RVK Feminist Film Festival er ný alþjóðleg kvikmyndahátíð sem verður haldin í Reykjavík 16. – 19. janúar 2020. Hátíðin verður haldin í Bíó Paradís, Icelandair Hótel Marina og Norræna húsinu.
Tilgangur RVK Feminist Film Festival er að gera kvenkyns leikstjóra sýnilegri og á hátíðinni verða einungis sýndar kvikmyndir eftir kvenkyns leikstjóra.
„Með hátíðinni langar okkur að skapa rými fyrir konur í kvikmyndabransanum til að tengjast, hvetja til umræðna og samvinnu og koma kvikmyndum eftir kvenleikstjóra meira á framfæri. Auka kynjajafnrétti í kvikmyndaheiminum nær og fjær. Sjá fleiri sögur um konur, eftir konur með kvenpersónum. Ungar kvikmyndagerðarkonur í dag þurfa fyrirmyndir í bransanum og er þessi hátíð mikilvægur liður í þeirri þróun,“ er haft eftir Maríu Leu Ævarsdóttur, hátíðarstjóra og stofnanda RVK Feminist Film Festival í tilkynningu.
Á laugardaginn verður sérstakur viðburður haldinn á Icelandair Hótel Marina á milli kl. 17 og 20. Þar verður hátíðin kynnt nánar.