Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Thunberg vegur nettröllin, með sannleikann að vopni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðgerðasinninn Greta Thunberg kom, sá og sigraði heimsbyggðina með eldmóð sínum og baráttuanda. Eins og við var að búast hefur hún í kjölfarið verið nídd og vanvirt á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Gagnrýnendur segja hana strengjabrúðu, lygara, ófríða og geðveika. En hún heldur ótrauð áfram.

 

„Þegar hatarar tala um útlitið þitt eða að þú sért öðruvísi þá þýðir það að þeir hafa ekkert annað að tala um. Og þá veistu að þú ert að sigra!“ sagði aðgerðasinninn Greta Thunberg á Twitter í byrjun mánaðarins, sem svar við þeirri gagnrýni sem hún hefur mætt frá því hún hóf mótmæli gegn hamfarahlýnun fyrir um ári.

Í kjölfar ræðu hennar á þingi Sameinuðu þjóðanna á mánudag, þar sem hún las yfir hausamótum leiðtoga heims, hefur svívirðan sem hún hefur mátt þola í netheimum og víðar aukist til muna. Á samfélagsmiðlum hefur Thunberg, sem er 16 ára, verið kölluð hóra og strengjabrúða, ýmist foreldra sinna eða valdamikilla hagsmunaaðila, og í fjölmiðlum hefur hún verið sögð geðveik vegna Asperger-greiningar sinnar og sökuð um að valda heilli kynslóð barna vanlíðan með staðhæfingum sínum um loftslagsvána.

„Þegar hatarar tala um útlitið þitt eða að þú sért öðruvísi þá þýðir það að þeir hafa ekkert annað að tala um. Og þá veistu að þú ert að sigra!“

„Þið hafið stolið draumum mínum og barnæsku með innantómum orðum ykkar,“ sagði hún á þinginu eins og frægt er orðið. „Augu allra framtíðarkynslóða eru á ykkur. Og ef þið veljið að bregðast okkur þá segi ég: við munum aldrei fyrirgefa ykkur,“ sagði Thunberg, sem sigldi á umhverfisvænum bát yfir Atlantshafið til að flytja ræðu sína. Flestir hlóðu lofi á hinn unga eldhuga, sem á milljónir aðdáenda um allan heim, en aðrir voru fljótir að finna að afdráttarlausri nálgun Thunberg, sem hefur ítrekað að hún sé aðeins að benda á vísindalegar staðreyndir.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, sagðist skilja að umræðan um loftslagsbreytingar vekti sterkar tilfinningar en ítrekaði að það væri mikilvægt að setja hlutina í samhengi og fullvissa ungu kynslóðina um að framtíðin væri björt. „Ég vil ekki að börnin okkar séu full kvíða vegna þessara mála,“ sagði hann meðal annars, spurður um ræðu Thunberg á miðvikudaginn. Morrison hafði áður lýst yfir áhyggjum vegna skrópmótmæla Thunberg og kallaði í fyrra eftir „aukinni mætingu í skóla, minni aðgerðaisma.“

Margir gagnrýnendur voru orðljótari. Michael Knowles, álitsgjafi hjá Fox News, kallaði Thunberg „andlega veikt sænskt barn“.

- Auglýsing -

Stjórnmálaspekingurinn Dinesh D‘Souza gekk jafnvel lengra og birti tvær myndir hlið við hlið á Twitter; eina af Thunberg með flettur í hárinu og aðra af ljóshærðri stúlku, sömuleiðis með fléttur, með nasistafánann blaktandi í bakgrunni.

 

Breski fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan sagði Thunberg hafa rétt fyrir sér um þróunina í loftslagsmálum en lét að því liggja að eldmóður hennar væri afleiðing Asperger-heilkennisins, sem hún var greind með fyrir um fjórum árum. „Hvað vísindi varðar er ég sammála henni: loftslagsbreytingar eru raunveruleg og yfirvofandi ógn og leiðtogar okkar verða að gera meira til að berjast gegn þeim. En dómsdags orðræða hennar hefur valdið ofsahræðslu hjá milljónum ungra einstaklinga, upp að því marki að umhverfiskvíði er að aukast svo um munar,“ sagði Morgan í Daily Mail.

„Ég segi bara það sem er nauðsynlegt að segja.“

- Auglýsing -

Verst hefur umræðan verið á samfélagsmiðlum, eins og dæmin hér til hliðar sýna.
Thunberg virðist hafa þykkan skráp. Hún hefur staðfastlega neitað því að hún gagni erinda fullorðinna og skaut listilega til baka á Donald Trump Bandaríkjaforseta þegar hún gerði kaldhæðnislega lýsingu hans að sinni á Twitter: „Hamingjusöm stúlka sem hlakkar til bjartrar og dásamlegrar framtíðar.“

Telja má líklegt að Thunberg sé allt of önnum kafin til að velta sér upp úr gagnrýninni en eins manns mótmælin sem hún hóf fyrir framan sænska þinghúsið í fyrra hafa nú vaxið í milljóna fjöldahreyfingu. Fjórar milljónir manna tóku þátt í skrópmótmælum síðasta föstudag og samkvæmt Twitter-aðgangi Thunberg hafa 6.383 viðburðir í 170 löndum verið skipulagðir í dag. Þá hafa fjölmiðlar greint frá því að Thunberg sé uppáhald veðbankanna til að hljóta friðarverðlaun Nóbels. Sjálf hefur hún gert lítið úr sínu framlagi og segir raunar mest lítið utan sviðsljóssins, eins og viðmælendur hennar hafa tekið eftir. „Ég segi bara það sem er nauðsynlegt að segja.“

Hér fyrir neðan má sjá brot af því sem tíst hefur verið um Gretu Thunberg að undanförnu.

https://twitter.com/meme_matty/status/1176300617326895105

https://twitter.com/HealthyWorld12/status/1177153834893926400

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -