Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Þurfum að gera greinarmun á heilbrigðri ættjarðarást og þjóðrembu, öfgahyggju og þröngsýni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Pistill frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.

„Í dag eru rétt fimm ár frá því að ég tók við embætti forseta Íslands. Ég þakka öllum velvild og hlýhug á þessu merka skeiði minnar ævi, stuðning og ábendingar um það sem betur má gera,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, vegna þeirra tímamóta sem runnin eru upp í forsetatíð hans.

„Hvern dag finn ég þá ábyrgð og þann heiður sem stöðunni fylgir. Þá er gott að eiga góða að, fjölskyldu og vini, og ljúft að finna velvild landa sinna. Megi ykkur öllum ætíð farnast vel.

Nú þegar virðist sýnt að þessa samtíma okkar verður helst minnst í heimssögunni vegna farsóttarinnar sem nú hefur geisað yfir í vel á annað ár, og sama gildir um okkar ágæta Ísland. Í faraldrinum hef ég leitast við að þakka þeim sem hafa staðið í ströngu í þágu okkar allra. Þær kveðjur ítreka ég hér og nú. Jafnframt hef ég hvatt til þess að við látum öll til okkar taka, sinnum eigin sóttvörnum, kynnum okkur rök að baki tilmælum stjórnvalda um hvers kyns samfélagshömlur og föllumst á þær í krafti eigin sannfæringar og skynsemi.

Alltaf má benda á mistök og aðrar leiðir sem hægt hefði verið að fara en á heildina litið megum við Íslendingar þakka fyrir hversu vel hefur tekist til að verjast vágestinum hér á landi.

- Auglýsing -

Nú glímum við enn eina bylgju smita en blessunarlega hefur fátt fólk veikst alvarlega enn sem komið er. Því má ekki síst þakka víðtækum bólusetningum, því öfluga tákni um mátt rannsókna, vísinda og þekkingar.

Enn þurfum við þó að vera á verði, enn er verk að vinna.

Að því þarf að koma að við hugum rækilega að framtíð heilbrigðismála í heild sinni. Mest um vert er að huga enn betur en nú er gert að lýðheilsu, geðheilsu og forvirkum aðgerðum á þeim sviðum. Að sjálfsögðu verður ætíð nauðsynlegt að bregðast við sjúkdómum og suma þeirra er ekki hægt að forðast en aukin áhersla á heilsusamlegt líferni í samfélaginu mun alltaf skila árangri.

- Auglýsing -

Hér þarf ekki boð, bönn og vandlætingu heldur jákvæð skilaboð og hvatningu. Líði fólki vel á sál og líkama er það mun líklegra til að geta tekist á við alls kyns áskoranir okkar daga og framtíðar. Þar fyrir utan er margsannað að forvirkar aðgerðir á sviði lýðheilsu og geðheilsu spara ríki og sveitarfélögum stórfé. Framlög á þeim vettvangi valda því að minni fjármuni þarf í aðra útgjaldaliði heilbrigðiskerfisins.

Þau fimm ár sem ég hef setið á forsetastóli hef ég einnig leitt hugann að því hvort við ættum mörg hver að reyna að flýta okkar hægar í daglegu lífi. Vera má að hér sé þó stundum auðveldara um að tala en í að komast. Aftur þarf hver að finna í eigin sál og sinni hvert stefna skuli og sumum leyfist ekki sá lúxus að eiga mikið val um frítíma og atvinnu, lífsstíl og dægradvöl. En mörg getum við eflaust reynt að forðast streituvalda, minnka stress, stefna ætíð að því að skapa okkur umhverfi sem okkur líður vel í, læra að greina kjarna frá hismi, hégóma frá því sem skiptir máli.

Við ættum jafnframt að stefna að því að efla enn frekar það þjóðskipulag þar sem hver getur sýnt hvað í sér býr, sjálfum eða sjálfri sér til heilla og samfélaginu öllu. Í skólakerfinu þurfum við að halda áfram að horfa á sérhverja manneskju fyrir sig, skapa svigrúm fyrir hvern og einn, hamra á klisjunni góðu að enginn er góður í öllu en öll erum við góð í einhverju. Við eigum að efla umburðarlyndi og fjölbreytni, sjálfstraust og þekkingarleit. Þetta hef ég nefnt á fundum mínum með nemendum um land allt um leið og ég hef svarað spurningum þeirra um fátt og stórt, erfið mál og auðveld.

