Föstudagur 27. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Tilvistarkrísa hins góða neytanda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Plastið er orðið tákn þeirrar umhverfisvár sem íbúar jarðarinnar glíma við og hefur gríðarleg vitundarvakning átt sér stað á síðustu misserum og árum. Með miklu upplýsingaflæði geta ákvarðanir þeirra sem vilja vera meðvitaðir neytendur flækst fyrir þeim; hvað skal versla og í hverju á að bera það heim. Svo er spurning hvort þetta skipti yfirhöfuð einhverju máli í stóra samhenginu?

Í flóknum heimi hraðra breytinga getur reynst erfitt að fóta sig sem neytandi – og hlýtur fólk að velta því fyrir sér hver áhrif þeirra eigin neyslu og lifnaðarhátta séu. Plastnotkun hefur orðið ákveðin táknmynd þeirra vandamála sem mannkynið stendur frammi fyrir og ekki er óalgengt að rekast á myndir af urðunarstöðum fullum af plastpokum, maga sjávardýra útbelgda af plastúrgangi og fuglum með kippuplast fast um hálsinn með fréttum eða póstum á samfélagsmiðlum. Raunveruleikinn vekur því ugg og ákveðinnar viðhorfsbreytingar gætir varðandi umhverfisvernd og loftslagsmál á síðustu árum.

Margar spurningar vakna þegar að því kemur að ákveða hvernig best sé að snúa þessari þróun við – er það til að mynda einungis stjórnvalda og fyrirtækja að setja lög og reglur fyrir fólk að fylgja eða getur hver og ein manneskja haft sín áhrif? Við flóknum vandamálum eru oft flókin svör og er plastvandinn eitt þeirra vandamála. Ein skilaboð sem neytendur hafa fengið er að sleppa því að kaupa plastpoka í verslunum og nota pappírs- eða fjölnota poka í staðinn til að bera vörurnar heim. Þetta virðist þó ekki vera svo einfalt þegar fleiri þættir eru skoðaðir eins og kolefnisspor pokanna og þegar kostir og ókostir þeirra eru bornir saman byrja málin að flækjast.

Ekki er auðvelt að svara því hvort pappírspokar eða plastpokar séu umhverfisvænni, eða þá fjölnota pokar. Bandaríska blaðið The New York Times fjallaði um málið í mars síðastliðnum og þar er bent á að plastpokar, sem grotna margir ekki niður fyrr en að árhundruðum loknum, geti skapað mikið úrgangsvandamál. Hins vegar útheimti framleiðsla pappírspoka meiri orku og útblástur gróðurhúsalofttegunda, sem sé ekki gott út frá loftslagsbreytingum.

Endurnýtanlegir pokar geti þannig verið ágætis málamiðlun ef passað er upp á þá og þeir notaðir mikið. Það sem sett sé í pokann hafi þó á endanum meiri áhrif á umhverfið en hvaða tegund af poka notaður sé.

Hægt er að lesa ítarlega fréttaskýringu um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -