Í nýrri tilkynningu frá Blaðamannafélagi Íslands (BÍ) er sagt frá því að þrjár blaðakonur hjá mbl.is hafi verið ranglega ásakaðar um verkfallsbrot í stefnu BÍ gegn Árvakri vegna verkfallsbrota þann 8. nóvember. Blaðakonurnar sem um ræðir höfðu lagt niður störf klukkan 10:00 en fréttir í þeirra nafni voru birtar á meðan á vinnustöðvun stóð.
BÍ hefur falið lögmanni sínum að laga stefnuna og fjarlægja nöfn kvennanna úr henni.
„Árvakur verður krafinn skýringa á því hver beri ábyrgð á og hafi staðið á bakvið birtingu fréttanna að blaðakonunum forspurðum á meðan vinnustöðvunin stóð yfir,“ segir meðal annars í tilkynningunni. Þá eru blaðakonurnar beðnar afsökunar.
Blaðakonurnar sem um ræðir eru Guðrún Selma Sigurjónsdóttir, Sonja Sif Þórólfsdóttir og Lilja Ósk Sigurðardóttir.
„Ég myndi aldrei vinna gegn baráttu sem ég styð. Það er verið að berjast fyrir mínum kjörum í framtíðinni,“ er haft eftir Sonju Sif í tilkynningu BÍ.
Þess má geta að önnur lota í vinnustöðvun BÍ fór fram í gær og hélt Árvakur uppteknum hætti. Ríflega 40 fréttir birtust meðan á verkfallinu stóð milli klukkan 10:00 og 18:00 er fram kemur á vef BÍ. Þar segir: „Árvakur er eina fyrirtækið sem brýtur gegn vinnustöðvuninni, en framkvæmd hennar var til fyrirmyndar á Sýn, RÚV og Fréttablaðinu. Aflað verður frekari gagna um þessi brot og verður þeim bætt við þau gögn sem lögð verða fram í Félagsdómi við þingfestingu málsins á þriðjudaginn kemur.“
Sjá einnig: Fyrrverandi formaður stéttarfélags verkfallsbrjótur