Embætti forseta tengist þjóðernishyggju órofa böndum. Við þurfum að gera skýran greinarmun á heilbrigðri ættjarðarást annars vegar, virðingu fyrir landi og sögu og gleði yfir þeim góðu þáttum sem sameina okkur, og þjóðrembu hins vegar, drambi og tortryggni í garð annarra, öfgahyggju og þröngsýni. Undanfarin ár hef ég gjarnan sagt í gamni, en þó alvöru um leið, að það sé nánast skrifað í starfslýsingu þjóðhöfðingja að vera bjartsýnn, hampa því sem vel er gert og stuðla að fagurri framtíðarsýn. Hér þarf þó að varast að byggja skýjaborgir sem geta svo hrunið fyrr en varir. Raunsæi kemur sér alltaf vel, hógværð sömuleiðis. Þjóð með sjálfstraust þarf ekki að hamra á því hvað hún sé frábær.

Fram undan eru kosningar til Alþingis, þær þriðju frá því að ég tók við embætti. Ágreiningur er aðal heilbrigðs og öflugs samfélags. Nú eiga þingmannsefni að takast á um strauma og stefnur flokka sinna og almenningur má segja skoðun sína á kostum og löstum hvers og eins. Öll þessi skoðanaskipti ættu að vera hvöss ef þurfa þykir en þó málefnaleg. Á því getur verið misbrestur. Fyrir kemur að á ég bágt með að skilja hvað fær fólk til að bjóða sig fram til áberandi ábyrgðarstarfa. Netið og samfélagsmiðlar eru frábær lýðræðisbylting, opinn vettvangur allra. En því miður er hætt við að þar sé vegið úr launsátri, svívirðingum ausið í skjóli nafnleyndar, auglýsingar birtar án ábyrgðarmanns. Við eigum ekki að láta þannig framferði átölulaust. Vissulega þarf fólk að þola gagnrýni en öllu má ofgera.

Í stjórnskipun okkar er það í verkahring forystusveitar stjórnmálaflokka á Alþingi að skipa landinu starfhæfa ríkisstjórn. Þegar ræða þarf myndun nýrrar ríkisstjórnar, yfirleitt eftir kosningar, veitir forseti þeim stjórnmálaleiðtoga umboð til stjórnarmyndunar sem má teljast líklegastur til að geta leitt það verk og svo öðrum ef nauðsyn krefur.

Stjórnarmyndunarumboð er því ekki einhvers konar verðlaun eða viðurkenning fyrir góðan árangur í alþingiskosningum.

Í lok þessa pistils vík ég aðeins að liðinni viku.

Nú er lokið dvöl okkar fjölskyldunnar á Austfjörðum. Við nutum þar gestrisni og góðvildar heimafólks, eins og annars staðar á ferðum okkur um landið í sumar, og þökkum kærlega fyrir okkur. Við héldum austur á mánudaginn var. Í baksýnisspeglinum sáum við sólina brjótast í gegnum skýin yfir höfuðborgarsvæðinu en ókum inn í súld og sudda. Ekki er það þó neitt að kvarta undan en óneitanlega dálítið gráglettið í ljósi þess hvernig veður hefur verið á báðum stöðum í sumar.

Í nýliðinni viku var Mary Simon sett í embætti landstjóra í Kanada og hef ég sent henni heillaóskir. Elísabet drottning er þjóðhöfðingi þar í landi en landstjóri fulltrúi hennar, situr í táknrænni tignarstöðu. Simon er af ættum frumbyggja, fyrst úr þeim hópi til að gegna embætti landstjóra. Í sumar hafa skelfilegar fregnir af fjöldagröfum við skóla fyrir börn frumbyggja á síðustu öld skekið kanadískt samfélag. Núna um helgina fagna íbúar Norður-Ameríku af íslenskum uppruna Íslendingadeginum. Ég sendi þeim kveðju í tilefni og má sjá hana á heimasíðu embættisins: https://www.forseti.is/…/2021-08-02-kve%C3%B0ja-til…/

Í ávarpinu komst ég meðal annars svo að orði:

„Last year, Íslendingadagurinn was marked by the pandemic that has affected us all. This summer, Canada Day was marked by discoveries of burial sites at residential schools for Indigenous children. At the Canadian Embassy in Reykjavík, the flag has flown at half mast. All Canadians should learn about this horrific chapter of Canadian history and continue to work towards reconciliation with Indigenous peoples. In that spirit, we can still celebrate Íslendingadagurinn, the day of the Icelanders in Canada and the United States. We must allow ourselves to value the positive aspects of patriotism, a love for one’s country and society, the decent aspects of its culture and history.“

Við búum í yndislegu landi, förum vel með það í smáu sem stóru. Við eigum saman ríkar auðlindir, lærum að nýta þær og njóta saman. Við búum í góðu samfélagi. Gerum það enn betra“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -