Rannsakendur við háskólann í New South Wales í Ástralíu hafa rannsakað áhrif áfengis á heilann og hafa komist að þeirri niðurstöðu að fólk þurfi bara að innbyrða tvo áfenga drykki til að geta mögulega misst alla stjórn á sér og skapi sínu.
Þeir rannsökuðu tenginguna á milli áfengisneyslu og árásargirni og notuðu til þess segulómun til að mæla breytingar á blóðflæði í mannsheilann þegar manneskjur voru búnar að innbyrða áfengi. Kom í ljós að það gæti þurft aðeins tvo áfenga drykki til að takmarka virkni heilabörksins, sem hefur áhrif á ákvarðanatöku og félagslega hæfni.
Við framkvæmd rannsóknarinnar gáfu rannsakendur fimmtíu heilbrigðum karlmönnum annað hvort tvo vodkadrykki eða lyfleysu. Síðan þurftu mennirnir að ljúka verkefni á móti tölvu sem var hönnuð til að leggja mat á árásargirni þeirra, til dæmis með því að skaprauna mönnunum.
Segulómun á heila þeirra sem höfðu drukkið vodkadrykkinn sýndi fram á minni virkni í heilaberkinum á meðan engin breyting var á virkninni hjá þeim sem fengu lyfleysuna.
Í niðurstöðum sínum tóku rannsakendur fram að áfengisneysla spilaði stóra rullu í helmingi allra ofbeldisfullra glæpa. Því væru niðurstöður og rannsóknir sem þessar mikilvægar til að skilja af hverju ölvað fólk verður stundum ofbeldisfullt.
Texti / Lilja Katrín
[email protected]