KR styrkir stöðu sína í körfu með þremur öflugum og reyndum leikmönnum.
Brynjar Björn Björnsson og bræðurnir Jakob Sigurðsson og Matthías Sigurðsson hafa allir samið við körfuknattleiksdeild KR fyrir næsta vetur. Boðað var til blaðamannafundar í höfuðstöðvum Alvogen, stærsta styrktaraðila liðsins, í Vatnsmýrinni nú síðdegis þar sem samningur var undirritaður.
Með því að styrkja stöðu sína enn frekar er ljóst að hinir sexföldu Íslandsmeistarar í KR ætla sér stóra hluti á komandi leiktíð, enda um þrjá öfluga leikmenn að ræða. Þannig eiga Jakob og Brynjar báðir langan og farsælan landsliðsferil að baki og hafi um nokkurt skeið verið í hópi sterkustu körfuknattleiksmanna landsins. Jakob hefur spilað í Svíþjóð við góðan orðstír undanfarin ár, nú síðast með Boras Basket þar sem hann fór alla leið í úrslitaeinvígi sænsku úrvalsdeildarinnar.
Síðast spilaði hann á Íslandi árið 2009 þegar hann varð Íslandsmeistari með KR. Bróðir hans Matthías, sem er sömuleiðis uppalinn KR -ingur, hefur spilað með ÍR síðastliðin þrjú ár og gert gott mót, en hann leiddi meðal annars liðið alla leið í úrslit Íslandsmótsins þar sem það tapaði gegn KR í úrslitaeinvíginu. Verður þetta í fyrsta sinn sem bræðurnir leika saman með KR, en samningur Matthíasar er til tveggja ára og Jakobs til eins árs.
Þriðji leikmaðurinn Brynjar Björn spilaði með Tindastól á síðustu leiktíð en hann er líka uppalinn hjá KR og því má segja að samningurinn marki að sama skapi endurkomu hans í Vesturbæinn
Þess má geta að Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, greindi jafnframt frá því á fundinum að KR-ingar hefðu í hyggju að vera með einn erlendan leikmann í liðinu.