Gunnar Nelson bardagaíþróttamaður berst á laugardaginn í Toronto í Kanada við Brasilíumanninn Alex Oliveira. Gunnar segir bardagann leggjast vel í sig en hann er vel undirbúinn bæði andlega og líkamlega. Alex sé hörkubardagamaður, með öðruvísi stíl en margir sem hann hefur keppt við og frekar villtur miðað við marga á þessu stigi.
„Bardaginn leggst vel í mig,“ segir Gunnar. „Æfingabúðirnar hafa gengið vel, ég er tilbúinn í þetta og ánægður með andstæðinginn sem ég fékk. Ég er spenntur og tilbúinn að fara að djöflast á laugardaginn.“
Gunnar tapaði í júlí í fyrra gegn Santiago Ponzinibbio og hefur ekki barist síðan þá. Andstæðingur hans að þessu sinni, Brasilíumaðurinn Alex Oliveira, er númer 13 á heimslistanum í veltivigt eða einu sæti fyrir ofan Gunnar.
Alex er hörkubardagamaður, með öðruvísi stíl heldur en margir sem ég hef keppt við.
„Alex er hörkubardagamaður, með öðruvísi stíl heldur en margir sem ég hef keppt við og er frekar villtur miðað við marga á þessu stigi. Hann er árásargjarn og sækir svolítið mikið inn með höggum. Hann er með frekar miklar sveiflur og er yfirhöfuð mjög fær bardagamaður – fínn á jörðinni og fínn standandi. Hann er toppandstæðingur en vill örugglega helst halda bardaganum standandi. Það vilja fæstir fara í jörðina með mér þannig að menn vilja halda þessu standandi og nota högg og spörk þannig að maður þarf að vera vakandi fyrir svoleiðis hlutum og setja niður góðar gildrur.“
Gunnar segir að hver bardagi sé sá mikilvægasti hverju sinni og skipti öllu máli upp á framhaldið. „Það er ekkert annað en full einbeiting á það sem er næst og svona bardagi skiptir gríðarlega miklu máli, sérstaklega þegar maður kemur eftir tap – ekki það að ég spái mikið í það en þessi bardagi skiptir bara öllu máli.“
Hálfpartinn núllstillir sig
Gunnar segist hafa æft stíft undanfarna mánuði. „Ég hef undanfarna tvo mánuði æft svona 10-12 sinnum í viku. Þrjár af þeim æfingum eru hreinar þrekæfingar og lyftingar en hvað aðrar æfingar varðar þá hef ég verið að æfa mig í ákveðnum aðstæðum sem tengjast íþróttinni – ég er þá kannski að glíma eða æfa kickbox og síðan blanda ég þessu öllu saman. Þetta er misjafnt; sumar æfingar eru meira tækniæfingar en aðrar eru meira viðbragðsæfingar og þrek í leiðinni þar sem ég tek vel á því. Þetta hef ég sem sagt gert síðastliðna tvo mánuði og er nú kominn til Kanada og er tilbúinn.“
Gunnar segir andlegan undirbúning líka skipta máli. „Ég þekki sjálfan mig og ég veit hvernig mér finnst best að haga mér dagsdaglega þegar ég er að æfa og síðan í hvaða hugarástandi ég vil vera þegar fer að nálgast bardagann og náttúrlega þegar að honum kemur. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að vera tiltölulega rólegur og afslappaður en þá finnst mér ég bregðast langbest við og vera með bestu viðbrögðin í rauninni, til dæmis þegar maður þarf að taka snöggar ákvarðanir og hreyfa sig hratt og örugglega.
Maður hálfpartinn núllstillir sig þegar maður er að fara þarna inn og ég spái ekki sérstaklega í neitt.
Andlegur undirbúningur kemur með reynslunni, maður lærir á sjálfan sig og hvernig manni finnst vera best að haga sér þegar nær dregur bardaganum. Það hjálpar gríðarlega mikið upp á allar æfingar ef manni líður vel, er með gott fólk í kringum sig og ef góð stemning er í æfingabúðunum. Þegar nær dregur bardaganum þá spái ég lítið í hann; ég dreifi huganum. Ég er núna að bíða eftir bardaganum og þegar kemur að því að fara inn í búrið snýst þetta fyrst og fremst, í mínu tilfelli, um að vera afslappaður, rólegur og treysta á sjálfan mig og hornamennina mína og ef ég er afslappaður og einbeittur þá tek ég réttar ákvarðanir og bregst hratt og örugglega við. Maður hálfpartinn núllstillir sig þegar maður er að fara þarna inn og ég spái ekki sérstaklega í neitt nema ef maður þarf snögglega að breyta um leikáætlun eða setja eitthvað upp öðruvísi.“
Bruce Lee og Jackie Chan
Gunnar segir að hann hafi haft áhuga á bardagaíþróttum frá því hann man eftir sér. Þess má geta að Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, er framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Mjölnis sem hefur þann tilgang að efla ástundun og keppni lifandi bardagaíþrótta. „Ég hafði gaman af því að horfa á bíómyndir með Bruce Lee og Jackie Chan og síðan byrjaði ég í karate þegar ég var 13 ára og fór aðeins að fá að tuskast. Ég fann strax að þetta höfðaði mikið til mín.“
Gunnar segir að það að æfa og keppa í bardagaíþróttum sé það sem hann elski að gera og að honum líði vel meðan á æfingum og keppnum stendur.
„Þetta er eitthvað sem ég hef gríðarlegan áhuga á og mér finnst vera gaman að finna út úr alls konar aðstæðum og vandamálum sem tengjast bardagaíþróttum og sem tengist því að þjálfa skrokkinn á mér til þess að takast á við þessar aðstæður. Þetta gefur mér einhverja ástæðu. Það er ekkert annað sem lætur mér líða svona. Þetta á svo hrikalega stóran part í mér.“
Gunnar segir að langtímamarkmiðið sé fyrst og fremst að bæta sig og auðvitað að halda áfram að vinna bardaga. „Ég einbeiti mér að því að bæta mig, verða sífellt betri og skilja í rauninni íþróttina betur og bæta á mig einhverjum vopnum. Það sem mér finnst vera skemmtilegast er þegar ég finn að ég er að öðlast einhvern skilning og tilfinningu fyrir einhverju sem ég hafði kannski ekki áður.“
Sársaukinn venst
Gunnar segir að sársaukinn sem getur fylgt íþróttinni sé eitthvað sem venjist þegar tekist er á. „Það er hægt að meiða sig í hvaða íþrótt sem er og kannski ekki síst þessari íþrótt þar sem eru mikil átök. Það er ekki eitthvað sem stoppar mann þótt eitthvað sé smásárt. Þetta venst og húðin þykknar og maður herðist af því að vera að djöflast svona dagsdaglega og takast á en sársauki er, held ég, ekki eitthvað sem margir spá í sem stunda þessa íþrótt. Ég held að það séu frekar þeir sem hafa ekki verið í þessari íþrótt og eru að horfa á þetta utan frá sem halda að þetta hljóti að vera rosalega vont. En þegar á hólminn er komið og maður þekkir til og er kominn með smáreynslu þá er sársaukinn ekkert sérstakt atriði.“
Þar sem ég var meiddur á tímabili og þurfti að taka mér hlé, hefur þetta ár svolítið snúist um að ná sér góðum.
Gunnar segir að sársaukinn sé þess virði. „Þótt maður meiði sig eitthvað smá … Þetta er eitthvað sem er inngróið í okkur frá örófi alda því maðurinn hefur alltaf tekist á. Þetta er í eðli okkar.“
Talið berst þá aftur að bardaganum sem er fram undan, viðureigninni við Alex Oliveira. „Þar sem ég var meiddur á tímabili og þurfti að taka mér hlé, hefur þetta ár svolítið snúist um að ná sér góðum og fara inn í þennan bardaga. Annars er ég bara spenntur fyrir þessu og tilbúinn í slaginn.“
Texti / Svava Jónsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson