt talin íhaldssöm þar sem fjölskyldugildi eru í hávegum höfð. Til eru undantekningar á þessu svæði en Chicago í Illinois er til dæmis frjálslynt svæði.

- Auglýsing -

Mike Parson, Ríkisstjóri Missouri, samþykkti frumvarp sem bannar þungunarrof eftir áttundu viku. Undantekning á löggjöfinni er gerð ef heilsu móður er stofnað í hættu. Fórnarlömbum nauðgana eða sifjaspells eru ekki veitt undantekning. Ríkisstjóri Arkansas og ríkisstjóri Utah hafa báðir samþykkt löggjöf um þungunarrof fram að 18. viku. Þá er fórnarlömbum nauðgana og sifjaspells veitt undantekning á lögunum í Arkansas. Einnig er veitt undantekning í báðum fylkjum ef um heilsufarslegt neyðartilfelli er að ræða.

Kay Ivey ríkisstjóri Alabama skrifar undir ný lög um þungunarrof 14. maí 2019. Mynd: Governor.alabama.gov

Þungunarrof refsiverður glæpur í Alabama

Nýtt frumvarp Repúblikana um þungunarrof í Alabama var samþykkt af Kay Ivey, ríkisstjóra fylkisins, fyrr í mánuðinum. Lögin taka gildi eftir tæpa sex mánuði. Þungunarrofsaðgerðir verða þá refsiverður glæpur. Lögunum fylgir ein undantekning en konum verður heimilt að enda þungun ef áframhaldandi meðganga stefnir heilsu þeirra í hættu. Læknar sem framkæma aðgerðina án heimildar getur verið refsað með 99 ára fangelsisvist. Konunum verður þá ekki refsað.

„Í dag skrifaði ég undir frumvarp sem var samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta löggjafarþingsins“ sagði Ivey í yfirlýsingu miðvikudaginn 15. maí. Atkvæðagreiðsla fór fram þriðjudaginn 14. maí og kusu 25 af 31 frumvarpinu í vil. „Fyrir stuðningsmenn frumvarpsins er þessi lagasetning mikilvægur vitnisburður. Staðfesting á trú fylkisbúa um að hvert líf er dýrmætt og að allt líf er heilög gjöf frá Guði.” Ivey tók fram að Roe v. Wade dómurinn gæti haft áhrif á frumvarpið.

Sjá einnig: Þungunarrof verður refsiverður glæpur í Alabama

Roe v. Wade var tímamótamál í bandarískri réttarsögu en dómurinn heimilaði þungunarrof árið 1973 í öllum fylkjum Bandaríkjanna. „Sama hvaða skoðun fólk hefur á þungunarrofi þá getum við búist við því að nýja löggjöfin hafi takmörkuð áhrif. Að minnsta kosti eins og er” sagði Ivey. „Sem ríkisborgarar þessa frábæra lands ber okkur að virða hæstaréttardóm, jafnvel þó við erum ekki alltaf sammála honum.”

Randall Marshall, framkvæmdarstjóri ACLU, hefur lofað Ivey lögsókn vegna laganna. „Þetta er einfaldlega tilraun til þess að kollvarpa 46 ára fordæmi sem Roe v. Wade dómurinn setti fram” stóð í yfirlýsingu hans í gær. „Við munum ekki leyfa þessu að gerast, sjáumst í réttarsalnum.”

Demókratar börðust fyrir breytingartillögu þar sem fórnarlömbum nauðgunar og sifjaspells yrðu veitt undantekning á löggjöfinni. Þeirri tillögu var hafnað í atkvæðagreiðslu 11-21.

Vivian Figures, öldungardeildarþingmaður Demókrata, hefur harðlega gagnrýnt frumvarpið. „Þú þarft ekki að ala upp barnið, þú þarft ekki að ganga með barnið, þú þarft ekki að gera neitt fyrir barnið.” sagði Figures sem beindi athugasemdum sínum að Clyde Chambliss, öldunardeildarþingmanni Repúblikana, sem styður frumvarpið. „En samt viltu taka þessa ákvörðun fyrir þessa konu, að þetta þurfi hún bara að gera.”

Þungunarrof leyfilegt til og með 22. viku á Íslandi

Frumvarp um þungunarrof á 22 viku var samþykkt mánudaginn 13. maí í íslenska þinginu. Umræðan um frumvarpið var harkaleg. Frumvarpið var hinsvegar samþykkt með miklum meirihluta á þinginu. Það gerir konum kleift að enda meðgöngu til og með 22. viku. Sé íslensk löggjöf sett í samhengi við til dæmis löggjöfina í Kentucky og Alabama felst grundvallarmunur á milli þeirra. Á Íslandi var áhersla lögð á rétt kvenna til sjálfsákvörðunar um eigin líkama. Í þeim fylkjum sem hér er fjallað um er markmiðið þveröfugt. „Þetta er löng vegferð en í dag erum við að eignast eina framsæknustu löggjöf að því er varðar sjálfsákvörðunarrétt kvenna í heiminum. Þess vegna er þetta gleðidagur“ sagði Svandís Svavardóttir heilbrigðisráðherra í atkvæðaskýringu sinni á þungunarrofsfrumvarpinu.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, studdi einnig frumvarpið. „Þetta er grundvallarmál. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir mig og fyrir mjög marga. Málið er vel unnið, þvert á það sem aðrir háttvirtir þingmenn hafa sagt hér, bæði í þinginu og áður en það var lagt hér fram. Málið er byggt á umfangsmikilli vinnu og löngu ferli. Það snýr að grundvallarfrelsi kvenna, heilsu okkar og lífi. Ég segi já.“

Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, sagði þetta mikilvægt mál og greiddi atkvæði með frumvarpinu. Hún lýsti yfir vonbrigðum vegna þeirra umræðu sem hefði skapast í kringum málið. „Hér hefur fólk talað um þessar konur eins og þær séu einhvers konar illmenni og mér þykir ótrúlega sárt að hafa þurft að hlusta á það.“

Kvenfrelsi trompar ekki önnur álitamál

Andstæðingar frumvarpsins á Íslandi gerðu athugasemdir við fjórðu grein frumvarpsins. Þar segir að heimilt er að rjúfa þungun konu, að hennar beiðni, til loka 22. viku þungunar. „Þetta er dagur vonbrigða. Afgreiðsla þessa máls ber glöggt vitni um vangetu ríkisstjórnarinnar til að sætta ólík sjónarmið“ sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins. Hann greiddi atkvæði á móti. „Ekkert hefur verið gefið eftir í þessu máli frá því að það kom inn, ekkert þrátt fyrir viðvörunarorð, ekkert þrátt fyrir víðtæka andstöðu meðal þjóðarinnar.

„Sigríður Á. Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. „Ég er svo sannarlega fylgjandi sjálfsákvörðunarrétti kvenna en nefni það að þetta frumvarp lýtur að engu leyti að sjálfsákvörðunarrétti kvenna.

Bjarni Benediksson, fjármála-og efnahagsráðherra, var meðal andstæðinga frumvarpsins. „Mér finnst kvenfrelsið skipta gríðarlega miklu máli og það á að vera meginþráður í meðferð þessara mála en mér finnst samt kvenfrelsi ekki trompa hvert einasta annað álitamál sem upp kemur í þessum efnum.“ Bjarni greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -