Bardagakappinn Gunnar Nelson er búinn að jafna sig eftir Ponzinibbio-bardagann en í honum fékk hann í fyrsta skipti á sig rothögg.
„Þetta var helvíti hraður bardagi og hreint út sagt ömurlegur fyrir mig,“ segir Gunnar.
„Við komum báðir út úr hornunum í byrjun og þó að hann pressi aðeins næ ég strax nokkuð góðu „uppercut-höggi“ á hann. Þá kemur hann hins vegar út með útrétta hönd og potar djúpt í bæði augun á mér. Eftir það sé ég tvöfalt, sé bókstaflega tvo gæja fyrir framan mig.“
Ponzibbio potaði svo aftur í augu Gunnars þegar hann var kominn upp við búrið og var að reyna að verja sig og Gunnar var því með lokuð augun þegar Ponzibbio náði rothögginu.
Í viðtölum strax eftir bardagann við Ponzibbio tók Gunnar stóran hlut ábyrgðarinnar á sig og sagði að hann hefði átt að stoppa bardagann strax, en samkvæmt reglum getur aðeins dómari stöðvað bardaga ekki bardagakappi.
Hann segist þó hafa lært lexíu sína og ef hann lendir aftur í svipuðum aðstæðum muni hann reyna að láta dómarann vita svo hann geti stöðvað bardagann. „Maður þarf að fá tækifæri til að jafna sig eftir svona árás, því það er frekar áríðandi að sjá almennilega í bardaga.“
„Það urðu einhveru uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“
Gunnar er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði en segist tilbúinn í næsta bardaga. „Síðustu æfingar hafa gengið mjög vel og ég er bara að koma mér aftur í toppform.“
Það vakti athygli nýverið þegar Gunnar virtist kalla eftir bardaga við Darren Till í athugasemd á Instagram. Till kom inn í UFC nýverið með hvelli og sagði að allir væru of hræddir við að berjast við hann. Gunnar svaraði þessari staðhæfingu með orðunum: „Ég er til stóri strákur.“ „Það urðu einhver uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“
Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Myndband / Óskar Páll Sveinsson