Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur tilkynnt að ferðatakmarkanir sem tóku gildi þann 20. mars sl. verði framlengdar til 15. maí nk. Þetta kemur fram á vef dómsmálaráðuneytisins. Þar segir að umfang takmarkananna haldist óbreytt og verður því útlendingum, sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar, áfram óheimilt að koma til landsins nema þeir geti sýnt fram á að för þeirra sé vegna brýnna erinda.
Ríkisborgarar Schengen-svæðisins og aðstandendur þeirra munu áfram geta komið óhindrað inn á svæðið og er sérstaklega kveðið á um að útlendingar sem hafa dvalar- eða búseturétt innan svæðisins eigi einnig rétt á að koma. Þá eru ákveðnar starfsstéttir undanþegnar takmörkunum, þar á meðal starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og þeir sem sinna farmflutningum.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út tilmæli þann 8. apríl til aðildarríkja sambandsins og Schengen samstarfsins um að draga áfram úr ferðum fólks inn á Schengen svæðið til 15. maí í því skyni að hægja á útbreiðslu kórónaveirunnar.
Á vef ráðuneytisins segir að nauðsynlegt sé að framlengja þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til svo að hægt sé að ná stjórn á útbreiðslu COVID-19 og að aðgerðirnar nái aðeins tilgangi sínum ef öll aðildarríki taki þátt.
Sjá einnig: Óljóst hvenær ferðamenn fara að streyma til landsins