Laugardagur 28. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Þungt högg á versta tíma

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hætt er við að útgerðin verði fyrir miklu höggi í kjölfar þess að Hafrannsóknarstofnun tilkynnti að ekki sé tilefni til að gefa út loðnukvóta í ár. Ástæðan er sú að ekki finnst nægilega mikil loðna í lögsögunni. Ástandið kemur sérstaklega illa niður á útgerðarfyrirtækjum á landsbyggðinni.

Hafrannsóknarstofnun lauk fjórða og síðasta leiðangrinum í loðnuleitinni um síðustu helgi. Niðurstöðurnar voru allt annað en jákvæðar og verða ekki lagðar til veiðiheimildir í ár. Útlitið er sömuleiðis svart fyrir næsta ár því mælingar á ungloðnu komu heldur ekki vel út og því gæti farið svo að ekkert verði veitt á næsta ári heldur.

Erfitt er að segja til um hvað veldur en böndin beinast að breytingum sem orðið hafa í hafinu á undanförnum 20 árum. Hér áður fyrir voru veidd um 500 þúsund tonn af loðnu á ári, og allt upp í milljón tonn, en undanfarin ár hefur kvótinn verið á bilinu 90 til 340 þúsund tonn.

Útgerðarmenn hafa ekki gefið upp alla von og vilja menn freista þess að gera eina lokatilraun. Rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar eru hins vegar farin til annarra verkefna og því þurfa útgerðirnar sjálfar að útvega skip og fjármagn í leitina. Binda menn vonir við vestangöngu loðnu og yrði leitað undan sunnanverðum Vestfjörðum og þaðan norður eftir. Tímaramminn er hins vegar þröngur því alla jafna er loðnan veidd á fyrstu þremur mánuðum ársins, það er rétt áður en hún hrygnir og drepst. Er það gert til að hámarka verðmæti aflans því hrognin eru ekki síður verðmæt en fiskurinn sjálfur.

Dyntóttur nytjafiskur

Loðna er, á eftir þorski, einn helsti nytjafiskur Íslendinga frá því farið var að veiða hana á miðjum 7. áratugnum. Á sama tíma er hún ein mikilvægasta fæða þorsksins. Loðnan er dyntóttur fiskur og á það til að láta sig hverfa líkt og árin 1982 og 2009. Ef fram heldur sem horfir verður árið 2019 fyrsta árið þar sem ekkert verður veitt af loðnu.

Gríðarleg verðmæti undir

- Auglýsing -

Verði það raunin er ljóst að höggið er umtalsvert fyrir íslenska hagkerfið. Útflutningsverðmæti loðnu í fyrra námu 17,8 milljörðum króna. Jafngildir það um 0,6% af landsframleiðslu sem þjóðarbúið verður af. Allt frá árinu 2012 hafa útflutningsverðmæti loðnu verið þau næstmestu á eftir þorski, að undanskildu árinu 2014 þegar makríll var með annað mesta útflutningsverðmætið.

Leggst þungt á landsbyggðina

Aflabresturinn mun einkum leggjast þungt á sjávarpláss á landsbyggðinni. Helmingi loðnunnar er landað í höfnum á Austurlandi og þriðjungur loðnukvótans er í Vestmannaeyjum. Aflabresturinn mun því ekki eingöngu hafa áhrif á þjóðarbúið og einstaka útgerðir, heldur verða hafnir, sveitarfélög og flutningafyrirtæki, svo dæmi séu nefnd, fyrir höggi.

- Auglýsing -

Mikilvægir markaðir í hættu

Það eru ekki bara Íslendingar sem eru áhyggjufullir yfir loðnunni heldur einnig kaupendur. Á vef Síldarvinnslunnar segir frá því að hópur Japana sem staddur er á landinu bíði frétta af loðnuleitinni. Japönsk fyrirtæki keyptu 20 þúsund tonn af loðnu í fyrra. Er hætta á því að ef engin loðna finnst muni japanskir neytendur beina sjónum sínum annað, til að mynda Rússlands og Kanada, og erfitt sé að vinna markaðinn til baka.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -