Þröstur Guðbjartsson, leikari og leikstjóri, er látinn 68 ára að aldri. Hann lést þann 17. júlí á Líknardeild Landspítalans, Kópavogi.
Þröstur sem fæddist 23. október árið 1952, hefur bæði leikið í og leikstýrt fjölmörgum leikritum. Hann hefur unnið fyrir Leikfélag Akureyrar, Borgarleikhúsið, Þjóðleikhúsið, Leikhús Frú Emilíu og starfað með hinum ýmsu leikhópum svo eitthvað sé nefnt. Þröstur hefur einnig leikið í kvikmyndum og var hann einna þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndinni Sódóma Reykjavík, þar fór hann á kostum sem smáglæpamaðurinn Elli. Hann var mjög virtur og dáður bæði sem leikstjóri og leikari.
Blessuð sé minning Þrastar og vill Mannlíf votta aðstandendum hans samúð sína.

