Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Þriðja bylgjan að rústa lífi unglinga á Íslandi: „Þetta er að buga þau“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurþóra Bergsdóttir, framkvæmdastjóri Bergsins, stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk, segist hafa tekið eftir gífurlegri aukningu í aðsókn í Bergið. Hún segir í færslu á Facebook að þriðja  bylgjan með tilheyrandi einangrun sé að hafa tortímandi áhrif á unglinga í dag.

Sigurþóra heldur að brottfall úr framhaldsskóla nái nýjum hæðum um jólin. „Þriðja bylgjan er að hafa hrikaleg áhrif á unga fólkið okkar. Við finnum fyrir stóraukinni aðsókn í Bergið og ungmennum líður mun verr en áður. Mikill kvíði og þyngsli og vangeta til að takast á við dagleg störf í þessari einangrun sem nú er. Slæmar venjur eru að gera vart við sig s.s. að klæða sig ekki, komast ekki út í hreyfingu, slæmt matarræði og fleira. Við óttumst að brottfall úr framhaldsskóla verði stórfellt nú fyrir jól, þau eru einfaldlega að gefast upp fyrir verkefninu,“ segir Sigurþóra.

Hún segir að flestir geti sett sig í spor krakkanna. „Við getum tekið þetta í tvo hluta, annars vegar er félagsleg einangrun að valda miklum vanda. Að fá ekki að hittta félagana, að hafa ekkert félagslegt til að hlakka til. Það er verið að taka svo mikið frá þessum ungmennum núna. Það er auðvelt að setja sig í spor þess sem er að hefja framhaldsskólanám, ég man hversu maður hlakkaði til. Þú kannski þekkir fáa í þínum skóla og nú eru engin böll, ekkert félagsstarf, engin félagsleg tengsl og bara að læra heima í gegnum tölvu með öðrum sem þú þekkir ekkert. Mér finnst að framhaldsskólar verði að bregðast við með einhverjum hætti. Opna skólana, bjóða upp á litla 3-5 manna námshópa, bjóða upp á stuðning á staðnum, leyfa krökkum að hitta násmráðgjafann í persónu ekki bara í gegnum síma,“ segir Sigurþóra.

Hún segir að skólarnir ættu að koma meira til móts við unglinganna. „Hinn hlutinn er að framhalds- og háskólar hafa ákveðið að minnka ekkert námskröfur þetta haustið. Þetta er að buga þau. Þau þurfa að læra svo mikið allan daginn, það virkar meira þar sem þau eru að gera þetta mest í sjálfsnámi, þó einhverjar kennslustundir séu í gegnum netið. Hægt er að koma til móts við þetta í fjölbrautarskólum með því að þau taki færri áfanga, þar geta foreldrar og skólinn stappað í ungmenni stálinu að það sé í lagi að vera aðeins lengur í framhaldsskóla. Í bekkjarkerfum er þetta erfiðara en ég óttast að þar verði mikið brottfall nema framhaldsskólar komi til móts við þetta,“ segir Sigurþóra.

Hún segir að lokum að þetta séu ekki unglingar á jaðrinum sem séu að koma í stríðum straumi í Bergið nú. „Við erum að sjá trausta námsmenn í Berginu sem aldrei hafa verið í vandræðum í skóla upplifa mikinn vanda til að ná utanum námsefnið eins og ætlast er til. Þriggja ára framhaldsskólinn er ekki að vinna með okkur þarna, kannski þurfum við að skoða hvort þessi hópur fái ekki bara lengri tíma í verkefnið. Eitthvað þarf að gera í haust og vor til að koma til móts við þennan hóp, því ef við missum þau út úr skólunum verður vandinn mun erfiðari við að eiga.“

 

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -