„Því miður, ég er upptekin,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður Flugfreyjufélags Íslands, þegar blaðamaður Mannlífs leitaði viðbragða hennar varðandi hina svokölluðu vinnufundi milli samninganefnda Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands sem nú standa yfir. Ekki er um formlegan samningafund þó að ræða milli nefndanna.
Fagfélög bæði flugmanna og flugvirkja hafa þegar samið við flugfélagið um langtimasamninga. Að því gefnu að félagsmenn samningi báða samningana standa flugfreyjur einar eftir gegn fyrirhugaðri fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair. Í samtali við Mannlíf fyrir helgi óttaðist Bogi Nils Bogason forstjóri að illa gæti farið fyrir félaginu takist samningar ekki við flugfreyjurnar.
Samkvæmt heimildum Mannlífs kveður nýlegur samningur flugmanna á um 25 prósenta launalækkun og hafa þeir meðal annars gefið eftir frídaga og eru tilbúnir til að auka vinnuframlag. Enn er allt stál í stál á milli Icelandair og flugfreyja. Samkvæmt heimildum Mannlífs eru kröfur Icelandair mun vægari en komið hefur fram í fjölmiðlum, eða nokkuð í anda þess sem flugmönnum hefur boðist. Grunnlaun flugfreyja eru þó talsvert lægri en flugmanna. Þá herma heimildir Mannlífs einnig að stjórn og forstjóri Icelandair hafi nú þegar lækkað laun sín um 30 prósent og allir helstu stjórnendur félagsins um 20 prósent.
„Við erum að horfa til þess að breyta samningum hjá flugfreyjum með sama hætti“
Bogi staðfesti að tilboð til flugfreyja sé í anda þess sem öðrum er boðið. „Við erum að horfa til þess að breyta samningum hjá flugfreyjum með sama hætti,“ sagði Bogi.
Aðspurður um hvort hann óttist að félagið kunni að falla semji flugfreyjur ekki þá segir hann það vissulega mikilvægan þátt í framtíð félagsins. „Sú er bara staðan en það er samt ekkert neitt eitt sem veltir hlassinu. Að semja við flugfreyjur er mikilvægur liður því ef okkur tekst ekki að klára fjárhagslega endurskipulagningu þá getur staðan orðið erfið. Ég hef engar forsendur fyrir öðru en að þetta gangi upp hjá okkur.“
Sjá meira hér: Bjartsýnn Bogi en ekki bugaður
Svo virðist sem gefin hafi verið út fyrirmæli að samningsaðilar verjist allra frétta því við vinnslu þessarar fréttar voru gerðar tilraunir til að ná á Boga forstjóra og alla stjórnarliða Flugfreyjufélags Íslands en án árangurs.